Clinton tilnefnir menn í embætti Washington. Reuter. BILL Clinton, forseti Bandaríkjanna, tilnefndi í gær fulltrúadeildarþingmanninn Bill Richardson í embætti sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum og bankastjórann William Daley sem viðskiptaráðherra.

Clinton tilnefnir menn í embætti Washington. Reuter.

BILL Clinton, forseti Bandaríkjanna, tilnefndi í gær fulltrúadeildarþingmanninn Bill Richardson í embætti sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum og bankastjórann William Daley sem viðskiptaráðherra. Janet Reno verður áfram dómsmálaráðherra og æðsti lögfræðilegi ráðgjafi forsetans.

Richardson tekur við sendiherraembættinu af Madeleine Albright, sem Clinton hafði tilnefnt utanríkisráðherra. Richardson er 49 ára demókrati frá New Mexico, á ættir að rekja til Rómönsku Ameríku og átti nokkrum sinnum þátt í að bjarga bandarískum gíslum í erlendum ríkjum.

William Daley er lögfræðingur, bankastjóri og bróðir borgarstjóra Chicago, Richards Daley. Hann hefur oft aðstoðað forsetann í vandasömum málum og stjórnaði baráttu embættismanna Hvíta hússins fyrir því að þingið samþykkti Fríverslunarsamning Norður-Ameríku (NAFTA) árið 1993.

Clinton tilnefndi ennfremur Charlene Barshefsky viðskiptafulltrúa, en hún hefur gegnt því embætti til bráðabirgða. Þá skipaði forsetinn Gene Sperling, efnahagsráðgjafa sinn, sem yfirmann Efnahagsráðs Bandaríkjanna.