ÍSLENSKA járnblendifélagið hf. á Grundartanga skilaði alls um 394 milljóna króna hagnaði fyrstu sex mánuði ársins. Þetta er rösklega tvöfalt meiri hagnaður, en á sama tímabili í fyrra þegar hagnaðurinn nam um 188 milljónum. Má fyrst og fremst rekja það til hagstæðrar verðþróunar á kísiljárni á heimsmarkaði.
Hagnaður Íslenska járnblendifélagsins tæpar 400 milljónir á fyrri árshelmingi

Rösklega tvöfalt meiri

hagnaður en í fyrra

ÍSLENSKA járnblendifélagið hf. á Grundartanga skilaði alls um 394 milljóna króna hagnaði fyrstu sex mánuði ársins. Þetta er rösklega tvöfalt meiri hagnaður, en á sama tímabili í fyrra þegar hagnaðurinn nam um 188 milljónum. Má fyrst og fremst rekja það til hagstæðrar verðþróunar á kísiljárni á heimsmarkaði.

Að sögn Jóns Sigurðssonar framkvæmdastjóra Íslenska járnblendifélagsins hefur verð á kísiljárni haldist stöðugt það sem af er árinu, framleiðslan verið nálægt fyllstu afköstum og salan gengið vel. Var velta á fyrri árshelmingi miðað við fob-verð seldra vara um 2.112 milljónir. Fyrirtækið hefur nú gjaldfært eftirstöðvar þess afsláttar sem Landsvirkjun veitti því á erfiðleikaárunum 1993-1994. Þá hafa hluthafar fengið greiddar 187 milljónir króna í arð vegna ársins 1995.

Verð hefur haldist hátt

"Á síðasta ári var stígandi verð allt árið þannig að meðalverðið var mun lægra en í ár," sagði Jón þegar hann var beðinn um að skýra hina góðu afkomu fyrirtækisins. "Verðið hefur haldist stöðugt frá því í lok síðasta árs. Fyrir bragðið varð afkoman á fyrri helmingi ársins miklu betri heldur en á fyrri helmingi ársins í fyrra. Síðan dregur saman aftur núna á seinni hluta ársins, þar sem verðið á seinni hluta síðasta árs var mun hærra en á fyrri hluta þess.

Framleiðslumagn hefur hins vegar haldist svipað og kostnaður heldur hækkað. Bæði þurfum við að gjaldfæra mjög hátt rafmagnsverð samkvæmt samkomulagi við Landsvirkjun og höfum varið tiltölulega miklum fjármunum til viðhalds hér á svæðinu."

Um afkomuhorfur á síðari helmingi ársins sagði Jón Sigurðsson að ekkert benti til annars en að verðlag á kísiljárni myndi haldast stöðugt og afkoman yrði því mjög góð á árinu. Hins vegar yrði afkoman ekki jafngóð á síðari helmingi ársins og þeim fyrri, þannig væri ekki við því að búast að hagnaður ársins næði 800 milljónum. "Það skýrist af því að þegar hagnaður fer yfir 520 milljónir á Landsvirkjun rétt á þriðjungi af okkar hagnaði sem uppbót á rafmagnsverðið, samkvæmt gömlum samningi."

Stækkun verksmiðjunnar í athugun

Eiginfjárhlutfall félagsins var í lok júní um 58% og er nú svo komið að langtímaskuldir eru orðnar lægri en útistandandi viðskiptakröfur. Þannig nema langtímaskuldirnar nú um 900 milljónum en útistandandi kröfur um 1.200 milljónum. Eigið fé nemur alls um 2.341 milljón, en til samanburðar má nefna að á erfiðleikaárunum varð það lægst um 1 milljarður.

Eins og kunnugt er standa yfir athuganir á hagkvæmni þess að stækka verksmiðjuna með því að bæta við þriðja ofninum. Jón sagði að unnið væri að þeim athugunum af fullum krafti, bæði hinum tæknilega undirbúningi og mati á horfum á markaðnum á næstu árum.