Sigurður Gunnarsson Horfinn er á braut Sigurður Gunnarsson. Siggi eins og við kölluðum hann. Siggi er öllum sem þekktu hann mikill missir. Hann var bæði hjartahlýr og heilsteyptur maður. Siggi lifði tímana tvenna, fæddur frostaveturinn mikla 1916. Hann missti ungur móður sína og ólst upp við kröpp kjör þegar kreppa ríkti og stéttabaráttan var hörð og óvægin. Þetta mótaði Sigga. Hann var alla tíð sjálfum sér samkvæmur í skoðunum á mönnum og málefnum. Hann tók upp hanskann fyrir þá sem minna máttu sín.

Sigurður var sjómaður á fyrri hluta aldarinnar. Var hann skipstjóri á ýmsum bátum fyrir austan. Án efa hefur það ekki verið neitt sældarlíf alltaf en eins og margir af hans kynslóð voru honum dugnaðurinn og harkan í blóð borin.

Ég kynntist Sigga sem unglingur, þá vann hann í Togaraafgreiðslunni. Hann var mikill heimilisvinur á mínu heimili alla tíð.

Það var alltaf gaman að rökræða við Sigga. Hann var óvenju skarpur maður, orðheppinn og fyndinn. Minnist ég margra samræðna okkar um allt milli himins og jarðar, mest ræddum við þá sögu og pólitík. Hann var mikill skákmaður og vann til fjölda verðlauna. Þar hafði ég heldur lítið í hann að segja.

Eftir að Siggi komst á eftirlaun var hann duglegur við að ganga og fara í sund. Það hélt honum án efa við góða heilsu þar til undir hið seinasta. Siggi dó eftir stutta sjúkrahúslegu.

Hans verður sárt saknað nú um jólin, þar sem hann hafði verið fastur gestur hjá okkur undanfarin jól. Megi guð vera með þér, Siggi minn, og þakka þér fyrir allar góðu stundirnar.

Drottinn sjálfur stóð á ströndu:

Stillist vindur! Lækki sær!

Hátt er siglt og stöðugt stjórnað.

Stýra kannt þú, sonur kær.

Hörð er lundin, hraust er mundin,

hjartað gott, sem undir slær.

(Örn Arnarson.)

Andrés Andrésson.