Tuttugustu og sjöttu ólympíuleikar nútímans voru settir við hátíðlega athöfn í Atlanta í Bandaríkjunum í nótt. Fyrstu leikarnir fóru fram í Grikklandi 1896 þannig að nú er haldið upp á 100 ára afmæli þessa stærsta íþróttamóts veraldar.

BRÉFÓlympíuleikar

í gufubaði

Tuttugustu og sjöttu ólympíuleikar nútímans voru settir við hátíðlega athöfn í Atlanta í Bandaríkjunum í nótt. Fyrstu leikarnir fóru fram í Grikklandi 1896 þannig að nú er haldið upp á 100 ára afmæli þessa stærsta íþróttamóts veraldar. Skapti Hallgrímsson blaðamaður og Kristinn Ingvarsson ljósmyndari eru í Ólympíuborginni, hafa fylgst með undirbúningnum síðustu daga og bíða spenntir eftir að keppni hefjist í dag.

Það er eins með Ólympíuleikana og jólin. Hvort tveggja skellur á með jöfnu millibili, trúarhátíð kristinna árlega en uppskeruhátíð allra bestu íþróttamanna heimsins ekki nema á fjögurra ára fresti. Hvort tveggja er gleðiefni en sumir telja annað sammerkt með hátíðunum tveimur; að upprunalegur tilgangur vilji stundum gleymast. Að innihaldið víki stundum fyrir umbúðunum. Það er ekki alltaf víst að fólk velti fyrir sér tilgangi jólanna þegar það rífur upp jólapakkana og borðar hátíðarmatinn og á ólympíuleikum er ekki hægt að segja að hugsjón franska barónsins Pierre de Coubertin sé mönnum efst í huga. Og þó. Stundum. En fráleitt alltaf.

Coubertin endurreisti ólympíuleikana fyrir 100 árum en tímarnir breytast og mennirnir með og það að leikarnir séu mót þar sem allir geti fengið að vera með og það sé einmitt það sem skipti mestu máli - að vera með - er eitthvað sem fáir hugleiða í dag. Flestir bestu íþróttamenn heimsins eru meðal keppenda, þar á meðal atvinnumenn eins og stjórstjörnur úr bandaríska körfuboltanum og besta tennisfólk veraldar. Þetta hefði verið óhugsandi fyrir fáeinum árum, en þróun leikanna hefur orðið sú að þangað verða allir bestu íþróttamenn heims að komast. Atvinnumenn og áhugamenn eru ekki lengur aðskildir. Nú eru menn bara kallaðir íþróttamenn, hvort sem þeir hafa lifibrauð af því eða ekki. Og hingað koma íþróttamenn með því hugarfari að sigra. Peningaverðlaun eru ekki í boði en frægð og frami, sigur eða velgengi á leikunum, er ávísun á veraldlegan auð, fyrir marga í það minnsta. Þetta er þróunin og ekki ætla ég að halda því fram að hún sé endilega slæm. Líta verður á ólympíuleikana eins og hverja aðra skemmtun, fólk hefur gaman að fylgjast með keppninni bæði á vettvangi og í fjölmiðlum og því hlýtur þetta allt að vera gott og blessað.

Hiti og raki

Það sem óttast var einna mest varðandi leikana hér í Atlanta var mikill hiti og raki. Það hefur vakið furðu margra að leikarnir skuli fara fram á nákvæmlega þessum tíma, og margir heimamenn sem undirritaður hefur rætt við eru m.a.s. undrandi og segist hálfpartinn vorkenna íþróttafólkinu sem á eftir að keppa við þessar aðstæður.

Heimamenn gantast með það, m.a. fréttamenn í miðlum sínum, að forráðamenn leikanna hafi platað alþjóða ólympíunefndina þegar þeir lögðu fram umsókn sína. Tölur yfir meðalhita, sem lagðar voru fram frá níunda áratugnum, hafi verið reiknaðar út frá bæði hæsta og lægsta hita sólarhringsins. Ískaldur (!) raunveruleikinn, sem menn þurfa að þola, er hins vegar auðvitað hinn gífurlegi hiti, og raki, sem er að deginum til. Og þá er annað upp á teningnum en umræddar tölur sýndu. Gárungarnir segja að það hljóti að hafa verið tölur frá því að næturlagi . . . Sé tekið mið af síðari hluta júlí og byrjun ágúst - þeim tíma sem leikarnir standa yfir - þá var meðalhiti að degi til 1994 mun hærri og í fyrra hreinlega kæfandi að sögn. Heimamenn segja borgina þá hafa verið eins og gufubaðsklefa. Hitinn var ríflega 40 gráður og rakinn um og yfir 90% og mér skilst að spáin fyrir helgina sé á þeim nótum. Hér er sem sagt spáð hlýnandi, takk fyrir. Eins og það hafi nú ekki verið nógu heitt fyrir. Veðrið hefur reyndar ekki verið óbærilegt, ekki einu sinni fyrir Íslendinga - en maður bíður spenntur eftir gufubaðinu.

Suðurríkjagestrisni

Íbúum suðurríkja Bandaríkjanna er gjarna tíðrætt um gestrisni fólks hér á þessum slóðum. "Southern hospitality" er orðið einhvers konar goðsögn og víst er að allir eru hér af vilja gerðir til að aðstoða gesti við hvaðeina.

