Ferðamenn í fátækrahverfum Ríó de Janeiro COPACABANA strönd og stóra Kristslíkneskið á Corcovado hafa lengi verið ofarlega á lista yfir hefðbundna ferðamannastaði í Ríó de Janeiro í Brasilíu.

Ferðamenn í fátækrahverfum Ríó de Janeiro

COPACABANA strönd og stóra Kristslíkneskið á Corcovado hafa lengi verið ofarlega á lista yfir hefðbundna ferðamannastaði í Ríó de Janeiro í Brasilíu. Þá hafa ferðamenn gjarnan lagt leið sína til borgarinnar í febrúar til þess að vera viðstaddir hina heimsþekktu kjötkveðjuhátíð. En nú stækkar sífellt sá hópur ferðamanna sem bætir illræmdum fátækrahverfum Ríó de Janeiro á listann yfir áfangastaði sína.

Til skamms tíma gátu ferðamenn sem hættu sér inn í favelas, eins og fátækrahverfin eru kölluð, næsta örugglega átt á hættu að vera rændir. Ferðalangar sem eru einir á ferð, geta enn búist við slíkum móttökum, en leiðangrar með farastjórum eru nú í boði.

Það eru rúmlega 600 favelas í kringum Ríó. Fyrstu hverfin mynduðust í upphafi aldarinnar, þau hafa ekkert vatnskerfi, engar lagðar götur eða gangstéttir og er stjórnað af vel vopnuðum eiturlyfjasölum. Í hverfunum hafa sprottið upp skólar, heilsugæslustöðvar og kirkjur.

Stærsta hverfið er kallað Rocinha, heimili rúmlega þrjú hundruð þúsund manna. Fólkið býr þar í hreysum sem hanga utan í klettum, bak við eitt af dýrustu hótelum borgarinnar, Intercontinental á Sao Conrado strönd. Hótelgestir fara gjarnan í skoðunarferð um Rocinha með leiðsögumanni.

Skoðunarferðirnar, sem eru sagðar öruggar sem lengi sem leiðsögumennirnir séu vel kynntir í hverfinu, fela í sér heimsóknir í skóla, á heilsugæslustöðvar og inná heimili fólks. Íbúarnir hagnast þó ekki á ferðamönnunum, leiðsögumennirnir fá greitt og hótelið tekur sinn hlut fyrir að koma ferðinni á. Við og við færa leiðsögumennirnir fólki poka af hveiti eða sykri í þakklætisskyni fyrir að opna heimili sín og veita innsýn í lífið í hreysunuum í favelas.

Sue Wheat, starfsmaður þrýstihóps um ábyrgð ferðamanna, segir að áhugasamir um lífið í fátækrahverfunum ættu að ganga úr skugga um að það væru heimamenn sem skipulegðu skoðunarferðirnar, þannig færi greiðslan á réttan stað. Íbúarnir væru jákvæðir gagnvart ferðamönnum og vildu gjarnan sýna hve heimur þeirra væri vel skipulagður og virðulegur. Það væri hins vegar ótækt að láta aðra mata krókinn á þessum ferðum. Ferðamenn ættu líka að forðast að líta á þetta sem "dýragarðsferðir" og skyggnast þess í stað undir yfirborðið.

Heimild: New York Times

FERÐAMENN ættu að tryggja að skoðunarferðir í fátækrahverfi Ríó de Janeiro færðu íbúunum eitthvað í aðra hönd.