Traust stjórnar Brutons þverr VINSÆLDIR írsku stjórnarinnar hafa dalað vegna hneykslismáls, sem snýst um fjárgreiðslur eiganda Dunnes-verslunarhússins til Fine Gael, flokks Johns Brutons forsætisráðherra, og nokkurra flokksbrodda.

Traust stjórnar Brutons þverr

VINSÆLDIR írsku stjórnarinnar hafa dalað vegna hneykslismáls, sem snýst um fjárgreiðslur eiganda Dunnes-verslunarhússins til Fine Gael, flokks Johns Brutons forsætisráðherra, og nokkurra flokksbrodda. Michael Lowry samgönguráðherra sagði af sér á dögunum eftir að ljóstrað var upp, að Dunne hefði borgað endurbætur á húsi hans að upphæð 200.000 írsk pund. Samkvæmt könnun Irish Times nýtur stjórnin aðeins 39% fylgis og 76% sögðu hneykslismálið hafa skaðað hana. Málið hefur orðið til þess að háværar kröfur hafa komið fram um að tengsl stjórnmálaflokka og viðskiptalífs verði rannsökuð og nýjar reglur um fjármögnun flokka verði settar.

Bardagar í Tadjíkístan

BARDAGAR blossuðu upp í gær milli stjórnarhersins í Tadjíkístan og uppreisnarmanna 150 km austur af höfuðborginni Dushanbe. Þá voru sprengitilræði framin í höfuðborginni en hvort tveggja þykir gera vopnahlésamkomulag frá því á miðvikudag marklaust. Átti vopnahléð að koma strax til framkvæmda en það verður þó ekki formlega undirritað fyrr en eftir fimm daga.

Samgöngur á Ítalíu lamast

SAMGÖNGUR voru lamaðar í öllum helstu borgum Ítalíu í gær vegna mótmælaverkfalla sjö milljóna samgönguverkamanna. Lágu almenningssamgöngur m.a. niðri í allt að átta stundir. Efnt var til aðgerðanna til stuðnings starfsmönnum í málmiðnaði sem átt hafa í langvinnri launadeilu við vinnuveitendur sína. Eini samgöngugeirinn, sem ekki varð fyrir barðinu á verkföllum í gær voru flugsamgöngur.

Pólitískt ráðabrugg?

BELGÍSK blöð héldu því fram, að samtrygging stjórnmálaflokka hefði ráðið því, að belgíska þingið úrskurðaði í fyrradag, að Elio Di Rupo, aðstoðarforsætisráðherra, hefði ekki gerst sekur um samræði með drengjum undir lögaldri. Ekki hefði verið tekið á eðli málsins heldur hótun flokks Di Rupo um að slíta stjórnarsamstarfinu ráðið niðurstöðunni.

Löngu kirkjustríði lokið

BUNDINN var endi á 1.500 ára kristilegan ágreining rómversk-kaþólsku kirkjunnar og armensku kirkjunnar, er Jóhannes Páll páfi annar og Karekin fyrsti, andlegur leiðtogi sex milljóna kristinna Armena, lýstu deilunum lokið með sameiginlegri yfirlýsingu í Rómarborg í gær.