29. desember 1996 | Sunnudagsblað | 3694 orð

Með fingur á strengjum rúm fimmtíu ár Margir menn eiga sér ástríður. Hitt er

Með fingur á strengjum rúm fimmtíu ár Margir menn eiga sér ástríður. Hitt er sjaldgæfara að þeir séu í senn ástríðufullir tónlistarmenn, iðnaðarmenn, ljósmyndarar og bókasafnarar.

Með fingur á strengjum rúm fimmtíu ár Margir menn eiga sér ástríður. Hitt er sjaldgæfara að þeir séu í senn ástríðufullir tónlistarmenn, iðnaðarmenn, ljósmyndarar og bókasafnarar. Pjetur Hafstein Lárusson hitti þó að máli einn slíkan, Trausta Thorberg rakara, gítarleikara og bókasafnara með meiru.

IL eru þeir menn, sem handfjatla bækur af slíkri natni, að helst er hægt að líkja því við umhyggju drykkjumanna á öldurhúsum fyrir síðasta glasi fyrir lokun. Og þegar slíkir menn koma í fornbókaverslanir og rekast þar á bók, sem þá hefur lengi vanhagað um, færist yfir þá þetta undarlega sambland værðar og ákafa, sem helst á sér hliðstæðu, þegar fólk hittir stóru ástina í lífi sínu. Sé það rétt, að hver bók eigi sér sjálfstætt líf, um leið og hún kemur úr prentun, þá hlýtur það að vera keppikefli hverrar bókar að hafna hjá slíkum mönnum.

Einn þessara manna er Trausti Thorberg, gítarleikari, tónlistarkennari og rakari að iðn. Margir minnast hans einnig úr Fótóhúsinu, en þá verslun rak hann í tvo áratugi, ásamt konu sinni, fyrst í Garðastræti, en síðar í Bankastræti.

Sá sem þetta skrifar, hafði lengi veitt Trausta athygli á götum borgarinnar, áður en kynni tókust yfir kaffibolla í fornbókaversluninni Bókinni, sem þá var til húsa efst í Bankastræti en hefur nú flutt sig um set á Grundarstíginn. Er það síst að furða, enda vottar svipmót Trausta og fas ákveðna séntil- mennsku, sem því miður er flestum Íslendingum framandi. Það kom mér því ekki á óvart, þegar ég frétti, að hann á til danskra að telja í móðurætt. Eða væri ef til vill réttara að segja sænskra?

"Móðir mín, Edith Victoria Thorberg Jónsson, fædd Julin, fæddist í bænum Rönne á Borgundarhólmi, 18. mai 1901, og ól þar manninn, þar til hún kom hingað til lands með föður mínum árið 1920. En foreldrar hennar, hjónin Elna og Magnus V. Julin múrarameistari, voru Svíar, bæði frá Lödrup. En þau fluttust sem sagt til Borgundarhólms fyrir aldamót. Þar starfaði afi minn sem matsmaður tryggingarfélags. Þrátt fyrir að mamma væri fædd og uppalin í Danmörku, þá var hún mjög fljót að ná tökum á íslensku, þegar hingað kom. Og það gerði hún svo vel, að fæstir gerðu sér grein fyrir því, að hún væri ekki Íslendingur.

Það er annarrs svolítið skrýtin saga í sambandi við það, hvernig fundum foreldra minna bar saman. Það var að vísu ekkert merkilegt við það í sjálfu sér, heldur vegna nokkurs, sem síðar gerðist. Þannig var, að móðurbróðir föður míns, Guðjón Jónsson, faðir Kjartans listmálara, sem þá var bryti á Goðafossi, tók hann með sem þjón í nokkra túra. Og sem þeir voru staddir í Kaupmannahöfn, fóru þeir að heimsækja gamlan vin Guðjóns, Sigurð Briem fiðluleikara, sem þá bjó í Hellerup. Það var í þeirri ferð, sem foreldrar mínir kynntust.

