Aðgangur að upplýsingum ­ í Landsbókasafni ­ Háskólabókasafni Með tiltölulega ódýrum tölvubúnaði, segir Halldóra Þorsteinsdóttir, getur þjóðin öll haft aðgang að Þjóðarbókhlöðu.

Aðgangur að upplýsingum ­ í Landsbókasafni ­ Háskólabókasafni Með tiltölulega ódýrum tölvubúnaði, segir Halldóra Þorsteinsdóttir, getur þjóðin öll haft aðgang að Þjóðarbókhlöðu. MEGINHLUTVERK bókasafna er að veita aðgang að og miðla upplýsingum og þekkingu. Þau skipuleggja þjónustu sína og byggja upp safnkost í samræmi við þarfir þess fólks sem þau eiga að þjóna. Landsbókasafn Íslands ­ Háskólabókasafn í Þjóðarbókhlöðu er rannsóknarbókasafn með margþættu hlutverki. Lögum samkvæmt er það hvort tveggja í senn þjóðbókasafn Íslendinga, sem ber að safna öllu íslensku efni og gögnum sem varða íslensk málefni hvar svo sem þau eru gefin út í heiminum og bókasafn Háskóla Íslands sem styðja skal við kennslu og rannsóknir í háskólanum. Í því felst jafnframt kynning á nýjustu tækni við öflun upplýsinga og aðgangur að fjarlægum gagnasöfnum. Nátengd þessu hlutverki er bókasafns- og upplýsingaþjónusta í þágu atvinnuvega, vísinda-, fræða- og menningarstarfsemi almennt, svo og þjónusta og samvinna við önnur bókasöfn.

Íslenskt efni

Þjóðbókasafnshlutverkið felur í sér, eins og fyrr segir, að safnað er öllu íslensku efni. Hér á landi nýtur bókasafnið skylduskila á útgefnu efni, bæði prentuðu og hljóðrituðu. Meirihluti íslenskrar út- gáfu frá upphafi, bækur, tímarit, skýrslur, bæklingar, ýmiss konar smáprent, hljómplötur, geisladiskar og snældur eiga að vera til í safninu, enda þótt þetta efni sé ekki allt skráð í tölvukerfið. En safninu ber ekki aðeins að safna þessu efni, heldur einnig að varðveita það handa komandi kynslóðum og veita að því aðgang. Þjóðdeild safnsins sinnir þessu hlutverki sérstaklega. Í handritadeild eru aftur á móti margvísleg íslensk handritasöfn, einkum pappírshandrit allt frá lokum 16. aldar til handrita núlifandi einstaklinga. Í þessum deildum er þjóðararfurinn varðveittur og hver sá sem sinna þarf rannsóknum á honum og fræðastörfum getur fengið aðstöðu til að lesa ritin í lestrarsal deildanna, en gögn þeirra eru ekki lánuð út. Íslensk skinnhandrit og önnur pappírshandrit eru hins vegar varðveitt í Stofnun Árna Magnússonar hér heima og í Kaupmannahöfn, en opinber skjöl og kirkjubækur eru í Þjóðskjalasafni.

Rannsóknarbókasafn

En hvernig er hinum almenna borgara þjónað í Þjóðarbókhlöðu? Aðgang að Landsbókasafni Íslands ­ Háskólabókasafni hafa þeir sem náð hafa 17 ára aldri, en skólabókasöfnin og almenningsbókasöfn eru almennt betur til þess fallin að svara þörfum yngri aldurshópa. Þar sem safninu er einkum ætlað að þjóna háskólanámi, rannsóknum og fræðastarfsemi er mikill meirihluti rita safnsins erlend fræðirit. Opið safnrými með útlánseintökum íslenskra og erlendra bóka, ásamt tímaritum, dagblöðum, tónlistar- og myndefni og fjölbreyttri vinnuaðstöðu er á þremur hæðum. Miðstöð notendaþjónustunnar, þ.e. útlánadeild og upplýsingaþjónusta, blasir við gestum þegar inn í safnið kemur. Þar eru m.a. tölvur, skjáir, uppsláttarrit, gagnasöfn á geisladiskum og aðgangur að alneti. Bókaverðir leiðbeina þeim sem þess óska við notkun hinna ýmsu gagna, eftir því sem við verður komið hverju sinni.