Ýmislegt er hins vegar á síðustu stundu varðandi undirbúning og hefur slælegt skipulag ýmissa hluta komið verulega á óvart. Hvað þjónustu við blaðamenn varðar hugsa margir hlýlega til þeirra sem sáu um leikana í Barcelona fyrir fjórum árum. Þeir voru í alla staði stórkostlegir og eftirminnilegir þeim sem þar voru. Hver starfsbróðir minn á fætur öðrum hefur dásamað þá leika enda varla hægt að standa betur að þeim en Spánverjar gerðu. Hér er vinnuaðstaða í blaðamannamiðstöðinni of lítil, langferðabílarnir sem eiga að koma fréttamönnum milli staða óstundvísir og fleira mætti tína til. Ýmislegt virðist vera illa skipulagt en annað finnst manni jaðra við að vera ofskipulagt! Mikil öryggisgæsla er t.a.m. skiljanleg en öllu má nú ofgera.

Umferðin er einnig gífurleg hér, eins og búast mátti við, en í samanburði við Barcelona gengur hún ekki vel, hvorki með tilliti til forkólfa ólympíuhreyfingarinnar né blaðamanna. Í Barcelona voru sérstakar akreinar fráteknar fyrir leigubíla, langferðabíla á vegum framkvæmdanefndar og fyrir bifreiðar forystumannanna en svo er ekki hér. Hér eru allir á sama báti og verða að gjöra svo vel að bíða í röð ef umferðin er mikil.

Atlanta er höfuðborg suðurríkjanna og skemmtilegur staður. Íbúar eru um þrjár milljónir, borgin er hreinleg og falleg og hér er samband svartra og hvítra sagt mjög gott. Blökkumannaleiðtoginn Martin Luther King var héðan og átti einmitt að minnast hans sérstaklega á setningarhátíðinni í nótt. Hnetubóndinn Jimmy Carter sem varð forseti Bandaríkjanna býr hér skammt utan við borgina á búgarði sínum og hafa bæjarbúar hér sumir hverjir dásamað manninn í samtali við Morgunblaðið. Sögðu hann reyndar ekki hafa verið góðan forseta en segja hann aftur á móti mjög góðan fyrrverandi forseta. Carter hefur komið á fót stofnun sem vinnur að uppbyggingu híbýla fyrir heimilislaust fólk um allt land og starfar að fleiri góðgerðarmálum. Hann er sagður vinsæll.

Hér í borg eru höfuðstöðvar fjölmiðlaveldis Teds Turners, m.a. sjónvarpsstöðin CNN og síðast en ekki síst er Atlanta heimabær kóksins; hér eru höfuðstöðvar Coca Cola risaveldisins og sér þess glögg merki. Drykkjarvöruframleiðandinn er einmitt einn af stærstu samstarfsaðilum alþjóða ólympíunefndarinnar og styrkir hana um fáeinar krónur (!) á ári. Einhverjir kunna að halda að það hafi skipt máli þegar ákveðið hvar 100 ára afmælisleikarnir færu fram en ekki skal dæmt um það.

Áhugi

Áhugi heimamanna á leikunum er mikill. Fólk vill taka þátt á einhvern hátt og gífurlegur fjöldi sjálfboðaliða sinnir hinum ýmsum störfum. Svo virðist sem öll störfin séu ekki endilega nauðsynleg en á þessu sviði hefur greinilega verið hugsað um að leyfa sem flestum að vera með - eins og gert var í íþróttakeppni leikanna í gamla daga - og ekkert nema gott um það að segja. Nema hvað sjálfboðaliðarnir mættu í sumum tilfellum vera meðvitaðri um það sem þeir eiga að gera. Þeir eru allir af vilja gerðir að hjálpa gestunum í Atlanta en geta það ekki nema stundum.

Heimamenn og gestir þeirra, hvort sem eru fréttamenn eða almenningur, bíða svo auðvitað í eftirvæntingu eftir mörgum keppnisgreinum. Hvað gerir Carl Lewis í langstökkinu? Janet Evans í sundinu eða Sergei Bubka í stangarstökkinu? Vitaly Scherbo í fimleikunum, og hverjir ná silfrinu (!) í körfuknattleikskeppni karlanna? (Ekki er búist við að nein þjóð geri Bandaríkjunum neina skráveifu á þeim vettvangi). Nær Jonathan Edwards að bæta ótrúlegt heimsmet sitt í þrístökki frá því á HM í Gautaborg í fyrra? Verður Michael Johnson fyrsti karlinn til að sigra bæði í 200 og 400 m hlaupi á ólympíuleikunum? Spurningar eru óteljandi og svörin birtast hægt og bítandi næsta hálfan mánuðinn.

Færri spyrja um Vernharð og Véstein. Eða hvernig Jóni Arnari komi til með að ganga í tugþrautinni. Það eru hins vegar þær spurningar sem við Íslendingar bíðum líklega spenntastir eftir svörum við og ástæða er til að óska öllum íslensku keppendunum velfarnaðar. Megi þeim ganga allt í haginn.

Hátíðahöldin

Ég man hve mér þótti opnunarhátíðin í Barcelona glæsileg. Tónlistaratriðin frábær og sýningin öll reyndar. Og einn hápunkturinn var þegar fatlaði bogmaðurinn skaut ör sinn hátt í loft og tendraði ólympíueldinn. Þá biðu margir með öndina í hálsinum eftir því hvort hann myndi ekki örugglega hitta, og það brást vitaskuld ekki. Ég velti því þá líka fyrir mér á prenti með hvaða hætti Bandaríkjamenn myndu koma eldinum síðasta spölinn. Fólk hér í borg beið einmitt spennt eftir því en mikil leynd hvíldi yfir því hvernig eldurinn yrði tendraður og einnig hver eða hverjir hlypu með kyndilinn síðasta spölinn. Þegar þetta kemur fyrir augu lesenda eru þessir hlutir ljósir en talsmaður leikanna sagði hér í vikunni að það ætti að koma öllum skemmtilega á óvart hvernig eldinum yrði komið á sinn stað. Nú er að sjá hvort hann hafi reynst sannspár . . .