Bera Nordal tekur við Malmö Kunsthallen í vor BERA Nordal, forstöðumaður Listasafns Íslands, mun taka við stjórnun á Malmö Kunsthallen í Svíþjóð næstkomandi vor en þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í Málmey í gær.

Bera Nordal tekur við Malmö Kunsthallen í vor

BERA Nordal, forstöðumaður Listasafns Íslands, mun taka við stjórnun á Malmö Kunsthallen í Svíþjóð næstkomandi vor en þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í Málmey í gær. Í samtali við Morgunblaðið sagði Bera, sem var stödd í Málmey, að það legðist mjög vel í hana að taka við stjórn Malmö Kunsthallen sem væri virtasti sýningarsalur á Norðurlöndum. "Það er mikill heiður fyrir mig að taka við þessum sal, en þetta er í fyrsta skipti sem útlendingur fer með stjórn hans.

Þegar mér bauðst þetta taldi ég að það gæti verið spennandi að skipta um umhverfi og takast á við verkefni á Norðurlöndum. Mér þótti líka starfið áhugavert vegna þess að í Malmö Kunsthallen er einungis unnið með sýningar; þetta er ekki listasafn heldur sýningarsalur. Hér hafa á undanförnum árum verið settar upp sýningar í mjög háum gæðaflokki og náð alþjóðlegri viðurkenningu. Á safni fer tíminn að miklu leyti í kaup á listaverkum, varðveislu þeirra og rannsóknir, en í sýningarsal eins og þessum getur maður einbeitt sér að hverri sýningu óskiptur sem er mjög skapandi."

Bera sagði að Málmey væri að færast nær miðjunni í menningarlífi Evrópu og væri að taka forystu sem menningarborg í Svíþjóð. "Með brúnni yfir Eyrarsundið til Kaupmannahafnar mun staða Málmeyjar styrkjast mjög, þetta svæði verður að einni heild og miðpunkturinn mun færast frá Stokkhólmi til Suður-Svíþjóðar. Það er óskaplega spennandi að koma inn í þá uppbyggingu sem fylgir þessum breytingum; samvinna á milli sýningarsala verður til að mynda meiri og öll samskipti blómlegri. Ég hef líka fundið fyrir mjög miklum áhuga á málum Kunsthallen hér."

Bera sagði að það væru mjög blendnar tilfinningar sem bærðust með henni við að þurfa að hverfa af vettvangi heima á Íslandi. "Mér hefur liðið mjög vel í starfi mínu sem forstöðumaður Listasafns Íslands og það fylgir því óneitanlega ákveðin söknuður að þurfa að fara þaðan en ég er jafnframt full eftirvæntingar vegna nýja starfsins."

Fyrsta sýningin sem Bera mun setja upp í Malmö Kunsthallen verður opnuð í september á næsta ári.

Bera Nordal