Hvernig viljum við vera tryggð? Lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru úr sér gengin, segir Pétur Blöndal, og ekki í neinum takti við þörf fyrir tryggingu. Í GREIN minni sl. miðvikudag gerði ég grein fyrir þeim ógreiddu ofur-skuldbindingum, sem hvíla...

Hvernig viljum við vera tryggð? Lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru úr sér gengin, segir Pétur Blöndal, og ekki í neinum takti við þörf fyrir tryggingu. Í GREIN minni sl. miðvikudag gerði ég grein fyrir þeim ógreiddu ofur-skuldbindingum, sem hvíla á 4 lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna. Hér á eftir fjalla ég um samkomulag sem fjármálaráðuneytið gerði nýverið við fulltrúa opinberra starfsmanna um lífeyrismál og geri samanburð á nýrri A-deild hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og almennu lífeyrissjóðunum. Þar sem þessi samningur gæti orðið stefnumarkandi fyrir allan vinnumarkaðinn og þar með allt þjóðfélagið er mikilvægt að fólk átti sig á því hvað hann þýðir og hvaða afleiðingar hann hefur.

Gamaldags úrelt réttindi

Lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru gamaldags, úr sér gengin og ekki í neinum takti við þörf fyrir tryggingu. Nokkur dæmi skulu nefnd.

Örorkulífeyrir byggist á áunnum réttindum og er því algerlega ófullnægjandi fyrir yngra fólk.

Lífeyrir er byggður á dagvinnulaunum en ekki heildarlaunum og því eru þeir sem hafa mikla yfirvinnu vantryggðir.

Iðgjald er greitt í 32 ár einmitt þegar fólk þarf helst á laununum að halda til að koma upp börnum og eignast húsnæði.

Makalífeyrir er mjög ríflegur og dýr og tekur ekki mið af því að bæði hjónin öðlast yfirleitt sjálfstæðan rétt til ellilífeyris. Auk þess koma fyrir undarleg dæmi.

Opinberir starfsmenn geta hafið töku á ellilífeyri við 65 ára aldur og jafnvel niður í 60 ára aldur þrátt fyrir að meðalævin sé alltaf að lengjast og heilbrigði fólks batni. Þetta ákvæði er mjög dýrt.

Öllum þessum úreltu réttindum er haldið óbreyttum í B-deild sjóðsins, sem flestir opinberir starfsmenn munu halda áfram að greiða til næstu árin eða áratugina.

Hvað vill fólk tryggja?

Hlutverk lífeyrissjóða er að tryggja sjóðfélaga og fjölskyldur þeirra þegar tekjur tapast vegna dauða fyrir aldur fram, örorku eða elli. Þetta gera þeir með því að greiða maka- og barnalífeyri vegna fráfalls fyrirvinnu, örorkulífeyri vegna örorku og ellilífeyri þegar fólk er orðið gamalt. Lífeyrir, annar en barnalífeyrir er háður tekjum í samræmi við það markmið að tryggja tekjutap. Til þess að standa undir lífeyrisgreiðslum greiða sjóðfélagar og launagreiðendur iðgjald til lífeyrissjóðsins, sem er háð tekjum, yfirleitt 10%. Ljóst er að kröfur um betri lífeyri eru jafnframt kröfur um hærra iðgjald og þá versna lífskjör sjóðfélagans á starfsævinni en batna í ellinni. Vandinn er að leggja sanngjarnt mat á þörf fólks fyrir tekjur á starfsævinni og í ellinni. Inn í þá mynd kemur annars vegar kostnaður við að ala upp börn, koma upp húsnæði (og atvinnurekstri) og hins vegar kostnaður við hjúkrun og umönnun aldraðra. Allt of sjaldan er rætt um þessa þætti og hvað fólk vill greiða mikið fyrir góðan lífeyri. Hafa ber í huga að auk lífeyrissjóða greiða Almannatryggingar umtalsverðan lífeyri til sama hóps fólks.

