Kristján Albertsson látinn KRISTJÁN Albertsson, sá kunni menningar- og bókmenntafull trúi eldri kynslóðar, er látinn. Hann lést í gærmorgun, 31. janúar, eftir stutta legu á Borgarspítalanum á 92. aldursári. Kristján fæddist á Akranesi 9. júlí 1897.

Kristján Albertsson látinn

KRISTJÁN Albertsson, sá kunni menningar- og bókmenntafull trúi eldri kynslóðar, er látinn. Hann lést í gærmorgun, 31. janúar, eftir stutta legu á Borgarspítalanum á 92. aldursári.

Kristján fæddist á Akranesi 9. júlí 1897. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1917, las síðan bókmenntasögu við Hafnarháskóla 1917-21 og var við nám í Þýskalandi og Frakklandi til 1924. Kristján var ritstjóri Varðar 1924-27 og lét þá mjög til sín taka í menningarlífi höfuðborgarinnar, var þá m.a. leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur um skeið, 1924-25, og formaður Leikfélagsins 1925-26. Hann var einn af ritstjórum menn ingartímaritsins Vöku, sem kom út 1927-29. Síðan dvaldist Kristján ýmist hér heima eða erlendis um langt skeið, var lektor í íslensku við Berlínarháskóla 1935-43. Hann gekk í utanríkisþjónustuna 1946 og var þá lengst af í París. Hann var í sendinefnd Íslands á allsherj arþingum SÞ 1951-55 og 1959-62 og átti þá sæti í mikilvægum nefndum á vegum SÞ, svo sem nefnd til rannsókna á skilyrðum fyrir frjálsum kosningum um allt Þýskaland og endursameiningu landsins.

Mikil og fjölbreytileg ritstörf liggja eftir Kristján Albertsson. Fyrsta bókin frá hans hendi var sjónleikurinn Hilmar Foss, 1923. Síðan kom Tungan í tímans straumi, ritgerðir 1953; Í gróandan um, ritgerðir og ræður 1955; Hönd dauðans, sjónleikur 1957 - sýndurí Þjóðleikhúsinu 1958 undir nafninu Haust.

Kristján Albertsson sendi frá sér Ævisögu Hannesar Hafsteins í þremur bindum 1961-64, önnur útgáfa kom 1985. Þá gaf hann út tvær skáldsögur, Ferðalok, 1976 og Meðan lífið yngist, 1982. Fyrir síðustu jól kom svo út eftir Kristján mikið ritgerðasafn undir heitinu Menn og málavextir.

Kristján hefur verið blindur síðustu sex árin, en árið 1985 skráði Jakob F. Ásgeirsson eftir honum bókina Kristján Albertsson; Margs er að minnast, þar sem þessi roskni heimsborgari lítur yfir farinn veg.

Auk þessa hefur Kristján Albertsson séð um útgáfu margra bóka og skulu nefndar hér Sögur frá ýmsum löndum I-III ásamt Jóni Sigurðssyni frá Kaldaðarnesi, 1932-1934; Ritsafn Jóns Sigurðssonar frá Kaldaðarnesi 1972; Ævisögu Jóns Steingrímssonar 1973 o.m.fl.

Með Kristjáni Albertssyni er horfinn af sjónarsviðinu sá maður sem áreiðanlega mundi flest og lengst af samtíðarmönnum okkar. Og hann sagði manna best frá einsog glöggt kemur fram í bókinni Margs er að minnast, sem öll var samin eftir að hann varð blindur, svo og í sjónvarpsviðtölum, sem tekin voru um líkt leyti. Kristján hélt sínu andlega fjöri og minni til hins síðasta og það seinasta sem hann samdi er alllangur formáli fyrir ritgerðasafninu Mönnum og málavöxtum, sem hann las fyrir ritara síðastliðið haust.

Kristján Albertsson.