Snorri Gunnlaugsson Okkur hjónin langar til að minnast okkar kæra vinar og vinnufélaga. Elsku Snorri, við viljum þakka þér allar góðu stundirnar sem við áttum með þér frá því að þú byrjaðir að vinna hjá okkur árið 1990. Við viljum þakka þér fyrir samstarfið og alla þá hjálp sem við fengum frá þér. Ég minnist þess þegar ég þurfti að fá aðstoð þegar Helgi var í burtu, þá komst þú hlaupandi nður á bryggju léttur á fæti eins og unglingspiltur. Í minningu okkar er það efst hve góður, samviskusamur og heiðarlegur þú varst. Baráttu þinni við þann illkynja sjúkdóm sem þú þurftir að stríða við tókst þú með mikilli ró. Megir þú hvíla í friði, elsku vinur.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem.)

Elsku Lára, börn, tengdabörn og barnabörn, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Megi algóður Guð styrkja ykkur í sorginni.

Sigurbjörg og Helgi.