Ef skattlagning og iðgjöld verða of þung á vinnandi fólki dregur það úr framtaki þess og dugnaði. Of slök lífskjör fólks á starfsævinni koma auk þess niður á lífskjörum barna þeirra og skerða samkeppnisstöðu Íslands. Þess vegna er mjög brýnt að vanda vel ákvörðun um iðgjald til lífeyristrygginga.

Ætla má að núverandi lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna séu um það bil tvöfalt verðmeiri en lífeyrisréttindi hjá almennu lífeyrissjóðunum og er þá miðað við öll laun. Iðgjaldið þyrfti að vera um 19% af öllum launum til þess að standa undir þessum réttindum til allra opinberra starfsmanna. Iðgjald til almennra lífeyrissjóða er yfirleitt 10% og dugar það fyrir öllum skuldbindingum þeirra á meðan vextir haldast háir.

Ekki hefur farið fram umræða um það hvort opinbert starfsfólk vill fá þessi miklu lífeyrisréttindi og fórna fyrir það einum mánaðarlaunum á ári alla starfsævina. Fólk vill kannski fá hærri laun á starfsævinni á meðan það er að ala upp börn og koma þaki yfir höfuðið. Allur lífeyrir er greiddur með iðgjaldi (eða sköttum). Því er mjög brýnt að skoða vel hvað fólk vill tryggja til þess að oftryggja hvorki né vantryggja. Oftrygging þýðir óþarfa byrðar á vinnandi fólk og ætti að forðast hana.

Ný deild

Samkomulagið sem fjármálaráðuneytið gerði við fulltrúa opinberra starfsmanna um lífeyrismál gerir ráð fyrir stofnun nýrrar deildar við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, A-deildar, sem tryggi öll laun og veiti lífeyrisrétt á grundvelli stiga. Til hennar eiga allir nýir starfsmenn ríkisins að greiða og þeir af eldri starfsmönnum, sem þess óska. Þessi deild veitir miklu betri lífeyrisrétt en almennu lífeyrissjóðirnir eins og sést á meðfylgjandi töflu:

Lífeyrissjóður Almennir starfsmanna lífeyris- ríkisins. A-deild sjóðir

Ellilífeyrir, hlutfall af heildarlaunum Ellilífeyrisaldur 65 ára 1,90% Skertur: 1,26% Ellilífeyrisaldur 70 ára Aukinn: 2,81% 1,80%

Nauðsynlegt heildariðgjald af öllum launum Nýir starfsmenn eingöngu 15,5% 10% Allir sjóðfélagar, án áunninna réttinda 16% 10%

Lífeyrisréttindi Föst Breytileg

Iðgjald launagreiðanda Breytilegt Fast 6%

Einstakl. sem greiðir iðgjald frá 25 ára aldri af 100 þkr. á mánuði, fær sem ellilífeyrir (x) frá 65 ára aldri 76 þkr./mán. 50 þkr./mán. frá 70 ára aldri 122 þkr./mán. 81 þkr./mán. (x) Forsenda: Laun hækka eins og verðlag.

Athygli vekur að ellilífeyrir einstaklings, sem hefur töku ellilífeyris við 70 ára aldur hjá A-deild LSR, er 22% hærri en meðallaun hans alla ævina, sem verður að teljast óeðlilegt, sérstaklega þegar tekið er með í myndina að hann greiðir 4% iðgjald af laununum. Veigamesti munurinn á A-deildinni og almennu lífeyrissjóðunum er sá, að hjá A-deildinni eru réttindin óbreytanleg en iðgjald launagreiðanda tekur breytingum eftir aðstæðum. Þannig bera ríkið (og aðrir launagreiðendur) ábyrgð á sjóðnum. Þessu er öðruvísi farið hjá almennu lífeyrissjóðunum. Þar er iðgjaldið fast en réttindin verða að láta undan ef á bjátar. Í næstu grein mun ég fjalla um áhrif þessa samkomulags á vinnumarkaðinn og benda á aðra lausn á vanda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Höfundur er tryggingafræðingur og alþingismaður.

Pétur H.

Blöndal