TYCHO BRAHE OG ÍSLENDINGAR EFTIR EINAR H. GUÐMUNDSSON Nú eru liðin 450 ár frá fæðingu danska stjörnufræðingsins Tycho Brahe, sem er einn merkasti vísindamaður Norðurlanda og gjarnan nefndur með brautryðjendum eins og Kóperníkusi og Galíleo Galílei.

TYCHO BRAHE OG ÍSLENDINGAR EFTIR EINAR H. GUÐMUNDSSON

Nú eru liðin 450 ár frá fæðingu danska stjörnufræðingsins Tycho Brahe, sem er einn merkasti vísindamaður Norðurlanda og gjarnan nefndur með brautryðjendum eins og Kóperníkusi og Galíleo Galílei. Hér er rakin saga hans og samskipti við íslenska biskupa, Guðbrand Þorláksson og Odd Einarsson.

LESTIR Íslendingar kannast sennilega við hinn snjalla danska stjörnufræðing og endurreisnarmann, Tycho Brahe, manninn sem missti nefið í einvígi og gekk eftir það með gervinef úr góðmálmum. Sumir vita kannski líka að Brahe (1546-1601) er einn mesti og stórbrotnasti vísindamaður sem Norðurlönd hafa eignast, og að í vísindasögunni er hann jafnan nefndur í sömu andránni og þeir Nikulás Kóperníkus (1473-1543), Jóhannes Kepler (1571-1630) og Galíleó Galílei (1564-1642). Þessir snillingar unnu, hver á sinn hátt, mikil afrek í vísindum, og að auki má segja að þeir hafi átt hvað mestan þátt í að leggja grunninn að verkum Ísaks Newtons (1642-1727), mannsins sem mótaði heimsmyndina er við hann er kennd og eðlisvísindin hvíldu á allt fram á þessa öld.

Um alla þessa menn má lesa í hinu aðgengilega riti Þorsteins Vilhjálmssonar, Heimsmynd á hverfanda hveli, en hér er hins vegar ætlunin að segja aðeins nánar frá Brahe og þá einkum vissum þáttum er snerta Ísland og Íslendinga sérstaklega. Tilefnið er að í desember eru liðin 450 ár frá fæðingu Brahes og því gefst tækifæri til að minna á nokkrur forvitnileg atriði honum tengd sem sum hver virðast jafnvel hafa fallið í gleymsku hér á landi.

Af hálfu Íslendinga koma aðallega við sögu biskuparnir Guðbrandur Þorláksson (1541/42-1627) og Oddur Einarsson (1559-1630). Meðal annars verður rætt um meint bréfaskipti Guðbrands og Brahes, mælingu Guðbrands á hnattstöðu Hóla, íslenska kvaðrantinn sem getið er um í mælidagbókum Brahes, heimsóknir Odds til eyjarinnar Hveðnar og Íslandslýsinguna sem honum hefur verið eignuð. Þá verður lítillega minnst á hið þekkta verk Keplers, Somnium, þar sem Ísland kemur skemmtilega við sögu. Að lokum verður svo gluggað í Hina miklu draumabók en hluti þeirrar bókar er sagður vera verk Brahes. En fyrst nokkur orð um meistarann sjálfan og verk hans.

Stjörnumeistarinn mikli á Hveðn

Tyge Brahe var af gamalli og valdamikilli danskri aðalsætt. Í latneskum ritum sínum kallaði hann sig jafnan Tycho og undir því nafni hefur hann lengi verið þekktur um heim allan. Hann fæddist 14. desember 1546 í Knudstrup á Skáni sem á þeim tíma tilheyrði Danaveldi. Ættingjum sínum til mikillar armæðu valdi hann snemma að fara ótroðnar slóðir og eftir háskólanám í Kaupmannahöfn og Leipzig leitaði hann sér frekari þekkingar í stjörnufræði og öðrum lærdómslistum við mörg helstu fræðasetur í Mið-Evrópu. Heim kom hann árið 1570, hlaðinn reynslu og þekkingu en nefstýfður.

Næstu árin dvaldist Brahe í Danmörku við stjarnmælingar og tilraunir í gullgerðarlist sem hann hafði mikinn áhuga á eins og svo margir aðrir á þeim tíma. En í nóvember árið 1572 varð atburður er olli þáttaskilum í lífi hans og gerði það að verkum að stjörnufræði varð upp frá því hans helsta viðfangsefni. Kvöld eitt kom hann nefnilega auga á nýja bjarta stjörnu á hvelfingunni á stað þar sem engin stjarna hafði áður verið. Stjarnan dofnaði smám saman og hvarf að lokum eftir marga mánuði. Brahe tókst að sýna fram á það með mælingum að hún var mun lengra í burtu frá jörðinni en tunglið og færðist ekki úr stað miðað við fastastjörnur. Þannig varð hann fyrstur manna til þess að afsanna hina fornu kenningu Aristotelesar um óbreytanlegt kristalshvel fastastjarnanna. Fyrir þetta varð hann frægur um allan hinn lærða heim og öðlaðist fljótlega eftir það sess sem fremsti stjörnumeistari síns tíma. Stjarnan, sem við vitum nú að var í flokki svokallaðra sprengistjarna, hefur og alla tíð verið kennd við Tycho.

