Arrigo Sacchi, fyrrum landsliðsþjálfari Ítala og nýráðinn þjálfari AC Milan AC Milan er í rúst TAP meistara AC Milan í Evrópukeppni meistaraliða gegn Noregsmeisturum Rosenborg er eitthvert mesta áfall sem ítölsk knattspyrna hefur orðið fyrir undanfarin...

Arrigo Sacchi, fyrrum landsliðsþjálfari Ítala og nýráðinn þjálfari AC Milan AC Milan er í rúst

TAP meistara AC Milan í Evrópukeppni meistaraliða gegn Noregsmeisturum Rosenborg er eitthvert mesta áfall sem ítölsk knattspyrna hefur orðið fyrir undanfarin ár. Öfugt við hrakfarirnar í Evrópukeppninni í sumar grét þó ekki öll þjóðin, enda Milan-liðið nú um stundir eitthvert óvinsælasta fyrirbærið í ítölsku þjóðlífi. Tapið gegn Rosenborg var endapunkturinn á gífurlegu umbrotatímabili í velgengnisögu AC Milan eftir að kaupsýslumaðurinn Silvio Berlusconi festi kaup á liðinu fyrir réttum tíu árum og kom því í fremstu röð.

ll Ítalska þjóðin og stór hluti Evrópu dáðist að hinu sigursæla liði Milan með þríeykið hollenska Ruud Gullit, Frank Rikjaard og Marco Van Basten sem leiðandi afl og eftir að þeir hættu að spila virtust Dejan Savicevic, Zvonimir Boban og George Weah ætla að halda merkinu á lofti.

En þrátt fyrir fjölda sigra eftir brotthvarf Hollendinganna var ljóminn að einhverju leyti horfinn og þátttaka Berlusconis í stjórnmálum gerði liðið að tákngervingi ringulreiðarinnar sem ríkti, og ríkir enn, eftir hrun mafíunnar og Kristilega demókrataflokksins og þess nýríka flottræfilsháttar sem einkennir ítalska athafnamenn af yngri kynslóðinni. Því er hrun Milan ekki grátur allra en vekur þó undrun flestra enda sigraði liðið örugglega í deildinni síðasta vor og hefur styrkt liðið með kaupum á gæðaleikmönnum.

Lærisveinn gerir uppreisn

Tvennt þykir aðdáendum Milan mestu máli skipta í sögu Milan síðasta aldarfjórðunginn: Kaup Berlusconis á liðinu og tilkoma Arrigo Sacchi sem þjálfara liðsins en hann tók við af Svíanum ástsæla Nils Liedholm 1987. Er Sacchi gerðist landsliðþjálfari 1991 hafði hann unnið tvo meistaratitla og tvo Evrópumeistaratitla auk þess að hafa haft gífurleg áhrif á leikstíl annarra liða með svæðisfótbolta sínum, "Zona Sacchi", eins og það nefnist á ítölsku.

Fabio Capello gerði aldrei ráð fyrir að verða þjálfari AC Milan. Þrátt fyrir að hafa unnið hjá félaginu í mörg ár átti hann von á því að þurfa að blóðga sig hjá öðru félagi áður en að hann fengi tækifæri til að stjórna liðinu. Er Arrigo Sacchi lét af stjórn áttu flestir von á því að Berlusconi leitaði að stóru nafni en hann hafði trú á Capello og gerði hann að þjálfara. Capello átti eftir að viðhalda sigurgöngu Milan og margir, þ.á m. Ruud Gullitt vilja meina að liðið hafi leikið betur undir hans stjórn en stjórn Sacchi og Capello hafi um of verið tengdur stíl Sacchis.