Hvers vegna er ég að segja frá þessu? Jú, síðar flutti Sigurður heim og hóf hér tónlistakennslu. Og þar kom, að hann aumkaði sig yfir mig og tók mig í tíma í u.þ.b. tvö ár. Þá skildu leiðir. En síðar á lífsleiðinni tókst með okkur nokkurt samband. Ég fylgdi honum svo til grafar þegar að því kom og minnist hans enn með virðingu. Eiginlega á ég þessum ágæta manni tilveru mína að þakka. Svona geta einstakir þættir í lífinu stundum lokast eins og hringur.

Faðir minn var Óskar Thorberg Jónsson, bakarameistari, Gíslasonar, sölumanns, lengst af hjá Efnagerð Reykjavíkur. Hann var dugnaðarforkur til vinnu, en ekki það sem kallað er "forretningsmaður". Móðir mín sá því um bókhaldið og annað sem að viðskiptunum snéri, en hann annaðist baksturinn.

Þeir Jón Símonarson og pabbi stofnuðu bakarí á Laugavegi 5 árið 1926. Fjórum árum síðar reistu þeir svo bakaríið á Bræðraborgarstíg 16, þar sem bókaforlagið Iðunn er nú til húsa. Þetta var langstærsta bakarí landsins á sínum tíma, og starfsfólk a.m.k. á þriðja tuginn. Í þessu húsi voru og íbúðir þeirra félaga, og því mikill samgangur milli fjölskyldnanna. Á því varð engin breyting, þótt þeir Jón og pabbi hættu samstarfinu um rekstur bakaríisins. Eftir það stofnaði pabbi kökugerðarhús á Laugavegi 5. Þar höfðu þau mamma lítið konditorí sem setti sinn svip á bæinn."

- Þú hefur væntanlega snemma farið að vinna í bakaríinu?

"Auðvitað, það var alsiða í þá daga, að börn ynnu þá vinnu, sem kostur var á. Og bakarar höfðu það fram yfir ýmsar aðrar stéttir, að geta nýtt sér aðstoð barna sinna."

Frá bakaríi á rakarastofu

- En var þá ekki nokkuð sjálfgefið, að þú lærðir bakaraiðn?

"Jú, eiginlega. En þegar ég var kominn á þann aldur að huga að framtíðinni, þá hafði ég fengið áhuga á gítarnum. Og gítarleikur og bakaraiðn fara ekki vel saman, til þess reynir baksturinn of mikið á hendur og fingur. Hins vegar hentar rakaraiðn gítarleikurum ágætlega."

- Hjá hverjum varstu í læri?

"Ég er fyrsti nemandi Páls Sigurðssonar, sem síðar rak rakarastofuna í Eimskipafélagshúsinu, en á þessum árum rak faðir hans, Sigurður Ólafsson stofuna. Þetta var stór stofa, með fimm stólum. Ég komst á samning 18. maí 1943, en þá hafði ég verið einn vetur í Iðnskólanum. Árin mín á rakarastofunni í Eimskip eru mér mjög eftirminnileg, enda hef ég alla tíð búið að þeirri reynslu, sem ég fékk þar.

Á þessum árum var Reykjavík minni en hún er nú, og allt atvinnulífið var í miðbænum. Flestir þeirra utanbæjarmanna, sem erindi áttu í bæinn, byrjuðu á því að koma til okkar og fá rakstur og klippingu. Í þá daga komu menn ekki til bæjarins á einkabílum, heldur með rútum eða skipum. Rúturnar höfðu endastöð á B.S.Í. við Kalkofnsveg og Eimskipafélagshúsið stendur við höfnina, eins og allir vita. Þarna kynntist ég því fjölda manns, ekki aðeins úr bænum, heldur einnig utan af landi. Kannske þekkti ég ekki nöfn þeirra allra. En ég vissi að þessi var bóndi að austan og hinn sýslumaður að vestan. Mönn-um þótti gott að byrja bæjarferðina á rakarastofu, þar sem rakararnir spjölluðu við þá sem gamla kunningja.