Einn af þeim mönnum sem Brahe heillaði með afrekum sínum var Friðrik annar Danakonungur. Sú aðdáun leiddi til þess að árið 1576 gerði konungur Brahe að lénsherra á hinni fögru eyju Hveðn á Eyrarsundi og veitti honum árlegar tekjur til uppihalds, reksturs og rannsókna sem samsvöruðu um einu prósenti af fjárlögum danska ríkisins. Þetta var að sjálfsögðu gífurlegt fé og hvorki fyrr né síðar hefur nokkur einstaklingur eða stofnun fengið hlutfallslega jafnmikið fjármagn til vísindarannsókna.

Á Hveðn reisti Brahe hinar glæsilegu stjörnuathugunarstöðvar Úraníuborg og Stjörnuborg. Þar hannaði hann og lét smíða mikinn fjölda mælitækja sem voru mun nákvæmari en áður hafði þekkst, og framkvæmdi með þeim mælingar á öllum hugsanlegum stjarnfræðilegum fyrirbærum. Á þessum tíma var sjónaukinn ekki enn kominn til sögunnar svo að allar stjörnuathuganir fóru fram með berum augum. Niðurstöðurnar og lýsingar á mælitækjum gaf Brahe út á bókum sem prentaðar voru í prentsmiðju er hann lét koma upp á eynni, og pappírinn í bækurnar var búinn til á staðnum. Sér til aðstoðar við stjarnmælingar hafði hann að jafnaði nokkra fasta starfsmenn sem og ýmsa lærlinga er síðar urðu margir hverjir þekktir stjörnufræðingar, biskupar, prestar og kennarar. Oddur Einarsson var til dæmis í læri hjá Brahe í skamman tíma og í veðurdagbók stjörnumeistarans er getið um komu Odds til Hveðnar 2. mars 1585 en ekki er vitað hversu lengi hann dvaldist á eynni í það skiptið. Í dagbókinni er einnig getið um aðra heimsókn Odds dagana 12. til 16. apríl 1589 en hann var þá í Danmörku til að taka biskupsvígslu sem fram fór 25. mars, þótt ekki fengi hann konungsbréf fyrr en 7. apríl. Þessar dagsetningar er rétt að hafa í huga hér á eftir þegar rætt verður um íslenska kvaðrantinn á Hveðn.

Svo mikið orð fór af Brahe og því sem fram fór á Hveðn að oft var mjög gestkvæmt á eynni. Í hópi gesta voru bæði fátækir námsmenn og auðugir aðalsmenn, jafnt leikir sem lærðir. Vitað er með vissu að tveir aðrir Íslendingar en Oddur heimsóttu Brahe á eyna, en því miður er ekkert um þá vitað persónulega annað en það að þeir eru kallaðir stúdentar í veðurdagbókinni og komu til stuttrar dvalar er hófst 10. apríl 1592. Brahe átti alla tíð mikil bréfaskipti við menn, bæði um stjarnfræðileg sem og um veraldleg efni og hafa mörg bréfanna komið út á prenti. Ísland eða Íslendingar koma ekki við sögu í þeim bréfum sem varðveist hafa, nema hvað minnst er á Odd í einu þeirra (bréfi Konráðs nokkurs frá Bergen til Brahes 23. október 1594). Það þýðir meðal annars að bréf þau sem talið er að hafi farið milli Guðbrands og Brahes eru löngu týnd. Hins vegar má færa nokkur rök fyrir því að þeir hafi raunverulega skrifast á eða haft einhver önnur samskipti og verður fjallað nánar um það síðar.

Brahe starfaði af fullum krafti á Hveðn allt til ársins 1597 en þá hrökklaðist hann úr landi eftir nokkurra ára deilur við Kristján fjórða sem tekið hafði við völdum 1588. Hinn nýi konungur hafði talsverðan áhuga á stjörnufræði en þeir Brahe áttu ekki skap saman. Meðal annars er talið að frægð stjörnumeistarans hafi farið mjög fyrir brjóstið á konungi enda kastaði hún frekar ljóma á Friðrik föður hans en hann sjálfan. Að auki var Brahe bæði skapmikill og hrokafullur og átti erfitt með að vera konungi hlýðinn og undirgefinn. Eitt leiddi af öðru og svo fór að Brahe yfirgaf Hveðn fyrir fullt og allt. Hann tók með sér flest það sem ekki var naglfast, þar á meðal öll smærri mælitæki, en sendi síðar eftir eftir þeim stærri. Að nokkrum árum liðnum lét konungur hins vegar rífa Úraníuborg og Stjörnuborg og seldi mestan hluta efnisins, en afganginn notaði hann í bústað fyrir frillu sína Karenu Andersdóttur. Hann gerðist þó ekki algjörlega fráhverfur stjörnufræði og löngu síðar reisti hann sjálfur nýja og glæsilega stjörnuathugunarstöð í Kaupmannahöfn. Sú bygging stendur enn og gengur undir nafninu Sívaliturn.

