Ásmundur Stefánsson forseti ASÍ: Laun ekki aðeins kostnaðarliður fyrirtækja Mörg fyrirtæki lifa á kaupmætti almennings "ÉG held að það sé komin ástæða til að við gerum okkur grein fyrir því að laun eru ekki bara kostnaðarliður hjá fyrirtækjum.

Ásmundur Stefánsson forseti ASÍ: Laun ekki aðeins kostnaðarliður fyrirtækja Mörg fyrirtæki lifa á kaupmætti almennings "ÉG held að það sé komin ástæða til að við gerum okkur grein fyrir því að laun eru ekki bara kostnaðarliður hjá fyrirtækjum. Við lifum á laununum og ef grannt er skoðað er það stór hluti fyrirtækja, sem lifir einnig á þeim, lifir á því að við getum keypt það sem þau hafa upp áað bjóða. Þetta held ég að Vinnuveitendasambandið og stjórnmálamenn geri sér ljóst þótt þeir spili aðra plötu í augnablikinu," sagði Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, er hann var inntur álits á orðum Þórarins V. Þórarinssonar, framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins, umað kaupmáttarskerðing sé óhjákvæmileg á næsta ári.

Ásmundur sagði að launakostnaður hér hefði alls ekki farið framúr hófi miðað við nágrannalöndin ef til lengri tíma væri litið. Til dæmis hefði launahlutfallið í sjávarútvegi hækkað um 1% frá því í fyrra, en fjármagnskostnaðurinn væri um helmingi meiri og orðinn nánast eins stór liður og launin. "Það þarf orðið töluvert hugmyndaflug til þess að skella skuldinni á launin en líta fram hjá fjármagnskostnaði og þeirri augljósu staðreynd að fjárfestingar um langa hríð hafa ekki verið miðaðar nægilega við þarfir framleiðslunnar. Skipulagsleysið er líka augljóst og þar er sá vandi, sem þarf að takast á við," sagði Ásmundur.

Hann sagði að það væri einnig sláandi að rýrnun kaupmáttar um 10% frá því í apríl og minni yfirvinna launafólks, sem hefði ein sér leitt til 6% tekjuminnkunar, væri farin að hafa áhrif á kaup á neysluvörum og þjónustu og kæmi þannig niður á innlendum framleiðslugreinum. "Ef ofan á það kemur kjaraskerðing værum við ekki aðeins að kalla á aukinn ójöfnuð, sem reynslan frá 1983 sýnir að yrði raunin, heldur værum við nánast að dæma okkur í heimatilbúið atvinnuleysi, sem gæti orðið alvarlegt og erfitt að komast út úr því aftur, það sýnir reynsla nágrannaþjóðanna okkur."

Ásmundur Stefánsson segir, að rýrnun kaupmáttar um 10% frá því í apríl, og minni yfirvinna launafólks, væri farin að hafa áhrif á kaup á neysluvörum og þjónustu og kæmi það niður á innlendum framleiðslugreinum.