Oft var það, að sjómenn, sem voru að koma úr siglingu, launuðu mér þjónustuna sérstaklega, með því að gefa mér vín, sem þeir gjarnan helltu í fantinn minn. Ég hef aldrei verið vínmaður og hafði því ekkert með þetta að gera. En það hefði verið ónærgætni að afþakka. Svo ég hellti víninu í flösku og safnaði til helgarinnar. Þá fór ég gjarnan í gönguferð um miðbæinn, ekki síst eftir að börnin komu til skjalanna. Notaði ég þá tækifærið til að gefa ólánsmönnum í strætinu vínið. Ég ætla nú ekki að lýsa þakklætinu, þótt drykkurinn væri vafalaust í göróttara lagi. En út á þetta eignaðist ég ýmsa ágæta kunningja meðal róna. Ég vandist því á rakarastofunni, að klippa og raka jafnt ráðherra sem róna og sé ekki ástæðu til að gera upp á milli þeirra. Á þessum tímum komu menn ekki einungis á rakarastofur til að fá klippingu, heldur líka rakstur. Sumir létu jafnvel raka sig á hverjum degi. Þetta skapaði mjög náin tengsl milli rakara og viðskiptavina. Ég man enn, hvernig húð sumara viðskiptavinanna var viðkomu, jafnvel þeirra, sem látnir eru fyrir ára-tugum. Og samræðurnar, þær voru líflegar. Umræðurnar spönnuðu allt milli himins og jarðar,- stjórnmál, efnahagsmál og Íslendingasögur. Og oft var hart tekist á. Pétur Hoffmann fór t.d. ekkert í launkofa með skoðanir sínar á fornköppum og lífshlaupi þeirra."

Byltingin 7. júlí 1941

"Þegar ég byrjaði í rakaraiðninni, var stríðið í algleymingi og bærinn fullur af hermönnum, bæði bandarískum og breskum. Ég var á þrettánda ári þegar Bretinn kom, 10. mai 1940. Auðvitað fylgdu miklar breytingar komu hans. En þegar Ameríkaninn kom árið eftir, þann 7. júlí 1941, varð bókstaflega bylting. Ég var, ásamt þúsundum annarra bæjarbúa, niðri við höfn þennan dag, að fylgjast með komu bandarísku hermannanna. Og hvílík sjón! Dátarnir voru "elegant" klæddir, báru hringi á fingrum og reyktu stórsígara. Bresku hermönnunum varð svo mikið um þetta, að þeir létu sig hverfa í fjöldann. Og þegar Ameríkanarnir byrjuðu að skipa birgðum sínum á land, urðu menn ansi langleitir. Þeir notuðu fullkomna krana og með þeim lönduði þeir ekki aðeins vopnum, heldur einnig jarðýtum og öðrum töfratólum, sem Íslendingar höfðu aldrei augum litið. Uppskipunin tók tvær til þrjár klukkustundir. Á meðan varð nútímaþjóðfélag til á Íslandi.

Auðvitað sér það hver maður eftir á, að þessi umskipti voru alltof snögg. Að vísu var gott að losna að mestu við fátæktina.

En í staðinn kom flottræfilsháttur, sem enn sér ekki fyrir endann á.

Áður en Ameríkaninn kom, taldist það heldrimannaháttur, að ganga með hatt. Flestir karlmenn, þ.á m. sterkefnaðir athafnamenn, gengu með derhúfu. En eftir þetta, keyptu þeir sér límosíur og réðu jafnvel bílstjóra til að skutla sér í og úr vinnu, þótt leiðin væri ekki nema tíu mínútna gangur. Ég mæli ekki með fátækt, en of mikið ríkidæmi er engum til góðs. Þeir eru ófáir ágætis mennirnir, sem ég hef séð fara fyrir lítið í taumlausri auðsdýrkun.