Þrátt fyrir talsverða hrakninga eftir brottförina frá Hveðn tókst Brahe að gefa út nokkur mikilvæg rit um rannsóknir sínar á eynni, en á endanum hafnaði hann í Prag með fjölskyldu sína og allt sitt hafurtask. Þar gekk hann í þjónustu Rúdólfs annars sem keisaralegur stærðfræðingur, en aðstaða og allur aðbúnaður var til muna verri en hann átti að venjast á Hveðn. Í Prag tók hann þó þátt í einu frægasta vísindasamstarfi allra tíma. Hér er átt við hið stormasama samstarf hans við Jóhannes Kepler þar sem Brahe var fyrst og fremst í hlutverki mælimeistarans en Kepler í hlutverki kenningasmiðsins. Sú samvinna tók snöggan enda 24. október 1601, en þann dag dó Brahe úr veikindum er sennilega stöfuðu af sprunginni þvagblöðru og kvikasilfurseitrun. Stjörnumeistarinn mikli var allur, 54 ára að aldri. Frá sjónarhóli nútímans eru hinar nákvæmu mælingar Brahes á göngu himintungla á hvelfingunni tvímælalaust merkasta framlag hans til vísindanna. Kepler notaði þær í reikningunum er leiddu til lögmálanna þriggja sem við hann eru kennd og gefa nær fullkomna lýsingu á hreyfingu reikistjarnanna um sólina. Það kom svo síðar í hlut Newtons að útskýra niðurstöður Keplers með lögmálum sínum um kraftverkun og þyngdarafl.

Brahe skipar einnig stóran sess í vísindasögunni sem sá maður er fyrstur sýndi fram á það með beinum athugunum að sjálfur Aristóteles hafði rangt fyrir sér í veigamiklum atriðum. Áður hefur verið getið um athuganir hans á nýju stjörnunni árið 1572 og rannsóknir hans á halastjörnum sýndu ótvírætt að þessi fyrirbæri voru mun lengra í burtu frá jörðinni en tunglið og gátu því alls ekki verið skammvinn ljósfyrirbæri í lofthjúpnum eins og Aristóteles hafði áður haldið fram og menn trúað í blindni öldum saman. Brahe leyfði sér einnig að benda á það að töflur um hreyfingu himintungla, sem reiknaðar voru á grundvelli jarðmiðjukenningarinnar, voru oft mjög ónákvæmar. Það er því nokkuð ljóst að líta má á Brahe sem uppreisnarmann gegn ríkjandi viðhorfum og sem slíkur ruddi hann brautina fyrir aðra, meðal annars menn eins og Kepler og Galíleo.

Sjálfur taldi Brahe hins vegar að kórónan á ævistarfi sínu væri heimsmynd sú er við hann er kennd. Brahe var mikill aðdáandi Kóperníkusar en þrátt fyrir ítarlegar tilraunir tókst honum aldrei að sjá hina minnstu hliðrun á stöðu fastastjarnanna. Slík hliðrun er óhjákvæmileg ef það er jörðin sem snýst um sólina en ekki öfugt. Það sem Brahe vissi náttúrulega ekki var að fastastjörnurnar eru svo langt í burtu og hliðrun þeirra þar af leiðandi svo lítil að hún er ekki mælanleg nema með aðstoð góðra sjónauka. Slík tæki voru ekki til á dögum Brahes og hann dró því ranglega þá ályktun af mælingum sínum að jörðin væri í miðju alheimsins. Eftir miklar vangaveltur setti hann að lokum fram heimsmynd þar sem jörðin er í miðju fastastjörnuhvelsins og um hana snúast bæði tungl og sól. Þetta var þó ekki gamla góða jarðmiðjukenningin endurborin því að hjá Brahe eru allar reikistjörnurnar á hringlaga brautum um sólina en ekki jörðina. Heimsmynd þessa, sem er náttúrulega röng, taldi Brahe vera merkasta framlag sitt til þekkingarinnar. Hér er um að ræða mjög gott dæmi um það sem oft gerist í vísindarannsóknum: Menn vita aldrei með vissu hvaða niðurstöður eða kenningar það eru sem koma til með að skipta mestu máli þegar til lengri tíma er litið. Hitt ber þó að ítreka að heimsmynd Brahes var fráhvarf frá gömlu jarðmiðjukenningunni og hún átti talsverðu fylgi að fagna meðal stjörnufræðinga langt fram eftir sautjándu öldinni. Hún hefur því án efa átt verulegan þátt í að ryðja brautina fyrir sólmiðjukenninguna í hinum lærða heimi.