Capello átti erfitt með að þola það að blaðamenn héldu því fram að hvaða þjálfari sem væri gæti gert lið Milan að meisturum og þrátt fyrir hrikalegar upphæðir sem Berlusconi bauð honum ákvað hann síðasta vor að hleypa heimdraganum og gerast þjálfari Real Madrid. Þar hefur hann náð góðum árangri, Madrid-liðið er í efsta sæti spænsku deildarinnar sem stendur og Bobby Robson, þjálfari Barcelona, lofaði Capello eftir að Real hafði sigrað lið hans örugglega um síðustu helgi. "Capello er gífurlega skipulagður þjálfari og Real ber glögg merki hans, sameinar aga og flæði," sagði Robson.

Landsliðið og Milan:

"Takk Sacchi"

Uruguymaðurinn Oscar Washington Taberez var ekki ofarlega á lista eftirmanna Capello að mati blaðamanna. Þótt enginn efaðist um hæfni hans sem þjálfara, og væri reyndar alveg sérlega vel við hann, áttu margir von á því að hann gæti átt í erfiðleikum í þeirri ljónagryfju sem Milan-stórveldið er.

"Hvernig mun séntilmanni eins og Tabarez reynast að láta gamla hunda eins og Baresi hlíta stjórn sinni?" spurði hinn virti breski blaðamaður The Times, Brian Glanville, í haust. Illa, svaraði sagan, í það minnsta gekk liðinu skelfilega á sigursælan mælikvarða þess í haust og náði reyndar að innbyrða fleiri sigra en gæði leiks þess sögðu til um.

Eftir slæmt tap gegn nágrönnunum í Piacenza, 3:2, fyrir tæpum hálfum mánuði blés Berlusconi til neyðarfundar og ákvað um miðja nótt eftir leikinn að reka Tabarez og leita til félaga síns Sacchis um að taka við liðinu á ný. Vikum saman höfðu menn átt von á því að Tabarez yrði rekinn og þótt nafn Sacchis sem eftirmanns væri jafnan nefnt voru nöfn Johans Cruyffs og Nevios Scalas iðulega framar í fylkingu getspekinga.

Í ljósi þrjósku Sacchis þótti víst að hann myndi ekki gefa eftir landsliðsþjálfarasætið fyrr en eftir að hafa náð að koma liðinu í heimsmeistarakeppnina í Frakklandi 1998. Þó voru ýmsir sem sögðu sem svo að endurráðning Sacchis sem þjálfara Milan væri besta lausnin fyrir alla, tími hans sem landsliðsþjálfara væri liðinn en jafnframt væri hann besti maðurinn til að rífa Milan-liðið upp á mettíma. "Nazionale e Milan: "Grazie, Sacchi!", sagði ítlaska blaðið La Gazzetta dello Sport eftir að Sacchi tók boði Milan og þarf víst engrar þýðingar við.

Smáspark í rassinn

Sacchi þekkir vel til hjá Milan og að auki er hann öfugt við Tabarez með stærra egó en stjörnuleikmennirnir. Fyrir honum eru Franco Baresi og Paolo Maldini bara venjulegir leikmenn og Sacchi er sennilega eini þjálfarinn sem þessir tveir eru hræddir við, hann hefur eitthvað undarlegt tak á þeim sem gerir þá að feimnum skólapiltum í stað yfirlýsingaglaðra stjórstjarna.

Í þessu liggur kjarninn í þeirri ákvörðun Berlusconis að leita til Sacchis því að mati hans (og flestra reyndar) hefur meginvandamál liðsins í haust verið slæmur leikur hinnar annars traustu varnar liðsins. Maldini og Alessandro Costacurta hafa ekki leikið eins illa í manna minnum og Baresi hefur verið meiddur. Varnarhluti miðjunnar, Demetrio Albertini og Marcel Desailly hefur ekki verið sannfærandi heldur og Sebastiano Rossi markvörður hefur gert afdrifarík mistök. Allt þetta hefur leitt til þess að liðið hefur verið að fá á sig fleiri mörk að meðaltali í leik en þekkst hefur í 10 ár þar á bæ. Þessu á Sacchi að kippa í liðinn, njörva liðið niður í skipulag sem Berlusconi veit að leikmennirnir þekkja en ekki leggja út í miklar breytingar þar sem að forsetinn treystir þessum gömlu leikmönnum sínum og telur þá ennþá í fremstu röð, þeir þurfi bara smáspark í rassinn.

