Lífið á Miðnesheiði Nýjar plötur Lífið á Miðnesheiði gjörbreyttist með tilkomu bandarískrar herstöðvar suður með sjó. Hrafn Pálsson samdi söngleik sem segir frá þessum tíma og fékk Magnús Ingimarsson til að útsetja hann fyrir sig.

Lífið á Miðnesheiði Nýjar plötur Lífið á Miðnesheiði gjörbreyttist með tilkomu bandarískrar herstöðvar suður með sjó. Hrafn Pálsson samdi söngleik sem segir frá þessum tíma og fékk Magnús Ingimarsson til að útsetja hann fyrir sig. Fyrir stuttu kom síðan út diskur með þeim söngleik sem kallast Völlurinn.

SJÁLFSAGT eru þeir fjölmargir sem fást við tónlist í frístundum án þess að láta það koma fyrir eyru almennings og fjölmargir eiga fullar skúffur af lögum og tónsmíðum. Hrafn Pálsson hefur fengist við tónlist lungann úr ævinni, aðallega sem tónlistarmaður til margra ára, en sendi fyrir skemmstu frá sér fyrstu útgáfuna, söngleikinn Völlinn.

Hrafn Pálsson segir að hugmyndin að söngleiknum hafi blundað með sér lengi því fyrir tuttugu árum hafi hann farið aftur í skóla á gamals aldri" og þá jafnað sig á því að hafa verið kaffimúsíkant" í 23 ár. Þegar ég var búinn að hvíla mig á tónlistinni um hríð fór ég að fikta við píanóið heima og semja lög," segir hann og bætir við að hann hafi snemma tekið eftir því að hann var að semja lög sem sóru sig í ætt við þá tónlist sem hæst bar á hans yngri árum, þegar hann var að mótast í tónlistinni.

Hrafn segir lagasmíðarnar hafa hafist á því að hann samdi brúðarmars fyrir fósturdóttur sína. Þegar ég hlustaði á hann hálfu ári síðar þyrmdi yfir mig hvað þetta var mikil dramatísk depurð, hann var eins og tregablandinn rússneskur bátsverjasöngur. Ég fór því að garfa í laginu og athuga hvort ég gæti ekki hresst upp á það. Þá kom annað lag og svo enn annað og á endanum áttaði ég mig á því að lögin voru öll samin í anda þess sem var þegar ég var að byrja að spila og kunni bara vel við það," segir Hrafn og hlær við.

Hrafn segir að í framhaldinu hafi hann farið að rifja upp frumbýlingsárin í tónlistinni og hljómsveitastarfi hans á Miðnesheiði á þeim árum og lesið í kjölfarið félagsfræðilega úttekt á lífinu þar. Mér fannst gaman að draga fram minningar frá þessum tíma, því mannlífið var skrautlegt. Miklar þjóðfélagsbreytingar samfara herstöðinni, ekki síst hvað varðaði tónlistina. Smám saman breyttust þessar minningar í söngleik, tóku á sig sjálfstætt líf og urðu grunnurinn að þessum söngleik sem ég kalla Völlinn," segir Hrafn en bætir við að söngleikurinn sé ekki nema hálfkláraður, allmikil vinna sé eftir við að búa hann fyrir svið, en tónlistin sé öll tilbúin og megnið útsett eins og heyra megi á disknum sem hann gaf út. Nokkuð af tónlist er óupptekið og sumt óútsett, en í söngleiknum ganga líka nokkur lög aftur með breyttum textum og áherslum og svo mætti lengi telja.

Lög með bitastæðum hljómagangi

Þegar kom að því að búa hluta leiksins til útgáfu leitaði Hrafn til gamals spilafélaga og nágranna, Magnúsar Ingimarssonar, og bað hann að leggja sér lið við útsetningarnar. Þegar ég var á annað borð farinn að föndra við að setja saman söngleik fannst mér ég þurfa að koma frá mér músíkinni," segir Hrafn, og ég leitaði því til Magnúsar sem ég hafði verið með í hljómsveit eitt sumar fyrir mörgum árum."