Gítarinn heillar

Ég var aðeins tólf ára, þegar ég tók ástfóstri við gítarinn. Móðir mín kenndi mér undirstöðuatriðin, en hún var mjög músíkölsk, sögn bæði og lék á hljóðfæri. En söngröddina missti hún, þegar bróðir minn, Georg, fórst í flugslysinu við Héðinsfjörð 29. mai 1947. Vinur minn einn, sem bjó í sama húsi og ég, kenndi mér einnig nokkuð og svo voru það tímarnir hjá Sigurði Briem. Hjá honum lærði ég m.a. undirstöðu nótnalesturs. En námið hjá honum varð svolítið endasleppt. Eiginlega rak hann mig, þegar hann frétti, að ég væri farinn að fikta við rhythmagítar. Honum líkaði það ekki, blessuðum.

En nú var sem sagt stríð, og bærinn fullur af hermönnum. Í þeirra hópi voru m.a. amerískir hljóðfæraleikarar og komst ég í kynni við ýmsa þeirra. Einn þeirra var Jimmy Webster gítarleikari, sem á sínum tíma spilaði með Benny Goodman. Amerísku hljómlistamennirnir bjuggu allir í Trípólíkampi við Melavöll. Þar höfðu þeir bíó, Trípólíbíó. Jimmy Webster var svo vingjarnlegur, að taka mig þar í tíma á hverjum sunnudegi, milli klukkan 10 og 11 á morgnana. Sú kennsla var mér auðvitað mikils virði.

En Webster gerði hér stuttan stans. Eftir þrjá mánuði var hann sendur á brott. Hann gerði þó ekki endasleppt við mig, því hann fékk Þóri Jónsson til að taka mig í hljómsveit sína. Hún spilaði bæði á Hótel Borg og af og til fyrir "offisera" í Trípólíkampi. Á Hótel Borg var sex manna hljómsveit á kaupi. Ég var sjöundi maðurinn og spilaði kauplaust, enda lærlingur. Þetta átti þó aðeins við um þá dansleiki, sem voru á vegum hótelsins. Þess utan voru þarna s.k. "prívatböll", oft tvisvar í viku. Þá var spilað til kl.3 til 4 á nóttinni og ég á fullu kaupi. Ég þénaði svo vel á þessu, að ég þorði ekki að segja félögum mínum á rakarastofunni frá því. En þetta var líka tvöföld vinna. Svona gat þetta gengið fyrir sig vegna hæfilegrar blöndu af hreysti, reglusemi og fégræðgi. Þannig hafa hlutirnir yfirleitt gengið hjá mér,­ tvöföld vinna og tvöfalt kaup. Það hefur forðað mér frá því að vera það sem kallað er blankur.

Eftir þetta spilaði ég með flestum hljóðfæraleikurum þessa tíma. T.d. spilaði ég í tvö ár á Keflavíkurflugvelli, 1953 til 1955. Þangað suður eftir hossaðist ég í leigubíl eftir gamla Keflavíkurveginum á hverju kvöldi, eftir að hafa unnið allan daginn á rakarastofunni. Þegar heim kom, um miðja nótt, beið konan svo með kaffi og kökur. Vinnuálagið lagðist því ekki aðeins á mig, heldur einnig hana.

Ég spilaði bæði í lausamennsku og með hljómsveitum. Þannig var ég í fyrsta KK-sextettinum, en hann byrjaði að leika fyrir dansi í Mjólkurstöðinni árið 1947. Þetta voru fádæma vinsæl böll, spilað öll kvöld, nema að mig minnir mánudagskvöld. Á laugardögum voru meira að segja síðdegisböll. Við dyravörslu var ungur og vaskur maður, síðar þekktur sem Gvendur jaki.

Carl Billich var einn þeirra sem ég spilaði mikið með, m.a. í yfir hundrað sýningum á Deleríum Búbónis, auk þess, sem ég spilaði inn á nokkrar plötur með honum. Hann var eftirminnilegt prúðmenni, og bar með sér andblæ mið-evrópskrar siðmenningar.

Þrátt fyrir hreystina, kom þar á þessu tímabili, að ég hætti að geta sofið. Ég fór því til Þórðar Mullers læknis, til að fá svefntöflur. Hann spurði hvað ég gerði. Þegar ég hafði sagt honum, að ég ynni á rakarastofu á daginn og spilaði á nóttinni, sagði hann mér léttur í bragði, að ég fengi engar pillur hjá sér. Hins vegar ráðlagði hann mér að hætta, annað hvort að klippa eða spila og þó helst hvort tveggja.

