Sýkna vegna árekstrar á brú HÆSTIRÉTTUR sýknaði á fimmtudag mann af ákæru um að hafa ekið inn yfir brúna yfir Laxá í Miklaholtshreppi í febrúar í fyrra án nægilegrar aðgæslu og of hratt miðað við aðstæður.

Sýkna vegna árekstrar á brú

HÆSTIRÉTTUR sýknaði á fimmtudag mann af ákæru um að hafa ekið inn yfir brúna yfir Laxá í Miklaholtshreppi í febrúar í fyrra án nægilegrar aðgæslu og of hratt miðað við aðstæður. Bifreið hans og bifreið sem kom á móti skullu saman og lést ökumaður bifreiðarinnar sem á móti kom.

Hæstiréttur segir, að hálka hafi verið við brúna og á henni. Áreksturinn hafi orðið þegar maðurinn var kominn langleiðina yfir brúna, en ökumaður bifreiðarinnar, sem kom á móti, hafði þá misst stjórn á henni. Hæstiréttur segir að í rannsóknargögnum og málsmeðferð fyrir héraðsdómi sé ekki að finna umfjöllun um það, hvort og hversu mikið snjóruðningur við veginn takmarkaði þá sýn, sem maðurinn hefði að öðru jöfnu átt að hafa yfir veginn handan brúarinnar og engin sérstök athugun verið gerð á því, hver hafi verið líklegur hraði bifreiðar mannsins miðað við þá vegalengd sem bifreiðarnar bárust saman austur fyrir brúna eftir áreksturinn.

Gáleysi ekki sannað

"Eins og mál þetta liggur fyrir, eru ekki efni til að gera þá kröfu, að ákærði hefði skilyrðislaust átt að nema staðar við brúna og bíða bifreiðarinnar, sem á móti kom," segir Hæstiréttur og að ósannað sé að maðurinn hafi gerst sekur um gáleysi í skilningi tilvitnaðrar greinar í hegningarlögum. Þá sé ekki heldur sannað að hann hafi brotið gegn varúðarreglum umferðarlaga.

Hæstiréttur dæmir ríkissjóð til greiðslu alls sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.