Magnús Ingimarsson segir að sér hafi litist bráðvel á verkið þegar Hrafn sýndi honum það hripað niður fyrir píanó. Lögin á disknum eru margbreytileg og skemmtilegt að útsetja ólík lög, ballöður og sving-músík með jassívafi," segir hann. Þegar við Hrafn vorum í dansbransanum á sínum tíma tíðkaðist meira að dansa við jasstónlist en síðar varð og dægurtónlist þess tíma var með miklu fjölbreyttari hljómagangi en tíðkast í dag. Þessar tónsmíðar Hrafns eru mjög í þeim stíl, lög með bitastæðum hljómagangi sem valda því að það er miklu skemmtilegra og betra að útsetja þau, það er hægt að fara aðrar og skemmtilegri leiðir," segir Magnús en Hrafn skýtur inní að ekki síður hafi Magnús fundið takt við lögin, því nokkur laganna hafi breytt um takt í höndunum á honum.

Ýmsir tónlistarmenn komu að upptökum á plötunni, m.a. Árni Scheving og Einar sonur hans, Hilmar Jensson, Sigurður Flosason. Magnús og Hrafn segjast hafa verið heppnir með samstarfsmenn, allir hafi tónlistarmennirnir spilað frábærlega vel, aukinheldur sem söngvarar hafi staðið sig ekki síður vel, en Sigrún Hjálmtýsdóttir syngur eitt lag og Ari Jónsson og Berglind Björk Jónasdóttir syngja önnur lög á disknum.

Hrafn segir að frá upphafi hafi verið ákveðið að hafa engin gervihljóðfæri, enga hljóðgervla, bara hljóðfæri eins og notuð voru á þeim tíma sem verkið á að gerast, enda fannst mér að ef ætti að gera þetta á annað borð væri eins gott að gera það vel."

Lífið á Miðnesheiði

Eins og getið er fjallar söngleikurinn um lífið á Miðnesheiðinni á upphafsárum herstöðvar Bandaríkjamanna hér á landi, en fyrir tilverknað þeirra átti margt eftir að breytast í högum íbúa nærliggjandi byggða, ekki síður en víðar á landinu. Hrafn nefnir að á þeim tíma hafi til að mynda Sölunefnd varnarliðseigna verið glæsilegt magasín" en ekki skransalan sem síðar varð, Suðurnesjamenn hafi verið fyrstir Íslendinga til að kynnast sjónvarpsútsendingum og Kanaútvarpið hafi haft mikil áhrif á þróun dægurtónlistarinnar. Á plötunni er og vísað í ýmislegt frá þeim tíma sem vafist getur fyrir ókunnugum og þeir Hrafn og Magnús nefna sem dæmi að í einum textanum sé talað um að einhver hafi farið í Krossinn, en þá sé átt við samkomuhús sem gekk undir því nafni í Njarðvíkum, en ekki trúfélagið. Það er margt sem ekki er skýrt nánar á disknum," segir Hrafn en allir sem muna þennan tíma vita við hvað er átt og vekur vonandi forvitni annarra."

Hrafn segist vona að fjölbreytni laganna eigi eftir að gefa disknum lengra líf, enda samið sem söngleikur þar sem fjölmargt sé á seyði, ýmsar uppákomur og starfsemi lögleg og ólögleg. Hann segir ekki í bígerð að ljúka leiknum í bráð og ekki fært að setja upp konsertuppfærslu á honum til að kynna diskinn frekar, það sé sér einfaldlega ofviða, því miklu þurfi að kosta til í umbúnaði og mannahaldi ef vel ætti að vera. Það þýðir ekki að standa í þessu nema gera það eins vel og hægt er," segir hann glaðbeittur að lokum.

Magnús Ingimarsson og Hrafn Pálsson.