Herforingi af gamla skólanum

En er Sacchi ekki búinn að vera? Sýndi gengið með landsliðið ekki að hann er ekki sá mikli snillingur sem menn héldu áður? Sacchi er gífurlega umdeildur maður en samt er vandfundinn sá maður sem ekki ber mikla virðingu fyrir honum. Hann er sennilega áhrifamesti þjálfari Evrópu síðasta áratuginn, nánast öll lið á Ítalíu og mörg í Þýskalandi, Portúgal, Frakklandi og á Spáni leika einhvers konar útgáfu af þeim svæðisfótbolta sem áður hefur verið nefndur og við hann er kenndur, "Zona Sacchi". En í því liggur hundurinn grafinn. Sacchi er maður sem trúir á kerfi en ekki einstaka leikmenn og það er eins og með landsliðinu hafi hann fengið víðáttubrjálæði.

Á fimm árum reyndi hann hátt í 100 leikmenn og frægt varð í Evrópukeppninni í sumar hvernig hann breytti liðinu stöðugt milli leikja til að láta það spila eftir ákveðnu kerfi eftir því sem hentaði gegn andstæðingunum hverju sinni. Flestir telja að hann megi einfaldlega ekki hafa úr fleiri leikmönnum að velja en svosum eins og 25, sumsé hann eigi að stjórna félagsliði! "Fyrir mér er Sacchi fyrst og fremst afbragðs þjálfari sem nær að ná ótrúlega miklu út úr leikmönnum sínum. En hann er kannski ekki mikill meistari í að velja leikmenn," sagði varnarmaður landsliðsins og Milan, Costacurta í haust og hélt áfram "hann er harður en sanngjarn og hefur mikla sannfæringarhæfileika. Hver annar gæti sannfært hóp stórstjarna um að fyrst að rútunni hefði seinkað væri best að gera slatta af teygjuæfingum, í jakkafötunum klukkan átta að morgni í anddyri rándýrs hótels?"

Nær Milan að ógna Juve?

Juventus hefur leikið liða best í haust á Ítalíu og spá flestir þeim meistaratitlinum. Inter eru sterkir og Vicenza hafa komið á óvart en þó eru menn á því að nái Sacchi að þjappa Milan-liðinu saman verði það helsti keppinautur Juve. "Milan er í rúst," sagði Sacchi daginn eftir að hann tók við liðinu en vildi lítið gefa út á hvaða breytingar hann myndi gera.

"Sálfræðilega er eitthvað mikið að hjá strákunum og ég mun byrja á að reyna að vinna úr því," sagði Sacchi. "Leikmennirnir eru til staðar, það vantar bara skipulagið og leikgleðina. En ég leysi þetta vandamál ekki á nokkrum dögum." Það kom sannarlega á daginn í tapinu gegn Rosenborg að Sacchi hafði ekki leyst vandamálið á nokkrum dögum!

Hvaða breytingar Sacchi gerir er hins vegar ómögulegt að spá um, honum er ekkert heilagt og einhverjar stórstjörnur munu eflaust þurfa að sætta sig við að verma varamannabekkinn. Frakkinn Cristophe Dugarry hefur leikið vel í síðustu leikjum eftir að hafa átt í meiðslum í allt haust og Savicevic hefur verið meiddur en er að koma til. Þá er ógetið Svíans Jesper Blomqvist sem lék vel í sínum fyrsta leik um síðustu helgi og gæti átt eftir að koma á óvart. Hvernig sem verður er ljóst að það verður engin lognmolla í kringum AC Milan, útgáfa Sachhi II.

ARRIGO Sacchi þekkir vel til hjá Milan og að auki er hann öfugt við Tabarez með stærra egó en stjörnuleikmennirnir. Fyrir honum eru Franco Baresi og Paolo Maldini bara venjulegir leikmenn

Einar Logi

Vignisson

skrifar frá

Ítalíu