Ég tók hann á orðinu og fór með minni heittelskuðu til Danmerkur. Þar hvíldist ég og vann smávegis á bólstraraverkstæði hjá móðurbróður mínum. Og það leið ekki á löngu, þar til svefninn komst í eðlilegt horf.

Eftir að ég hafði náð svefni á ný, tók mig fljótlega að klæja í fingurna eftir skærunum. Ég réði mig því á rakarastofu við Vester Voldgade. Amerísk áhrif voru mikil í Evrópu svo skömmu eftir stríð. Það kom m.a. fram í því, að menn létu klippa sig að hætti Ameríkana. Reynslan frá rakarastofunni í Eimskip kom því að góðum notum, því ég var þaulvanur að klippa ameríska hermenn. Það líkaði þeim, ungu herramönnunum í Kaupmannahöfn. Þarna á rakarastofunni við Ráðhústorgið, kynntist ég ýmsum dönskum tónlistamönnum, sem auðvitað vildu tolla í tískunni og fá sér klippingu upp á amerískan móð.

Þegar heim kom, í febrúar 1949, tók við hjónaband og áframhaldandi vinna á rakarastofunni í Eimskip og svo auðvitað tónlistin. Nokkru síðar stofnaði ég svo rakarastofu á Vesturgötu 48, í félagi við Hörð Þórarinsson. Hann rekur þá stofu enn, í félagi við son sinn, Ragnar."

- Þú nefndir hjónaband.

"Já, konan mín er Dóra Sigfúsdóttir, dóttir Sigfúsar Elíassonar, skálds og rakara frá Selárdal í Arnarfirði og Sigrúnar Þórarinsdóttur frá Jökuldal á Fjöllum. Dóra fæddist og ólst upp á Akureyri. Það fer að styttast í gullbrúðkaupið, svo þú sérð, að makavalið hefur ekki verið út í bláinn. Við eigum þrjú börn, barnabörnin eru orðin átta og nú er svo komið, að við erum orðin langafi og langamma. Það er nú svona með tímann."

Kaupmennska í Fótóhúsinu

- En þar kom, að þú stofnaðir ljósmyndavöruverslun.

"Já, ég er svolítill dellukarl. Ein dellan, sem ég hef orðið mér úti um, er ljósmyndadella. Þetta byrjaði ósköp sakleysislega. Ég fór að taka myndir fyrir sjálfan mig, framkalla o.s.frv. En svo byrjaði ég að selja blöðunum myndir, aðallega Morgunblaðinu. Þar með varð ég svolítið þekktur fyrir þessa iðju mína. Og svo æxlaðist það þannig, að haustið 1963 ákváðum við hjónin að stofna ljósmyndavöruverslun. Fótóhúsið, kölluðum við hana og starfræktum hana í Garðastræti fyrstu sjö árin. 1969 fluttum við verslunina svo í Bankastræti. Við fengum fljótlega bærileg viðskipti. En peningarnir sem komu inn í verslunina voru þar kyrrir, meðan við vorum að greiða skuldir og styrkja lagerinn. Ég aflaði svo lífsviðurværis, með því að spila öll kvöld á Röðli í hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar.

Það var auðvitað mikið verk að opna verslunina. En við nutum góðrar aðstoðar föðurbróður míns, Viggós í Freyju. Við opnuðum á laugardegi. Kvöldið og nóttina áður voru þau Dóra og Viggó að koma öllu í lag, verðmerkja vörur o.s.frv. og bættist ég svo í hópinn þegar ég var búinn að spila á Röðli.

Það var því langt liðið á nóttina, þegar Viggó loks komst heim. En þegar við opnuðum morgunin eftir, ja, ­ hver skyldi þá hafa verið fyrsti viðskiptavinurinn? Jú, það var Viggó. Þannig vildi hann hafa það."