Guðbrandur biskup og hnattstaða Hóla

Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup var tvímælalaust sá Íslendingur á sextándu öld sem best var að sér í stjörnufræði og öðrum stærðfræðilegum lærdómslistum. Til dæmis segir Arngrímur lærði frá því í minningarriti sínu um Guðbrand að biskup hafi verið hneigður til slíkra fræða og að hann hafi sjálfur séð hjá honum bækur eftir þekkta stærðfræðinga og stjörnufræðinga eins og Georg Peurbach, Erasmus Reinhold, Peter Apian og Oronce Finé, og að í bókunum hafi mátt sjá ýmsar skriflegar athugasemdir og viðbætur biskups. Þá getur Arngrímur þess einnig að Guðbrandur hafi búið til himinhnött þar sem tekið var tillit til hnattstöðu Íslands. Hnöttinn gaf hann Jóhanni Bockholt höfuðsmanni á Bessastöðum meðan vinskapur var enn þeirra í milli. Einnig mun Guðbrandur hafa byrjað á smíði jarðlíkans sem honum auðnaðist þó ekki að ljúka vegna annríkis og krankleika á seinni árum.

Í Brevis commentarivs frá 1593 hafði Arngrímur áður sagt frá ákvörðun Guðbrands á breidd Hóla. Mælingin gaf niðurstöðuna 65 44' sem er mjög nærri réttu lagi. Guðbrandur notaði niðurstöðu sína meðal annars í útreikningum á göngu sólar norðanlands er hann birti árið 1597 í rímbókinni Calendarium en sú bók mun vera fyrsta almanakið með stjarnfræðilegum útreikningum sem miðaðir eru við íslenskar aðstæður.

Í Crymogæa frá 1609 getur Arngrímur um tilraun Guðbrands til að mæla lengd Hóla í tengslum við tunglmyrkva. Sú mæling var ekki eins nákvæm og hin fyrri, enda voru lengdarmælingar lengi vel mun erfiðari en breiddarmælingar. Ástæðan er sú að til að finna breiddina þarf fyrst og fremst góðan hornamæli, til dæmis kvaðrant eða sextant. Til að ákvarða lengdina þarf hins vegar mjög nákvæmar klukkur eða nákvæmar skrár yfir myrkva eða önnur fyrirbæri er tengjast göngu reikistjarna og tungla þeirra. Á dögum Guðbrands voru hvorki til nægjanlega nákvæmar klukkur né skrár og það var ekki fyrr en löngu síðar sem lengdarmælingar urðu jafnáreiðanlegar og breiddarmælingar.

Á hinu fræga Íslandskorti Guðbrands, sem stungið var í eir árið 1585, eru Hólar sýndir með breiddina 66 55 sem er rúmlega einni gráðu of norðarlega. Það er því ljóst að hin nákvæma mæling biskups á breidd staðarins var gerð eftir að hann lét kortið af hendi til Anders Sörensens Vedels, hins kunna sagnaritara Dana, sem kom því áfram til útgefandans Abrahams Ortelíusar. Sennilegast er að mælingin hafi verið framkvæmd eftir 1584. Nánari tímasetning er ekki möguleg nema hvað ljóst er að hún er framkvæmd fyrir útkomu Brevis commentarivs árið 1593.

Svo nákvæm var mæling Guðbrands að á þeim tíma var aðeins til að jafna breiddarmælingum samtímamannsins Tychos Brahes. N.E. Nörlund telur í kaflanum um Guðbrand í hinni merku kortasögu sinni, Islands Kortlægning, að þetta eitt bendi eindregið til þess að biskup hafi verið í einhverjum tengslum við meistarann og jafnvel skrifast á við hann. Engir aðrir en Brahe og lærisveinar hans hafi haft nægjanlega góð tæki og aðferðir til að framkvæma svo nákvæmar mælingar.

Þetta er í fullu samræmi við það sem ýmsir aðrir sagnaritarar hafa haldið fram en eins og áður sagði hafa þó engin hinna meintu bréfa varðveist og Arngrímur lærði getur hvergi um slík samskipti í ritum sínum sem út af fyrir sig er athyglisvert. Hins vegar styður það tilgátuna að Brahe var vel kunnugt um breiddarmælingu Guðbrands og getur hennar í skrá sinni yfir hnattstöðu helstu staða á norðurhveli. Því miður er ekki hægt að dagsetja skrána þar eð hún var ekki prentuð fyrr en árið 1640 í annarri útgáfu bókarinnar Astronomia Danica eftir Christian Sörensen Longomontanus, helsta lærisvein og aðstoðarmann Brahes. Því er ekki ljóst hvort Brahe hefur fengið upplýsingarnar beint frá Guðbrandi sjálfum eða hvort Oddur Einarsson hefur fært honum fréttirnar eða sent með einhverjum hætti. Í þessu sambandi er einnig rétt að minna á að Anders Sörensen Vedel, sá er Guðbrandur sendi kort sitt árið 1584, var einn af bestu vinum Brahes þótt ekki legði hann sérstaklega stund á stjörnufræði.

