LEIÐRÉTT Mat á öryggi fólks í brennandi byggingum ÞAU mistök urðu við frágang fréttatilkynningar um fyrirlestur Gunnars H. Kristjánssonar að meinlegar villur slæddust með.

LEIÐRÉTT Mat á öryggi fólks í brennandi byggingum

ÞAU mistök urðu við frágang fréttatilkynningar um fyrirlestur Gunnars H. Kristjánssonar að meinlegar villur slæddust með. Morgunblaðið biðst velvirðingar á þessum mistökum og endurbirtir hér fréttatilkynninguna:

"Mánudaginn 27. janúar næstkomandi mun Gunnar H. Kristjánsson, verkfræðingur, halda opinberan fyrirlestur sem nefnist: Mat á öryggi fólks í brennandi byggingum. Fyrirlesturinn, sem er lokaáfangi náms til meistaraprófs við verkfræðideild Háskóla Íslands, verður haldinn í stofu 157 í húsi verkfræði­ og raunvísindadeildar VRII við Hjarðarhaga og hefst hann kl. 16.15.

Gunnar Kristjánsson lauk prófi frá verkfræðideild Háskóla Íslands 1992. Jafnframt störfum sínum hjá Brunamálastofnun ríkisins hefur Gunnar lagt stund á rannsóknartengt framhaldsnám við Háskóla Íslands og Tækniháskólann í Lundi. Umsjónarnefnd með náminu skipa dr. Björn Karlsson, Tækniháskólanum í Lundi, Bergsteinn Gizurarson, brunamálastjóri, og Ragnar Sigurbjörnsson, prófessor við Háskóla Íslands, sem er formaður nefndarinnar og aðalleiðbeinandi.

Öllum er heimill aðgangur meðan húsrúm leyfir."