Gráhærður á skólabekk

- Var það ekki á þessum árum, sem leið þín lá í Tónlistaskólann?

"Jú, þar er rétt. Ýmsir ágætir vinir mínir urðu til þess að hvetja mig til þess, enda hafði ég starfað að tónlistaflutningi frá unga aldri, þó með annarri vinnu væri. Það var ekki síst góðvinur minn Eyþór Þorláksson, sem hvatti mig til dáða. Lengi framan af fannst mér þetta fráleitt, enda var ég kominn á sextugsaldur og átti því erfitt með að ímynda mér sjálfan mig sem skólastrák. Samt fór það nú svo, að ég innritaðist í Tónlistaskólann. Samnemendur mínir, sem allir voru unglingar, héldu fyrst, að ég væri skólastjórinn. Og það vantaði ekki, að ég teldi mig kunna hitt og þetta, maður með mína reynslu. En það reyndist í veigamiklum atriðum vera á misskilningi byggt. Mig vantaði nefnilega undirstöðuna.

Auðvitað hafði ég reynt að sanka að mér þeirri þekkingu sem bauðst. En reglulega kennslu hafði ég ekki fengið og þar af leiðandi skorti mig ögun. Ég tók gítarinn sem aðalfag og stefndi ekki á neitt annað, en að öðlast undirstöðu í almennri tónlist. Burtfararprófi lauk ég svo vorið 1985, gítarleikari með áttunda stigs próf. Skírteinið segir árangurinn góðan.

Áður en ég lauk prófi byrjaði ég að kenna í Tónlistaskóla Mosfellsbjæjar, þar sem Ólafur Vignir Albertsson var skólastjóri. Þar starfaði ég í u.þ.b. tíu ár og fór svo jafnframt að kenna í Tónlistaskóla Hafnarfjarðar. Þar starfa ég enn. Ég uni mér vel við kennslu. Þegar ég lít til baka, held ég, að ég hafi lært einna mest af henni.

Framan af tónlistarferli mínum lék ég aðallega á rhytma-gítar og þótti nokkuð liðtækur, sem slíkur. En kannske hefði orðið meira úr mér sem tónlistarmanni, ef ég hefði vitað og kunnað, þó ekki væri nema brot af því, sem ég kann nú.

Eftir 1950 snéri ég mér alfarið að klassískum gítar. Á þeim árum var það hljóðfæri ekki í hávegum haft. Aðeins örfáir snillingar í heiminum, kunnu með það að fara. Andrés Segovia var þar fremstur í flokki. Nú er þetta breytt til batnaðar og frábærir gítarleikarar í þúsundatali vítt og breitt um heiminn. Hér á landi eigum við marga góða gítarleikara. Sumir þeirra mundu jafnvel sóma sér vel meðal þeirra bestu í Evrópu.

Ég á nokkuð gott úrklippusafn um þróun gítartónlistar á Íslandi. Má vera, að sú saga verði skráð seinna. Vonandi verður grúsk mitt þá einhverjum til gagns."

Skal nú sagt frá bókum

- Þú hefur jafnt bundið bækur, sem bundist þeim.

"Ja, þú segir nokkuð. Jú, það má eiginlega segja það. Eftir tuttugu ára kaupmennsku í Fótóhúsinu, ákváðum við hjónin að kúvenda okkar líferni. Og hvernig fara menn að því? Jú, við seldum verslunina, seldum stóra húsið og seldum stóra bílinn. Í staðinn keyptum við litla íbúð, lítinn bíl og fengum lág laun en betra líf. Vitanlega væri langt mál að fara út í þetta í smáatriðum, en svona var það í hnotskurn."

- Kom bókagrúskið í kjölfar þessarar kúvendingar?

"Nei, í eðli mínu hef ég alltaf verið grúskari. Og sú árátta beindist snemma að söfnun bóka og tímarita. En þetta hefur orðið markvissara með árunum. Hér áður fyrr safnaði ég bókum, en þó aðallega tímaritum, sem erfitt var að ná í. Eftir því sem erfiðara var að nálgast tiltekin hefti, þeim mun skemmtilegri var söfnunin.