Og þá er komið að því að segja frá íslenska kvaðrantinum á Hveðn. Í mælidagbókum Brahes fyrir dagana 24. og 26. apríl 1589 er getið um ákvörðun á hádegishæð sólar með nýjum kvaðranti sem kenndur er við Ísland. Einnig er frá því sagt að hann hafi verið notaður til að mæla hágönguhæð stjörnunnar Spíku 23. apríl. Þessa tækis er hvergi annars staðar getið í mælidagbókunum eða öðrum verkum Brahes og bendir það til þess að það hafi aðeins verið notað þessa tilteknu daga eins og um skoðun eða reynslunotkun hafi verið að ræða. Af skráðum mæliniðurstöðum má ráða að nákvæmni kvaðrantsins hefur numið einni bogmínútu.

Nú vaknar eðlilega sú spurning hvaða mælitæki þetta hafi verið og hvers vegna það var kennt við Ísland. Í því sambandi er rétt að minna á að Oddur Einarsson var einmitt staddur í heimsókn á Hveðn um svipað leyti og kvaðranturinn var notaður til mælinga. Er ekki hugsanlegt og jafnvel sennilegt að mælitæki þetta hafi verið smíðað á Hveðn að beiðni Odds eða Guðbrands og að Oddur hafi haft það með sér til Íslands vorið 1589? Ef þetta er kvaðranturinn sem Guðbrandur notaði til að ákvarða breiddarstig Hóla þá er komin einföld og eðlileg skýring á því hvers vegna mælingin var svo nákvæm: Guðbrandur studdist ekki aðeins við mæliaðferðir Brahes heldur notaði hann mælitæki úr smiðju sjálfs meistarans! Í þessu sambandi má nefna að Brahe hafði ávallt í þjónustu sinni mjög færa málmsmiði sem aðstoðuðu hann við þróun og smíði stjörnumælingatækja. Þótt Guðbrandur hafi verið annálaður hagleiksmaður er frekar ósennilegt að hann hafi haft þá tækniþekkingu eða þau efni sem til þurfti til að smíða sjálfur jafn nákvæman hornamæli og hér er til umræðu. Og er ekki líklegt að Arngrímur lærði hefði getið þess í ritum sínum ef svo hefði verið?

Sumir sagnaritarar hafa velt því fyrir sér hvort þeir Guðbrandur og Brahe hafi nokkurn tímann hist. Um þetta er ekkert vitað með vissu en það er þó vel hugsanlegt þar sem þeir stunduðu báðir nám við Hafnarháskóla á svipuðum tíma. Brahe kom þangað vorið 1559, þá aðeins tólf ára gamall, og hann fór ekki til Leipzig fyrr en í febrúar 1562. Guðbrandur, sem var fjórum eða fimm árum eldri en Brahe, mun hins vegar hafa hafið nám haustið 1560 (sumir segja 1561) og lauk því árið 1564. Að auki dvaldist Guðbrandur síðar í Kaupmannahöfn í tvo vetur, fyrst 1568-69 og aftur 1570-71. Fyrri veturinn var Brahe reyndar á námsferðalagi í Mið-Evrópu en hinum seinni eyddi hann að hluta hjá frænda sínum Steen Bille á Skáni og stundaði aðallega rannsóknir í gullgerðarlist. Hver veit nema leiðir þeirra Guðbrands hafi legið saman, annað hvort í Höfn eða á Skáni? Að lokum er rétt að nefna eitt forvitnilegt atriði sem sýnir ótvírætt að Brahe hefur haft einhver sambönd á Íslandi áður en Oddur Einarsson kemur til þeirrar sögu. Í bókum Brahes er meðal annars fjallað um athuganir hans á deildarmyrkva á tungli 31. janúar 1580. Í eftirmála getur hann þess að Jóhann Bockholt höfuðsmaður hafi einnig fylgst með myrkvanum frá Bessastöðum og ber mælingar hans saman við sínar. Á Guðbrand, góðkunningja Bocholts, er hins vegar ekkert minnst frekar en annars staðar í verkum Brahes.

Oddur Einarsson og Íslandslýsingin

Í íslenskum sagnaritum er iðulega getið um tengsl Odds Einarssonar við Tycho Brahe og heimsóknir hans til Hveðnar sem þegar hefur verið rætt um hér að framan. Sagnaritarar bæta oftast við að Oddur hafi verið mjög vel að sér í stjörnufræði og stærðfræði. Engin ástæða er til að ætla annað en að það sé rétt. Oddur var ekki aðeins í læri hjá Brahe um tíma heldur hefur hann án efa lært ýmislegt í stærðfræðilegum lærdómslistum hjá Guðbrandi biskupi á námsárum sínum í Hólaskóla. Oddur hafði og náið samband við biskup eftir heimkomuna frá Kaupmannahöfn, fyrst sem rektor á Hólum og síðar sem biskup í Skálholti, en eins og kunnugt er var það aðallega Guðbrandi að þakka að Oddur fékk hið valdamikla embætti. Guðbrandur mun einnig hafa haft mikið álit á Oddi sem lærdómsmanni og segir það væntanlega sína sögu.

