1. febrúar 1989 | Innlendar fréttir | 411 orð

Níu metra stálkross reistur við Úlfljótsvatn Páfi blessar krossinn í heimsókn

Níu metra stálkross reistur við Úlfljótsvatn Páfi blessar krossinn í heimsókn sinni í júní NÍU METRA háum krossi, blessuðum af Jóhannesi Páli páfa II, verður komið fyrir ofan við Úlfljótsvatn næsta sumar.

Níu metra stálkross reistur við Úlfljótsvatn Páfi blessar krossinn í heimsókn sinni í júní

NÍU METRA háum krossi, blessuðum af Jóhannesi Páli páfa II, verður komið fyrir ofan við Úlfljótsvatn næsta sumar. Krossinn, sem er smíðaður í Póllandi, verður fluttur hingað í aprílmánuði. Hannverður þá settur við útialtari á Landakotstúni þar sem páfi blessar hann við almenna guðsþjónustu í júnímánuði. Að lokinni heimsókn páfaverður krossinum valinn staður við Úlfljótsvatn. Gunnar Eyjólfsson, leikari og skátahöfðingi, hefur haft veg og vanda af þessu framtaki og aflað framlaga hjá hópi einstaklinga, ". . . sem vilja ekki láta nöfn sín koma fram, en ég kalla þá "Vini krossins"," segir hann.

Hann segir að hugmyndin hafi komið fram í fyrrasumar þegar hann bauð tveimur pólskum prelátum, sem hér voru á ferðalagi, í dagsferðum Suðurland. "Ég sagði þeim að mig langaði til að fá kross úr eik úr Karpatafjöllunum, sem yrði gerður í Póllandi og síðar settur upp á Íslandi, blessaður af páfanum, tileinkaður íslenskri æsku. Nágrenni Úlfljótsvatns, þar sem til dæmis er sumarbúðastarf skáta, er tilvalinn staður. Mig langaði til að krossinn bæri þar við himin, til að þeir sem kæmu að Úlfljótsvatni yrðu ekki í friði fyrir þessu tákni, sem þjóðin hefur helgað sig í 1000 ár."

Báðir prelátarnir starfa í Kraká og annar þeirra, monsignor Gorzel any, er æskuvinur páfa. "Fljótlega eftir að hann kom heim til Póllands skrifaði hann mér bréf," segir Gunnar, "og sagðist hafa leitað álits á þessu hjá arkitektum og verkfræðingum. Þeir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að eik hentaði illa en góð reynsla væri af stálkrossum. Gorzel any bauð mér að kross yrði gerður í Póllandi og sendur hingað. Ég bar þetta undir nokkra vini mína og kunningja og þeir tóku strax mjögvel í það að styrkja þetta.

Ég vil að krossinn sé á þannig stað að hann sé aðgengilegur fólki á öllum aldri - þó þannig að ekki sé hægt að keyra að honum, heldur verði fólk að leggja á sig svolitla krossgöngu. Á þeirri leið gæti fólk sem örvæntir í lífinu fundið styrk og þrótt og hugsað um og þakkað fyrir þá náð sem þeir hafa orðið aðnjótandi sem kristnir menn. Krossinn minnir æskuna á að við erum og viljum vera kristin þjóð," sagði Gunnar Eyjólfsson.

Pólski krossinn er gerður úr stáli en kubbarnir sem hann er festur saman um eru úr eik. Á teikningum frumgerðarinnar stendur: Kross norðursins, staðsettur á Íslandi, helgaður íslenskri æsku, í umsjá íslenskra skáta.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.