Söngvakeppnin: Fjórir valdir til að syngja bakraddir UNDIRBÚNINGUR fyrir þátttöku í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva er nú í fullum gangi. Keppnin fer fram í Sviss 6. maí næstkomandi og fer átta manna hópur frá Íslandi. Daníel Á.

Söngvakeppnin: Fjórir valdir til að syngja bakraddir

UNDIRBÚNINGUR fyrir þátttöku í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva er nú í fullum gangi. Keppnin fer fram í Sviss 6. maí næstkomandi og fer átta manna hópur frá Íslandi. Daníel Á. Haraldsson mun syngja lag Valgeirs Guðjónssonar Það sem enginn sér" og honum til aðstoðar verða fjórir söngvarar og Valgeir sjálfur sem leika mun á hljóðgervil. Annars verður undirleikurinn leikinn af bandi.

Valgeir Guðjónsson sagði að undirbúningurinn hjá honum gengi eins og við mætti búast því tíminn fram að keppninni væri tiltölulega knappur. Upptökum á undirleiknum er lokið og valdir hafa verið fjórir söngvarar til að syngja bakraddir. Það eru þau Eva Ásrún Albertsdóttir, Eva Leila Banine, Karl Örvarsson og Kristján Viðar Haraldsson.

Útsetningu lagsins hefur lítillega verið breytt en Valgeir sagði að fólk myndi varla taka eftir því.

Nú þarf fólkið að æfa saman og einhvern veginn verður þetta að líta út. Ég nýt aðstoðar konu minnar Ástu Ragnarsdóttur viðað koma mynd á það sem fyrr."

Af hálfu Sjónvarpsins er undirbúningur einnig kominn vel á veg og fara þau Pálína Oddsdóttir skrifstofustjóri og Björn Emilsson, sem stjórna mun flutningi lagsins, með til Sviss. Ákveðið hefur verið að Arthúr Björgvin Bollason fréttaritari Ríkisútvarpsins í Vestur-Þýskalandi kynni keppnina í beinni útsendingu. Þá hefur íslenska dómnefndin verið skipuð og er Guðmundur Ingi Kristjánsson starfsmaður Sjónvarpsins formaður hennar. Ritari nefndarinnar er Erla Björk Skúladóttir.