MARÍA FRIÐRIKSDÓTTIR María Friðriksdóttir var fædd í Efri-Miðvík, Aðalvík, 4. júní 1905. Hún lést 18. nóvember síðastliðinn á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði. Foreldrar hennar voru hjónin Friðrik Finnbogason, fæddur 23. nóvember 1879 í Efri-Miðvík, dáinn 29. október 1969, og Þórunn Þorbergsdóttir, fædd 16. september 1884 í Rekavík bak Látur, dáin 9. mars 1975. María var fjórða í röð sautján systkina. Þrjú þeirra dóu ung en fjórtán komust til fullorðinsára.

Þann 27. nóvember 1929 gekk María að eiga Vernharð Jósepsson frá Atlastöðum í Fljóti. Hann var fæddur 12. ágúst 1906 og dáinn 9. maí 1982. Þau hófu búskap í Neðri-Miðvík þar sem þau bjuggu í tvö ár en fluttust svo að Atlastöðum. Þar bjuggu þau til 1935 er þau fluttu að Tungu í Fljóti. Árið 1945 fluttust þau svo aftur að Atlastöðum og bjuggu þar á nýbýlinu Skjaldabreiðu. Þann 16. júní 1946 fluttist fjölskyldan til Hnífsdals en alls fluttu fimm fjölskyldur úr Fljóti og landnámsjörðin Atlastaðir fór í eyði. María og Vernharð bjuggu á Brekku í Hnífsdal til ársins 1982 er Vernharð lést. Síðustu árin bjó María á Hlíf, Ísafirði.

Þau María og Vernharð eignuðust átta börn en María átti fyrir eina dóttur, Helgu. Hún er gift Hólmgeiri Líndal Magnússyni og eiga þau eina dóttur. Hin sem upp komust eru: Þórunn, sem var gift Antoni Ólasyni og eignuðust þau fjögur börn. Seinni maður hennar var Andrés Hermannsson sem nú er látinn. Herborg, gift Ingólfi Eggertssyni, eiga þau sex börn. Bára, gift Hjörvari Björgvinssyni, eiga þau sjö börn. Sigrún, gift Guðna Ásmundssyni, eiga þau fimm börn. Jósep, giftur Hrafnhildi Samúelsdóttur, eiga þau þrjú börn. Barnabarnabörnin eru fimmtíu og fjögur og barnabarnabarnabörnin þrjú. Börnin sem létust ung hétu Ragnar, Margrét og Selma.

María verður kvödd í Hnífsdalskapellu í dag og hefst athöfnin klukkan 14.