Að sögn íslenskra sagnaritara fór og mikið orð af gáfum og lærdómi Odds á námsárum hans í Höfn og þar náði hann nokkrum frama sem umsjónarmaður á stúdentagarði, en slík staða kom aðeins í hlut efnilegra námsmanna. Í bókum skólans er þess getið að hann hafi haldið þrjá háskólafyrirlestra, svokallaðar dispútatíur, á árunum 1583-85, en ekki er lengur vitað um hvað erindin fjölluðu. Það eitt að hann skuli hafa verið í vist hjá Brahe, þótt í skamman tíma hafi verið, bendir og til þess að hann hafi kunnað sitthvað fyrir sér í lærdómslistum síns tíma. Svo skemmtilega vill til að umsögn Brahes um Odd hefur varðveist. Hana er að finna í ótímasettri skrá um ýmsa lærisveina stjörnumeistarans og þar segir um Odd biskup að hann sé í meðallagi sem málamaður og að öðru leyti ekki óupplýstur (Otto Wislandus Islandus, episcopus in Islandia, est mediocris gramaticus aliasque non ignarus)! Hér kveður við örlítið annan tón en hjá íslenskum sagnariturum en hafa ber í huga að Brahe var mjög gagnrýninn að upplagi og gerði miklar kröfur til samferðamanna sinna.

Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt verður það að teljast eftirtektarvert að ekki er vitað með vissu um nein verk eftir Odd er tengjast beint stjörnufræði eða öðrum stærðfræðilegum lærdómslistum, hvorki tímatalsreikningum, hnattstöðumælingum eða landabréfum.

Þó er hugsanlega um eina undantekningu að ræða. Hér átt við hina kunnu Íslandslýsingu sem kom út á prenti árið 1971 í íslenskri þýðingu Jakobs Benediktssonar. Mikil óvissa hefur lengi ríkt um höfundinn en í formála að íslensku útgáfunni setur Jakob fram skemmtilega sannfærandi en óbein rök fyrir því að hann sé enginn annar en Oddur Einarsson og að hann hafi lagt drög að ritinu í Kaupmannahöfn veturinn 1588-89. Það er þó eitt sérkennilegt smáatriði sem stingur í augun þegar þessi tilgáta Jakobs er könnuð nánar. Í 3. kafla í fyrri hluta bókarinnar er fjallað um hnattstöðu Íslands og göngu sólar hér á landi. Ljóst er að sá er þar heldur á penna er hvort tveggja í senn mikill lærdóms- og gáfumaður. En í umfjölluninni um hnattstöðuna segir meðal annars:

"En við nákvæmari ákvörðun á legu Íslands hlýt ég að fylgja útreikningum lærðra manna, nefnilega Apianusar og annarra, sem um fjölda breiddarbauga frá miðbaug allt til Íslands virðast ekki vera fjarri hinu rétta, hvort sem þeir setja 64., 65., 66. eða 67. breiddarbaug um mitt Ísland. Ísland er nefnilega svo víðlent að það gæti jafnazt á við heilt konungsríki og því geta sumir staðir á því verið á einni breidd en aðrir á annarri o. s. frv. Annars mætti ef til vill komast nær hinu rétta í þessu efni með hversdagslegum athugunum. Og satt best að segja hef ég til þessa heldur lítið kynnt mér kenningar í landafræði og reyndar minna en maklegt hefði verið því að mér hefur einkum leikið hugur á að gefa gaum að lengd dags og nætur á Íslandi."

Er sennilegt að höfundur þessara orða hafi haft náin lærdómstengsl við menn eins og Guðbrand Hólabiskup og Tycho Brahe? Það er náttúrulega hugsanlegt, en þá hefur hann ekki lært mikið af þeim um hnattstöðumælingar og kortagerð! Sérstaka athygli vekur þó að hvorki er minnst á Íslandskort Guðbrands né mælingu hans á breidd Hóla. Eini kortagerðarmaðurinn sem vitnað er til er Peter Apian (1495-1552) og bendir það til þess að höfundur Íslandslýsingar hafi annað hvort ekki þekkt til verka Guðbrands eða þá ekki talið þau sérlega mikils virði. Ef það er virkilega rétt þá er ljóst að ekki getur verið um Odd Einarsson að ræða og höfundur Íslandslýsingarinnar er enn ófundinn.

