Helga Jóhannsdóttir Elsku amma. Það er svo erfitt að sætta sig við að þú sért flutt frá okkur svona skyndilega til nýrra heimkynna. Þú sem varst svo hress og glöð síðast þegar ég leit til ykkar á Hólaveginn stuttu áður en þú lést. Ég sit hér og hugsa til þín, amma mín, allra ljúfu stundanna í gamla bænum á Hrauni. Ég ruddist inn á heimili þitt aðeins þriggja mánaða gamall. Þú tókst mig þá strax í stóra hlýja faðminn þinn, það faðmlag hefur aldrei horfið úr huga mér. Ég átti eftir að alast upp í túnfætinum á Hrauni þar sem foreldrar mínir byggðu þar nýbýli, svo við áttum eftir að eiga margar samverustundirnar næstu árin.

Eftir að þið afi fluttust til Sauðárkróks var það fastur liður í tilverunni að komið var til sumardvalar á gamla "setrið" á Hrauni. Þar voru fagnaðarfundir. Ósjaldan tifuðu litlir fætur upp brekkuna í heimsókn þar sem vís von var um góðgæti í munninn.

Ég efast ekki um að búskapur ykkar afa á Hrauni hafi oft verið erfiður. Þar eignuðust þið átta börn sem öll komust vel til manns. Þau eiga öll sína maka og börn svo ættin er orðin æði stór. Þegar foreldrar mínir tóku formlega við búskap á Hrauni og þið afi fluttuð ykkur til Sauðárkróks var alltaf jafngott að koma við á Hólaveginum til ykkar þriggja því þá var móðir þín flutt til ykkar, "Gullamma" mín sem nú lifir þig, 98 ára gömul.

Þessi fáu kveðjuorð eru þakklæti mitt fyrir allar þínar kærleiksstundir. Bið góðan guð að styrkja afa Pétur og ömmu Stefaníu, hvíl í friði.

Valur.