Gegnir

Eitt aðalhjálpartækið við heimildaleit er tölvukerfið Gegnir. Þar er að finna upplýsingar um bækur, tímarit, myndbönd, hljóðrit og annað efni sem til er í safninu og ýmsum öðrum söfnum hér á landi. Í Gegni er skráður almennur safnkostur um 20 bókasafna, þar er samskrá um erlenda tímaritaeign 60 bókasafna og þjóðbókaskrá Íslendinga. Annað gagnasafn, Greinir, vísar aftur á móti í efni sem birst hefur í rúmlega 120 íslenskum tímaritum. Aðgangur að Gegni og Greini er um fjölmarga skjái í safninu og einnig um alnetið (telnet saga.bok.hi.is). Í safninu er ennfremur hægt að fletta upp í Feng, tölvuskrá Borgarbókasafns, Bókasafns Landspítalans og fleiri safna.

Auk þess að geta leitað heimilda í stærstu bókasafnskerfum landsins, Gegni og Feng, geta safngestir notað alnetið. Þar fæst aðgangur að alls kyns gögnum og upplýsingum og þar er hægt að tengjast skrám hundruða bókasafna um heim allan og finna upplýsingar um rit sem Landsbókasafn getur í mörgum tilvikum útvegað í millisafnalán.

Alnetið

Á alnetinu eru ennfremur gagnasöfn eða skrár sem vísa í tímaritsgreinar og annað efni sem ekki er skráð í almennar skrár bókasafna. Slík gagnasöfn á netinu eru einkum af tvennum toga. Annars vegar þau sem hægt er að tengjast án endurgjalds, svo sem UnCover (http://www.carl.org/uncover) sem er stærst og þekktast, hins vegar stórar upplýsingamiðstöðvar eða kerfi (Dialog, Datastar, STN, Questel o.fl.) sem selja aðgang að upplýsingunum. Bókasafnsfræðingar í upplýsingadeild safnsins sjá um heimildaleitir í þeim, en notendur greiða útlagðan kostnað safnsins. Í þessum kerfum er mikill fjöldi sérhæfðra gagnasafna sem hægt að leita í á mun markvissari hátt en í UnCover eða öðrum gagnasöfnum á alnetinu. Þessi þjónusta er öllum opin, en hún er einkum notuð af starfsmönnum rannsóknastofnana eða fólki úr atvinnulífinu, sérstaklega þeim sem vinna að vöru- eða markaðsþróun.

Mikilvægi tölvutengsla

Aðferðir til að afla upplýsinga eru margar. Margir halda að tölvan og ekki hvað síst alnetið hafi svör við öllum spurningum og leysi allan vanda. Þeir sem reynt hafa vita betur. Tölvan gefur aðeins til baka það sem í hana hefur verið látið. Á alnetinu er ógrynni upplýsinga, innlendra sem erlendra, en þær geta verið torfundnar og ekki alltaf áreiðanlegar.

Þótt tölvan sé löngu orðin almenningseign fer því fjarri að hún sé til í öllum bókasöfnum hérlendis. Einkum er skortur á tölvum í bókasöfnum í dreifbýlinu þar sem þeirra er þó frekast þörf. Bókasöfn, hvar svo sem þau eru og hverjum sem þau eiga að þjóna, geta betur sætt sig við ritaskort og bágan fjárhag, ef þau eru sæmilega búin tæknilega. Tæknin til að tengjast gagnasöfnum eða bókasöfnum hvar sem er í heiminum er fyrir hendi og þar með möguleikinn á að útvega efnið. Með tiltölulega ódýrum tölvubúnaði getur þjóðin öll haft aðgang að Þjóðarbókhlöðu. Slíkur búnaður er undirstaða nútíma upplýsingaöflunar og veigamikill hlekkur í að jafna aðgang almennings að upplýsingum, án tillits til búsetu.

Höfundur er forstöðumaður upplýsingadeildar Landsbókasafns Íslands ­ Háskólabókasafns.

Halldóra

Þorsteinsdóttir