Ágúst Eyjólfsson Það á ekki af Hvammshjónunum að ganga, búin að missa tvo syni sína með stuttu millibili. Höggin eru orðin þung og hörð sem Hvammsfjölskyldan hefur orðið fyrir. Hann Ágúst í Hvammi var skemmtilegur og góður drengur, hann var ljós og bjartur yfirlitum, alltaf í svo góðu skapi. Það var gaman að vera með honum í barnaskólanum á Hellum, hann sagði mér oft til og leiðbeindi um það sem ég ekki skildi og við vorum að rifja það upp þegar hann kom að fylgja bróður sínum til grafar, hann sagði að það hefði verið yndislegar stundir og það var alveg satt.

Ágúst stundaði sjóinn um nokkurt skeið á milli þess vann hann að búi foreldra sinna. Það var alveg sama hvað hann gerði, hann leysti verk sín vel af hendi og samviskusemin sat alltaf í fyrirrúmi. Svo lærði hann húsamálun og vann við það til dauðadags.

Við vorum fimm fermingarsystkinin og er Ágúst sá fyrsti sem kveður.

Þau voru mikið samrýnd systkinin í Hvammi og höfðu mikið samband sín á milli. Nú eru fjögur systkin lifandi af sex. Þau sem eftir lifa hafa misst mikið. Guð hefur mikið þurft á bræðrunum frá Hvammi að halda núna rétt fyrir jólin. Nú fara þeir að leika jólasveina hinum megin.

Elsku Ágúst minn, hjartans þakkir fyrir öll liðnu árin. Ég votta börnum þínum samúð mína, foreldrum og systkinum.

Elsku Dúna mín og Eyjólfur og systkini, þið hafið mikið misst en minningin um góðan son, föður og bróður lifir.

Blessuð sé minning þín, Ágúst minn.

Bjarney Guðrún

Björgvinsdóttir.