Draumur Keplers

Árið 1634 kom út í borginni Sagan í Slesíu merkileg bók eftir Jóhannes Kepler sem látist hafði nokkrum árum áður. Rit þetta, Somnium seu astronomia lunari (Draumurinn eða stjörnufræði á tunglinu), var frá hendi höfundar fyrst og fremst hugsað sem áróðursrit fyrir sólmiðjukenningu Kóperníkusar, en frásögnin er í búningi skáldsögu sem fjallar um ferðalag til tunglsins og atburði sem þar ber fyrir augu bæði á yfirborðinu og á stjörnuhimninum. Í ljósi nútíma bókmenntasögu verður því tvímælalaust að telja Somnium eina fyrstu vísindaskáldsöguna en að auki er hún merkt framlag til stjörnufræði.

Frá sjónarhóli Íslendinga er þessi bók Keplers þó einkum áhugaverð vegna þess að aðalsöguhetjurnar eru íslenskar og hluti sögunnar gerist á Íslandi. Að auki er víða minnst á Ísland í ítarlegum athugasemdum sem Kepler taldi nauðsynlegt að láta fylgja. Þar kemur meðal annars fram að hann hefur fengið ýmsar upplýsingar um landið hjá Tycho Brahe, en annað hefur hann sótt í landfræðirit samtímans og er þar um að ræða hæfilega blöndu af staðreyndum og ýkjum eins og við er að búast þegar haft er í huga hvenær sagan er skrifuð. Upplýsingarnar sem hann hefur eftir Brahe segir hann stjörnumeistarann hafa fengið hjá ónafngreindum íslenskum biskupi. Meðal annars á biskupinn að hafa sagt Brahe að Ísland liggi nálægt heimskautsbaug og að Íslendingar séu sérstaklega gáfaðir. Einnig að íslenskar stúlkur hafi það fyrir sið, þegar þær hlýða á guðsorð í kirkju, að sauma orð og setningar með litþræði í léreft með ótrúlegum hraða.

Hér gefst því miður ekki svigrúm til að rekja efni bókarinnar í smáatriðum en í aðalatriðum er þráðurinn þessi: Bókin hefst á því að Kepler segist hafa sofnað eina nóttina og þá hafi sig dreymt að hann væri að lesa í bók. Aðalsöguhetjurnar í draumbók þessari eru Íslendingar, ungur maður að nafni Duracotus og móðir hans Fiolxhilde, sem er fjöllkunnug mjög og fer oft með son sinn upp í hlíðar Heklu til að tína grös í galdraseyð. Mál þróast þannig að Fiolxhilde selur son sinn í hendur skipstjóra nokkrum sem siglir með hann í átt til Noregs. Á leiðinni kemur skipið við á Hveðn því að íslenskur biskup hafði beðið skipstjórann fyrir bréf til Tychos Brahes. Duracotus er settur í land vegna sjóveiki og næstu fimm árin er hann í læri hjá stjörnumeistaranum. Að því loknu fer hann aftur heim til Íslands. Við heimkomuna verða fagnaðarfundir með þeim Duracotusi og Fiolxhilde og hún telur hann nú vera undir það búinn að taka við þeirri fornu þekkingu sem hún býr yfir. Meðal annars segir hún honum frá því að hún sé í tengslum við ýmsa anda en þó sérstaklega einn sem flytur hana á hvern þann stað er hún óskar sér. Ef vegalengdir eru hins vegar of miklar gefur andinn henni allar nauðsynlegar upplýsingar og er það jafn gott og að vera á staðnum sjálfum. Kvöld eitt kallar hún á andann og hann lýsir fyrir þeim mæðginum hvernig hann og aðrir andar fara að því að flytja menn til tunglsins og hvað sé þar að finna. Hér tekur við aðalefni bókarinnar sem er ítarleg lýsing andans á hreyfingu sólar og reikistjarna séð frá tunglinu og umfjöllun um jarð- og sólmyrkva. Hann lýsir og landslagi á tunglinu og tunglbúum og lífi þeirra. Frásögninni lýkur með því að Kepler segist hafa vaknað upp í miðri lýsingu á veðurfari tunglsins og hafi það máð út endi bókarinnar sem hann var að lesa í draumnum. Lesendur Keplers fá því engar frekari upplýsingar um þau Duracotus og Fiolxhilde eða örlög þeirra.

Til gamans má geta þess að Kepler segir frá því í athugasemdum sínum hvernig nöfn aðalsöguhetjanna eru til komin. Skosk áhrif hafi valdið því að að nafnið Duracotus varð fyrir valinu en orðið fiolx hafi hann hins vegar séð tengt ýmsum stöðum á Íslandi á ævagömlu Evrópukorti. Skýringin á þessu kann að vera sú að Kepler hafi lesið rangt af kortinu þannig að fiord (fjörðr?) eða fjall (fjöll?) varð fiolx. Í því sambandi má nefna að Kepler kunni ekki norræn mál og að auki mun hann hafa verið sjóndapur.