Svo kom að því, að ég fór að fá áhuga á bókbandi, til þess að ég gæti bundið inn eitthvað af þeim ósköpum, sem ég hafði sankað að mér. Ég fór því á kvöldnámskeið hjá Helga Tryggvasyni við bókbandsdeild Myndlista- og handíðaskólans. Þessi námskeið sótti ég í tvö ár. Ég kynntist Helga nokkuð vel og hjálpaði hann mér um margt illfáanlegt, sem mig vanhagaði um. Það gladdi mig mjög að kynnast honum, því hann fræddi mig um margt, sem ég hafði áhuga á, þ.e.a.s. bækur og bókamenn. Af honum lærðist mér m.a., að best væri að eiga lítið en sérhæft bókasafn. Því seldi ég obbann af því, sem ég hafði safnað í áranna rás. En ekki seldi ég nú allt. Ég skildi eftir sagnaþætti, þjóðsögur og fróðleik um íslenska atvinnuhætti fyrri tíma. Og svo hélt ég auðvitað til haga öllu því sem varðar íslenska tónlist.

Vissulega liðsinnti Helgi mér mikið. En fleiri hafa þar komið við sögu. Þeir fornbókasalarnir Bragi Kristjónsson í Bókavörðunni á Vesturgötu, Snær Jóhannesson, sem starfaði í Bókinni og séra Björn H. Jónsson, hafa bjargað mér um marga góða bókina."

- Þar komum við væntanlega að kjarna málsins, varðandi bókasöfnun þína?

"Já, aðallega hef ég verið og er enn, að safna öllu því, sem ritað hefur verið um íslenska tónlist. Það er svolítið sérstakt að standa í þessu, því lítið er til á prenti um þessi mál. Mest af því, sem skrifað hefur verið um þessi efni er að finna í blöðum og tímaritum, oft aðeins fáeinar síður. Það sem ég geri er að leita þetta uppi, og annað hvort taka þetta úr þessum tímaritum og gera úr því s.k. smá-prent, eða ég hef ljósritað og sömuleiðis búið til bækur, þ.e.a.s. smáprent. Þegar ég hef svo bundið þetta í snoturt band, höfum við það sem á safnamáli kallast úrtak. Auk þess að safna því, sem skrifað hefur verið um íslenska tónlist, safna ég nótum íslenskra tónverka. Ég á þegar álitlegt safn þessara tónbókmennta.

Því miður er söfnun gamalla nótna ekkert áhlaupaverk. Oftast voru þær gefnar út á lélegum pappír. Því er fátt um gamlar nótur í heillegu ástandi. T.d. er algengt, að nótnablöðin séu marglímd og eftir því skemmd. Í slíkum tilfellum þarf ég að eignast fleiri en eitt eintak, til að geta komið saman heil- legu úrtaki. Dæmi: Ég á þrjú eintök af Kirkjusöngbók (með fjórum röddum), eftir Jónas Helgason organista við dómkirkjuna í Reykjavík. Þetta var gefið út í Kaupmannahöfn árið 1885. En úr þessum þremur eintökum get ég ekki komið saman einu úrtaki. Hvers vegna? Bækurnar eru svo illa farnar af notkun og næstum hver blaðsíða marglímd. Því er ekkert annað að gera en að halda áfram að safna þessari bók, þar til ég get bundið inn heillegt úrtak. Þannig vinn ég, sjálfum mér til skemmtunar og komandi kynslóðum til hægðarauka. Þeim mun nýtast þetta í framtíðinni, við rannsóknir á íslenskum tónbókmenntum, hvað sem líður hagnýti þessarar söfnunar minnar."

Ég kveð Trausta Thorberg, rakara, tónlistamann og bókasafnara með meiru. Um leið velti ég því fyrir mér, hvernig nokkrum geti komið til hugar, að lífið lúti hagrænum lögmálum, en ekki sínum innri gildum.

Morgunblaðið/Þorkell

TRAUSTI Thorberg rakari, gítarleikari og bókasafnari með meiru.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.