14. maí 1996 | Íþróttir | 480 orð

Kosið um formann Körfuknattleikssambandsins í fyrsta sinn

Ólafur hafði betur

ÁRSÞING Körfuknattleikssambandsins, hið 36. í röðinni, var haldið á Akranesi um helgina. Þing þetta var um margt tímamótaþing því tveir sóttust eftir formannssætinu og þurfti þingheimur að kjósa formann í fyrsta sinn í sögu KKÍ. Þá var fyrirkomulag úrvalsdeildarinnar tekið til gagngerrar endurskoðunar og ákveðið var að koma á nýrri keppni, fyrirtækjabikarnum.
KÖRFUKNATTLEIKUR Kosið um formann Körfuknattleikssambandsins í fyrsta sinn Ólafur hafði betur ÁRSÞING Körfuknattleikssambandsins, hið 36. í röðinni, var haldið á Akranesi um helgina. Þing þetta var um margt tímamótaþing því tveir sóttust eftir formannssætinu og þurfti þingheimur að kjósa formann í fyrsta sinn í sögu KKÍ. Þá var fyrirkomulag úrvalsdeildarinnar tekið til gagngerrar endurskoðunar og ákveðið var að koma á nýrri keppni, fyrirtækjabikarnum.

Ólafur Rafnsson, varaformaður KKÍ, og Bjarni Hákonarson, framkvæmdastjóri DHL hraðflutninga, sóttust eftir formannsstólnum og það var þung undiralda á þinginu, bæði á föstudag og laugardag og virtust menn alls ekki gera sér grein fyrir því hvor myndi hafa betur í kosningunni á sunnudaginn. Þegar búið var að telja þau 109 atkvæði sem greidd voru kom í ljós að Ólafur hafði sigrað, hlaut 72 atkvæði en Bjarni 37 atkvæði.

En þingheimur þurfti að kjósa oftar því fimm buðu sig fram til setu í stjórn næstu tvö árin en aðeins þrjú sæti voru laus. Svo fór að Ólafur Jóhannsson úr Grindavík, Björn Björgvinsson, fyrrum formaður KKÍ, og Sigrún Anna Rafnsdóttir úr Borgarnesi voru kjörin, en Gísli S. Friðjónsson, framkvæmdastjóri Hagvagna, og Kristinn Stefánsson, gjaldkeri KKÍ, náðu ekki kjöri. Gísli var síðan kjörinn til eins árs í stjórnina en Kristinn og Helgi Bragason náðu ekki kjöri þar. Fjórir gáfu kost á sér í varastjórn, Helgi Bragason, Magnús Svavarsson frá Sauðárkróki og Guðjón Þorsteinsson frá Ísafirði náðu kjöri en Kristinn Stefánsson ekki.

Nýkjörinn formaður var að vonum ánægður að lokinni kosningu, en átti hann von á að sigra með þetta miklum mun? "Ég veit það eiginlega ekki. Ég var búinn að finna mikinn stuðning félaganna um allt land, en það voru líka margir sem gáfu ekki upp afstöðu sína þannig að óvissuatkvæðin gátu sett strik í reikninginn," sagði Ólafur, en hann hefur verið í stjórn KKÍ síðstu sex árin.

Þegar Ólafur var spurður hver væru brýnustu verkefni sambandsins í nánustu framtíð sagði hann: "Það kom fram á þinginu að KKÍ má auðvitað ekki missa sjónar á megintilgangi sambandsins, sem er að annast mótahald sómasamlega og þar sem við byrjum með nýtt keppnisfyrirkomulag verður nokkur vinna við það. Síðan er það auðvitað áframhaldandi uppbygging og fræðslustarf og stóra málið hjá okkur á næstu dögum er auðvitað Evrópukeppnin. Þegar við erum komnir áfram í þeirri keppni skapast sennilega einhver mestu sóknarfæri fyrir okkur sem við höfum fengið lengi. Við gætum lent í riðli með einhverjum af millisterku þjóðunum í Evrópu og þá gætum við ef til vill selt sjónvarpsréttinn. Það má nefna fleira sem kallar á hjá KKÍ; fjármál félaganna, uppbygging fyrstu deildar, kvennakörfuboltinn, markaðssetning hans og margt fleira."

Ólafur sagði mjög mikilvægt að komast áfram úr Evrópuriðlinum sem leikinn verður í Laugardalshöllinni. "Það munar öllu fyrir okkur að fá "alvöru" landsleiki hingað heim í stað þess að leika í einni "túrneringu" á tveggja ára fresti."

Hagnaður varð á rekstri KKÍ í fyrra, tekjur voru 32.686.513 kr. en gjöldin 417.462 krónum minni.

ÓLAFUR Rafnsson nýkjörinn formaður KKÍ.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.