Kristján Albertsson ­ Minning Kristján Albertsson var einn í hópi þeirra andans- og menntamanna, sem fæddust skömmu fyrir eða kringum síðustu aldamót og komu fram á sjónvarsviðið á öðrum og þriðja áratug aldarinnar. Þessirmenn lögðu allir fram sinn skerf til þroska og andlegrar eflingar þjóðarinnar, sem sótti öruggum skrefum fram til sjálfstæðis og þurfti á slíkum mönnum að halda. Þetta var síður en svo einsleitur hópur, hvorki um skoðanir, vinnubrögð né viðfangsefni. En eitt áttu þessir andans menn sameiginlegt sterka þjóðerniskennd og trú á land sitt og þjóð - og voru þeir því oft býsna samtaka margir hverjir.

Áhrif þessara manna eru ómæld. Hyggjum einungis að því, sem gleggst blasir við - bókmennta verkunum, sem litu hér dagsins ljós milli 1925 og 1945 og berum þá sköpun saman við hvaða tvo áratugi sem er aðra í Íslandssögunni. Ætli við verðum ekki að leita afturá 13. öldina til að finna eitthvað sambærilegt.

Þessir andans menn aldamótanna eru nú flestir horfnir. Við fylgjum einum af þeim síðustu, Kristjáni Albertssyni, til grafar í dag.

Sennilega má segja, að Kristján Albertsson hafi verið einna alþjóðlegast sinnaður af þessum mönnum og sá þeirra, sem vann einna ötullegast að því að opna gluggana að umheiminum, kynna þjóðinni, hvar feitast var á stykkinu í erlendum bókmenntum. Í því skyni gaf hann t.d. út ásamt Jóni frá Kaldaðarnesi Sögur frá ýmsum löndum I-III, 1932-34, og ritaði fjölda greina. Hann var síleitandi að því, sem var nýtt og ferskt og manna fundvísastur á slíkt. Þess vegna varð hann fyrri til en aðrir að koma auga á mikilleik Halldórs Laxness sem rithöfundar, finna nýjabrumið í ljóðum Jóhanns Jónssonar, svo að eitthvað sé nefnt.

Kristján Albertsson stóð eigi að síður afar föstum fótum í íslenskri menningu og bókmenntaarfleifð hann kunni sumar Íslendingasögurnar utan bókar, að mér fannst en í skrifum sínum fjallaði hann oftast um samtíðina, einkenni hennar og vandamál. Áhugamál hans á samtímanum breyttist ekkert, þó að hann yrði gamall og blindur. Hann reyndi að fylgjast vel með og tókst það, svo var Ríkisútvarpinu og Hljoðbókasafni Blindrafélagsins fyrir að þakka. Um vandamállíðandi stundar var hann að hugsa fram á síðasta dag. Þegar ég hitti hann síðast málhressan fyrir um þremur vikum, ræddum við um stjórnmálaviðhorfið, og hafði hann áhyggjur af því.

"Ekkert mannlegt er mér óviðkomandi" er haft eftir hinum aþenska Menander. Þessi grund vallarsetning vestræns húmanisma átti sannarlega vel við Kristján Al bertsson. Þótt hann væri umfram allt bókmenntamaður, lét hann sig skipta allt, sem snerti á einhvern hátt velferð mannsins og mannlega reisn á jörðu hér. Hann íhugaði málin vandlega, myndaði sér ákveðnar skoðanir og ritaði svo um þau með skaphita, eins og Zola vildi að rithöfundar gerðu. Þess vegna stóð hann oft í ritdeilum og það við ágæta vini sína, eins og Þórberg Þórðarson og Halldór Laxness. Hann hvorki vildi né gat þagað við því, sem var að hans dómi rangt, og gilti þá einu, hver í hlut átti. En hann taldi fráleitt, að deilur um málefni, þótt harðar væru, þyrftu að hafa áhrif á persónuleg kynni. Það var víst oft litið öðruvísi á það frá hinni hliðinni, en þeir sem stórir voru, eins og Kristján Albertsson sjálfur, komu hér að fullu til mótsvið hann. Ég var viðstaddur, þegarþeir hittust í síðasta sinn Kristján Albertsson og Halldór Laxness og mun hafa lýst því lítið eitt í af mælisgrein um Kristján níræðan, sem birtist í Morgunblaðinu 9. júlí 1987. Það er mér vissulega ógleymanleg stund, en mikils þótti mér um það vert að mér fannst ég skynja að aldrei hefði borið skugga á vináttu þessara tveggja samferðamanna þrátt fyrir ólíkar skoðanir og hatrammar ritdeilur um skeið tveir rosknir séntilmenn og áhugamenn um framtíð lands og heims, sem sannarlega gerðu greinarmun á mönnum og málefnum.

Kristján Albertsson var kominn af merkum bændaættum á Vesturlandi. Móðir hans var Steinunn Sigríður dóttir Kristjáns Sigurðssonar bónda og sjósóknara í Hraun höfn á Snæfellsnesi og konu hans Steinunnar Jónsdóttur, hreppstjóra í Bergsholti. Kona Jóns í Bergs holti og móðir Steinunnar var Þorbjörg Guðmundsdóttir, prests og fræðimanns á Staðastað, þess er samdi Safn af íslenzkum orðskviðum, Khöfn 1830. Séra Guðmundur ritaði einnig í Ármann á Alþingi, enda var sonur hans annar útgefenda ritsins. Það var Þorgeir Guðmundsson "í lundinum góða", sá sem Jónas Hallgrímsson orti um Nú er vetur úr bæ.

Systir Steinunnar móður Kristjáns Albertssonar var Margrét Þorbjörg kona Thors Jensens, og voru þeir því systrasynir Thorsbræður og Kristján. Albert faðir Kristjáns var síðast skrifstofustjóri við Landsbanka Íslands og lést 1911. Hann var sonur Þórðar Sigurðssonar bónda á Fiskilæk í Borgarfirði. Þórður hafði lært trésmíði í Kaupmannahöfn og gerðist þá mikill aðdáandi Alberts Thorvaldsens, eins og Íslendingar nefndu hann jafnan, og skírði einn af sonum sínum eftir listamanninum. Af öðrum börnum Þórðar á Fiskilæk varð kunnastur Matthías Þórðarson þjóðminjavörður.

Móðir Alberts og amma Kristjáns Albertssonar var Sigríður Runólfsdóttir frá Saurbæ á Kjalarnesi, sem þekkt var fyrir sínar læknishendur. Hún var systir Guðrúnar Runólfsdóttur, þriðju konu Matthíasar Jochumssonar skálds og móðir allra barna hans. Var Matthías Þórðarson látinn heita í höfuðið á þjóðskáldinu. Af bræðrum Alberts föður Kristjáns varð kunnastur Ágúst Flygenring útgerðarmaður í Hafnarfirði.

Kristján Albertsson var séntil maður bæði í sjón og reynd, dvaldist langdvölum erlendis, en hugsaði sífellt heim. Hann kynntist stórmennum og þá ekki síst úr stétt skálda og rithöfunda, enda var það honum auðvelt, sagði hann mér, slíkir menn tóku honum vel, þegarþeir vissu að hann var bókmenntamaður úr landi Íslendingasagna. Kristján var mjög vel máli farinn eins og raunar margir af hans kynslóð voru, og þurfti ekki menntamenn til - og hann hafði frá mörgu að segja og sagði þannig frá að unun var á að hlýða.

Við kveðjum hann með söknuði og virðingu.

Eiríkur Hreinn Finnbogason