21. ágúst 1996 | Íþróttir | 768 orð

Teitur í byrjunarliði Larissa í Grikklandi

KEPPNISTÍMABILIÐ í gríska körfuknattleiknum hefst eftir tæpan mánuð, eða 14. september. Meðal þeirra sem þá hefja leik er Teitur Örlygsson, sem mun leika með Larissa í vetur. Gríska deildin er talin ein sú besta í Evrópu og það verður því athyglisvert að fylgjast með hvernig Teiti gengur þar.
KÖRFUKNATTLEIKUR Teitur í byrjunarliði

Larissa í Grikklandi KEPPNISTÍMABILIÐ í gríska körfuknattleiknum hefst eftir tæpan mánuð, eða 14. september. Meðal þeirra sem þá hefja leik er Teitur Örlygsson, sem mun leika með Larissa í vetur. Gríska deildin er talin ein sú besta í Evrópu og það verður því athyglisvert að fylgjast með hvernig Teiti gengur þar.

Ég kann ágætlega við mig hérna, við erum komin með íbúð og fáum bíl á næstu dögum, þannig að það stendur flest sem Grikkirnir lofuðu. Það eina sem er fremur leiðinlegt eru æfingarnar, en æfingatímabilið er venjulega leiðinlegt þannig að það er engin breyting frá því sem var heima. Maður bíður spenntur eftir að æfingaálagið minnki og leikirnir taki við, alveg eins og maður gerði heima," sagði Teitur í samtali við Morgunblaðið.

Tvær langar æfingar á dag

Hann segir að mikið sé æft. "Við æfum tvisvar á dag. Á morgnana eru það lyftingar og hlaup og er sú æfing um það bil tvær klukkustundir og á kvöldin æfum við frá klukkan sjö og maður er kominn heim um klukkan tíu. Ég bý rétt hjá íþróttahúsinu þannig að kvöldæfingarnar eru í tvo og hálfan tíma. Þetta fer nú að lagast því það styttist í að deildin byrji og í næstu viku förum við til Saloniki þar sem við verðum með í móti. Þar leika auk okkar lið Saloniki, PAOK, Partisan Belgrad, Bologna frá Ítalíu og tyrknesku meistararnir. Þetta eru allt lið sem eru sterkari en við og það verður gaman að eiga við þau."

Var feiminn við að skjóta

­ Eru þetta þá fyrstu leikirnir hjá ykkur?

"Nei, ekki alveg því við lékum æfingaleik við júgóslavneskt lið um síðustu helgi og unnum það með fimmtán stiga mun. Liðið hafði áður unnið Saloniki þannig að það eru sviftingar í þessu. Ég var í byrjunarliðinu og lék í um það bil 25 mínútur. Ég gerði sjö stig í leiknum, maður var hálffeiminn við að skjóta og ég skaut bara fimm sinnum og hitti úr þremur."

­ Er markið sett hátt í vetur?

"Liðið rétt slapp við fall í fyrra en hefur keypt fleiri leikmenn núna þannig að menn gera sér vonir um að komast í úrslitakeppnina. Það eru fjórtán lið í deildinni og tólf komast í úrslitakeppnina en tvö falla. Mér sýnist að þetta geti orið ansi erfitt því við erum með lágvaxnasta liðið og stóru liðin, eins og Panathinaikos og Olympiakos, tapa varla leik á heimavelli."

­ Áttu von á að vera í byrjunarliðinu í vetur?

"Maður getur auðvitað aldrei sagt neitt um það, en miðað við hvernig þetta er þessa stundina á ég von á því. Það er rúmlega tvítugur strákur sem leikur tvistinn, sömu stöðu og ég, og ég er miklu betri skytta en hann. Í þessum æfingaleik var enginn Grikki í byrjunarliðinu. Við vorum með ítalskan miðherja, ég og [Richard] Dumas vorum framherjar og Arthur nokkur Long, sem er hér til reynslu, var bakvörður og leikstjórnandinn er frá Úrugvæ. Mér sýnist eins og við munum leggja upp með að leika hratt og hlaupa mikið, síðan verður maður að vera duglegur að skjóta."

­ Er liðið orðið fullmannað hjá ykkur?

"Nei, ekki segja forráðamennirnir. Þeir segjast ætla að kaupa einn leikmann til viðbótar og Long er til reynslu og ég veit ekki hvort þeir ætla að taka hann eða einhvern annan. Dumas er frábær leikmaður, en hann lék í fyrra með Philadelphia 76ers í NBA deildinni. Hann er mjög geðþekkur og þægilegur náungi og alls ekki eigingjarn," segir Teitur um Richard Dumas, sem hann leikur við hliðina á í vetur.

Aldrei borðað eins mikið

Félagið, Larissa, er í samnefndri borg um þriggja klukkustunda akstur norður af Aþenu. Borgin er á austanverðum skaganum, þó ekki við ströndina og því hlýtur að vera heitt hjá Teiti. "Já, blessaður vertu. Þetta er eins og í suðupotti og ég hef aldrei nokkurn tíma borðað eins mikið og ég geri núna. Ég verð að borða og drekka meira og minna allan daginn til að hafa orku í æfingarnar. Það er reyndar ágætt að mér finnst maturinn hér góður þannig að þetta er engin kvöl. Það gengur rólega að læra grískuna því letrið er öðruvísi og því tekur þetta allt lengri tíma en ella. Larissa er ein af stærri borgum Grikklands og hér er maður í hjarta menningarinnar, það er ekki mikið um ferðamenn hér og menn tala því lítið annað en grísku," sagði Teitur.

Teitur er tilbúinn TEITUR Örlygsson hefur æft stíft að undanförnu með sínu nýja liði, Larissa á Grikklandi, en þar mun hann leika í vetur, í einni bestu deild Evrópu. Teitur var í byrjunarliði Larissa á dögunum og á von á að vera það þegar deildarkeppnin hefst, þann 14. september.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.