Hin mikla draumabók

Á sextándu öld og reyndar langt fram eftir þeirri sautjándu voru stjörnuspádómar enn taldir mikilvægur hluti stjörnufræðinnar og flestir stjörnumeistarar lögðu stund á stjörnuspeki samhliða eiginlegum stjörnuathugunum. Tycho Brahe var engin undantekning frá þessu. Hluti af skyldum hans við Friðrik konung var að reikna árleg almanök miðuð við danskar aðstæður og að hætti samtímans flutu þá oft með langtímaspár um veðrið byggðar á afstöðu himintungla. Að auki reiknaði hann eftir öllum kúnstarinnar reglum stjörnuspákort fyrir prinsana þrjá, syni Friðriks. Eftir því sem stjarnmælingum á Hveðn fleygði fram missti Brahe hins vegar smám saman alla trú á spákort og stjörnuspádóma og hin seinni ár að minnsta kosti vildi hann ekki láta bendla sig við svo ónákvæm fræði. Það kom þó ekki í veg fyrir að í augum alþýðu var hann alla tíð fyrst og fremst þekktur sem stjörnuspámaður frekar en stjörnufræðingur. Frægð hans gerði það og að verkum að margs konar hjátrú var tengd nafni hans, eins og til dæmis hin ævaforna trú á óhappadaga ársins sem ganga víða undir nafninu Tycho Brahe-dagar þó að Brahe hafi hvergi komið þar við sögu. Þá eru til á prenti bæði draumaráðningar og forlagaspár sem eignaðar eru meistaranum, en sjálfur getur hann hvergi um slíkt í ritum sínum eða bréfum.

Ein slík bók er Tyge Brahes Drömme og Spaabog sem kom út á prenti í Kaupmannahöfn árið 1872 og meðal annars er sagt frá í áðurnefndu verki Þorsteins Vilhjálmssonar, Heimsmynd á hverfanda hveli. Annað svipað rit Brahes er Hin mikla draumabók sem Ugluútgáfan gaf út í Reykjavík árið 1923. Ritstjóra er ekki getið en í undirtitli segir að hér séu á ferðinni: "Þúsund draumaráðningar ásamt happa- og óhappadögum ársins. Stjörnuspádómar um forlög og lyndiseinkunnir manna útreiknaðir af hinum heimsfræga stjörnumeistara Tyge Brahe". Lauslegur samanburður á þessum samtíningi og dönsku bókinni sýnir að ekki er um beina þýðingu að ræða og ekkert er hægt að fullyrða um það hvort eitthvað af efni ritanna megi rekja til Tychos Brahes. Hins vegar er þar margt skemmtilegt að finna og hvort sem Brahe er nú höfundur eftirfarandi forlagaspár í Hinni miklu draumabók eða ekki þá er vel við hæfi að gera hana að lokaorðum þessa stutta yfirlits um stjörnumeistarann. Spáin er sögð gilda um alla þá sem fæddir eru í desember og hún ætti því að hafa átt sérstaklega vel við um Brahe sjálfan:

Eins og síðasti mánuður ársins er kaldur og stormasamur þannig er líka líf þeirra sem í þeim mánuði fæðast oft mjög stormasamt; en eins og hin helgu jól eru síðast á árinu, þannig enda oft lífdagar desemberbarnanna í gleði, samfara dygðum og guðsótta, og ánægju yfir miklu lífsstarfi og mörgum sigrum.

Nokkrar heimildir: 1) Thoren, V.E.: The Lord of Uraniborg: A Biography of Tycho Brahe. Cambridge University Press, 1991. 2) Þorsteinn Vilhjálmsson: Heimsmynd á hverfanda hveli, I og II. Mál og Menning, Reykjavík, 1986-1987. 3) Brahe, T.: Tychonis Brahe Dani Opera Omnia I-XV. Ritstjóri J.L.E. Dreyer. Gyldendal, Kaupmannahöfn, 1913-1929. 4) Nörlund, N.E. : Islands Kortlægning. Kaupmannahöfn, 1944. 5) Oddur Einarsson (?): Íslandslýsing. (Með formálum eftir Jakob Benediktsson og Sigurð Þórarinsson). Menningarsjóður, Reykjavík, 1971. 6) Rosen, E.: Kepler's Somnium. The Dream or Posthumous Work on Lunar Astronomy. Translated with commentary by Edward Rosen. University of Wisconsin Press, 1967. 7) Hin mikla draumabók. Ugluútgáfan, Reykjavík, 1923.

Höfundur er prófessor í stjarneðlisfræði.

TYCHO Brahe fertugur að aldri.

ÚRANÍUBORG ásamt skrúðgarði Brahes.

STJöRNUBORG.

HINN frægi himinhnöttur Brahes sem eyðilagðist í brunanum mikla í Kaupmannahöfn árið 1728.

MÚRKVAÐRANTURINN mikli á Hveðn.

EINN af fjölmörgum kvaðröntum á Hveðn. Þessi var úr látúni, tiltölulega lítill og léttur og mátti því nota hann á ferðalögum. Kannski hefur íslenski kvaðranturinn verið svipaður að gerð.

HEIMSMYND Brahes.

JÓHANNES Kepler.

TYCHO Brahe, fertugur að aldri, árið 1586.