Ólöf S. Magnúsdóttir Vinur þinn er þér allt, hann er akur sálarinnar, þar sem samúð þinni er sáð og gleði þín uppskorin. Hanner brauð þitt og arineldur. Þú kemur tilhans svangur og í leit að friði. Þegar vinur þinn talar, þá andmælir þú honum óttalaust eða ert honum samþykkur af heilum hug. Og þegar hann þegir, skiljið þið hvor annan. Því að í þögulli vináttu ykkar verða allar hugsanir, allar langanir og allar vonir ykkar til, og þeirra er notið í gleði, sem krefst einskis. Þú skalt ekki hryggjast, þegar þú skilur við vin þinn, þvíað það, sem þér þykir vænst um í fari hans, getur orðið þér ljósara í fjarveru hans, einsog fjallgöngumaðurinn sér fjallið best af sléttunni.

(Kahil Gibran)

Hún Ólöf er dáin, það er erfittað sjá á eftir ungri vinkonu í blóma lífsins, sem manni finnst rétt að byrja, geislandi af hamingju, nýtrúlofuð, svo stolt af fjölskyldunni og nýju hárgreiðslustofunni sinni sem hún var nýbúin að opna.

Ég kynntist Ólöfu Sæunni árið 1982 í Iðnskólanum í Hafnarfirði, þar sem við hófum okkar nám í hárgreiðslu og vorum við samferða í gegnum námið og lukum því í Iðnskólanum í Reyjavík, þar sem Ólöf útskrifaðist með hæstu einkunn þrátt fyrir lát föður hennar nokkrum vikum fyrir próf.

Mér varð það fljótt ljóst hve mikla og ríka hæfileika hún hafði, geislandi af gleði sem laðaði fólk tilhennar og hve gefandi hún var í öllu. Alltaf til í að prófa og gera eitthvað nýtt, engin ládeyða, fljót að hugsa og framkvæma. Við höfðum alltaf samband þó oft væri langt á milli okkar og alltaf voru sömu fagnaðarfundirnir þegar við hittumst, þá þurftum við oft að segja hvor annarri margt um okkar óskir og vonir.

Ólöf var mjög meðvituð um lífið og dauðann og forvitin um hið hulda og framtíðina. Hún kynntist sorginni þegar pabbi hennar lést, sem hún dáði svo mjög, hann var svo stór hluti í tilveru hennar. Hún trúði á líf eftir dauðann og vissi að pabbi hennar var með henni, alltaf, þó hann væri búinn með sitt hlutverk hér hjá okkur. Ólöf vildi alltaf vera glöð og með glöðu fólki. Ég þakka Guði fyrir að hafa fengið að verameð henni síðasta kvöldið sem hún lifði, svo falleg, geislandi af gleðiog spaugi með allan hláturinn semég mun hafa í hjarta mínu alla tíð. Ó, þvílíkur Drottinn að hafa gefið okkur Ólöfu og leyft okkur að kynnast henni, þó okkur finnist það stuttur tími, en stundirnar voru miklar og stórar hjá henni, hún gaf okkur svo margt sem mun lifa. Lifum og verum glöð í minningunni, það gerði hún.

Því að hvað er það að deyja annað en að standa nakinn í blænum og hverfa inn í sólskinið? Og hvað er að hætta að draga andann annað en að frelsa hann frá friðlausum öldum lífsins, svo að hann geti risið uppí mætti sínum og ófjötraður leitað á fund guðs síns.(Kahil Gibran) Elsku Einína, Kiddi, Binna, Helena og Magnús, mínar innilegustu samúðarkveðjur sendi ég ykkur, algóður Guð styrki ykkur og blessi. Mínar hinstu kveðjur sendi ég Ólöfu. Guð blessi hana og varðveiti og gefi henni frið.

Hrefna Magnúsdóttir