Jón Gunnar Árnason Myndhöggvarinn okkar góði Jón Gunnar Árnason lést að morgni annars sumardags, 21. apríl sl. Hann var á fullri ferð, þegar honum, með fyrirvara þó, var vísað út úr ævintýraheimi listsköpunar og honum fyrirhuguð viðfangsefniá okkur óþekktum stigum.

Með æðruleysi og skapstyrk vann hann fram á síðasta dag að hugðarefnum sínum, þótt í heljargreipum væri. Hann þurfti að klára svo margt. "Ég hugsa ekki um annað," sagði hann. Þessi umskipti eru öllum búin, en það er sárt að missa góða menn á þessum aldri.

Jón Gunnar fæddist í Reykjavík 15. maí 1931. Foreldrar hans voru Helga dóttir hjónanna Guðrúnar Friðriksdóttur og Jóns Hjartarsonar. Þau voru bæði ættuð úr Húnaþingi og bjuggu alllengi í Vatnsdal, og Árni sonur hjónanna Stefaníu Stefánsdóttur, systur Magnúsar skálds (Örn Arnarson), og Steinþórs Árnasonar. Þau voru ættuð af Austurlandi. Árni var bílstjóri og síðar verkstjóri hjá Olíufélaginu hf.

Helga og Árni eignuðust þrjá syni, Jón Gunnar, sem var elstur, Svavar, sem er látinn, og Steinþór, sem er prentari að iðn.

Bernskuheimili Jóns Gunnars var friðsælt og gott. Foreldrar hans voru samtaka um alla hluti, greind og velviljuð. Árni Steinþórsson var þónokkuð óvenjulegur maður, stilltur, alvörugefinn en þó glaður, og skemmtilegur heim að sækja. Á mínum yngri árum kom ég oftar á æskuheimili Jóns Gunnars en nokkurt annað heimili og á þaðan margar fallegar minningar. Þannig urðum við Jón Gunnar samferðamenn og vinir alla hans ævi, þó bil væruá milli okkar af og til, enda aldursmunur yfir tuttugu ár.

Jón Gunnar var ekki gamall, þegar menn þóttust sjá hvert krókurinn beygðist. Til eru eftir hann myndir, sem hann litaði og málaði 7 ára gamall. Hann var heilsuveill á tímabili þegar hann var lítill drengur og var þá rúmliggjandi bæði á spítala og heima, þá málaði hann og spilaði á spil. Konan mín hefur sagt mér, að stundum hafi hún litið upp frá spilunum, til þessað sannfærast um, að það væri lítið barn, sem hún var að spila við.

En Jón Gunnar óx og var settur til náms í járnsmíði. Þótti sumum það skrítið, er frá leið, að þessi fíngerði viðkvæmi drengur skyldi lenda í þessari iðngrein. En fátt má sjá fyrir svo öruggt sé, ef langt skal líta, og svo fór að járn, stál og mörg önnur efni léku jafnt í höndum hans, og hinir hörðu málmar í verkum hans munu áreiðanlega halda nafni hans lengi á lofti.

Jón Gunnar lauk járnsmíðanámi, og í málmunum hefur hann vafalaust séð hylla undir mörg yrkisefni. Málmarnir hafa alla tíð verið hans uppáhaldsefni, þó fleira værií takinu, svo sem verða vill, þegar hugurinn leitar víða.

Þann 3. júlí 1954 giftist Jón Gunnar Önnu Sigurborgu Thorlacius og eignuðust þau þrjár dætur. Elst þeirra er Helga Margrét, hennar maður Erling Árnason og eiga þau þrjú börn, þau Árna Ívar, Jón Gunnar og Önnu Guðrúnu. Næst er Þorbjörg, hennar maður er Terry Gunnell, og eiga þau tvær dætur, þær Liv Önnu og Helgu Sólveigu. Yngst er Ólöf Anna, og á hún eina dóttur, sem Elín heitir.

Þau hjónin Anna Sigurborg og Jón gunnar slitu samvistum árið 1970. Aðrar konur í lífi Jóns Gunnars síðar vóru Elísabet Gunnarsdóttir og Þuríður Fannberg - Rúrí.

Um listnám Jóns Gunnars, störf hans í þágu lista, kennslustörf hérlendis og erlendis, sýningar og verk hans sjálfs hef ég ekki mörg orð, þar munu aðrir hæfari um að fjalla, en troðnar slóðir fór hann ekki í list sinni, hvað svo sem það þýðir. Hann var andvígur þeirri skálmöld, sem hann lifði á, og kom það allvíða fram í verkum hans, bátar og skip höfðuðu til sögu okkar og enn önnur verk benda til hinnar sífelldu leitar mannsandans út í óravíddir geimsins, til dæmis Sólvagninn. Eftir Jón Gunnar liggja einnig allskonar járnsmíðaverk svo sem stiga handrið, skreytingar í húsum og margt fleira, sem allt ber listamanninum fagurt vitni. Mér fannst hann sannarlega hafa fundið sjálfan sig í list sinni, og dapurlegt að hann skyldi ekki fá örlítið meiri tíma. En svona átti þetta að vera. Jón Gunnar fékk margskonar viðurkenningar fyrir verk sín, bæði hérlendis og erlendis.

Jón Gunnar var ljúfur maður, félagslyndur og greindur. Hann var ákaflega hagur og virtist allt leika í höndum hans. Oft var leitað til Jóns, þegar vanda bar að höndum og lausnir hans voru ævinlega góðar, en dálítið skringilegar stundum. Alltaf kom frumleiki hans fram í hverju sem hann snerti á, í sendibréfum hans líka. Hann var stundum hvass í svörum, líklega er það einkennandi fyrir blíðlynda menn.

Jón Gunnar var hugsandi maður og æði vel heima í mörgu. Ég hygg að hann hafi átt einhverjar vistarverur, sem fáir gengu um, nema kannski listagyðjan hans, ég sá ekki betur, en að hún væri alltafmeð honum í leitinni, brautina á enda.

Ég gaf þessum fríða sveini, frænda mínum, margar leikfangabyssur þegar hann var lítill drengur. Hann gaf mér marga fallega og sérkennilega gripi, þegar hann varð stór og vináttu sína að auki.

Sem lítill drengur var hann rúmfastur svo mánuðum skipti, en honum leiddist aldrei ef hann hafði fyrirmynd, liti og blað til þess að teikna á. Síðustu tíma ævinnar þurfti hann oft að vera á sjúkrahúsi og hann tók viðfangsefnin meðsér þangað og sagði: "Ég hugsa ekki um annað."

Nú er leit Jóns Gunnars lokið hér meðal okkar. Margt bendir til þessað dætur hans haldi henni áfram. Leit hans og tjáningargleði hófst þegar hann var lítill snáði. Áhugamálin formuðust og skerptust við aflinn í Sindrasmiðjunni og á leið hans eftir hinni krókóttu listabraut, en nú hefur hann afhent okkur af rakstur lífs síns. Skipin fögur úr blikandi stáli og ótal fleiri listaverk munu minna okkur á mikilhæfan listamann og góðan dreng, sem nú ekur í Sólvagni inn á nýjar brautir.

Innilegar samúðarkveðjur sendum við, konan mín og ég, dætrum hans og fjölskyldum þeirra, móður þeirra, bróður hans og öðrum nánustu mönnum.

Ég þakka þessum frænda mínum og vini samfylgdina og bið hann vel fara í Guðs nafni.

Jarðarförin fer fram frá Dómkirkjunni nk. þriðjudag, 2. maí, kl. 3 síðdegis.

Hjörtur Jónsson