FMB í Borgarholtsskóla Einn best búni bíltækniskóli Norðurlanda SAMTÖK bílgreina, þ.e.

FMB í Borgarholtsskóla Einn best búni bíltækniskóli Norðurlanda

SAMTÖK bílgreina, þ.e. Bílgreinasambandið og Bíliðnafélagið, hafa lagt fram búnað fyrir andvirði 60 milljóna króna til Fræðslumiðstöðvar bílgreina sem rekur bíltækniskóla í Borgarholtsskóla í Grafarvogi. Enn bættist við búnað skólans þegar myndarlegt framlag barst frá P. Samúelssyni efh., umboðsaðila Toyota á Íslandi, og Toyota í Japan. Andvirði búnaðarins er um 15 milljónir króna.

Búnaðurinn sem skólanum hefur borist samanstendur af nýjum fólksbílum, heildstæðum kennslukerfum, þ.e. sundurskornum íhlutum, hermum, myndböndum o.fl., málningarvörum, verkfærum, tölvustýrðum bilanagreiningartækjum og tæknigögnum.

Gjöf Toyota var afhent síðastliðinn föstudag. "Sem einn af stærstu bílaframleiðendum í heimi hefur Toyota lagt ríka áherslu á vöruþróun og tækninýjungar. Þetta eykur aftur þörfina á vel þjálfuðum, tæknimenntuðum bifvélavirkjum. Það er með þetta í huga sem Starfsmenntun Toyota (Toyota Technical Education Program) var sett á laggirnar og eru slíkir skólar nú orðnir 290 talsins í 40 löndum," segir í fréttatilkynningu frá Toyota.

Við vígslu Fræðslumiðstöðvar bílgreina 15. nóvember sl. var 20 íslenskum fyrirtækjum í bílgreinum þakkaður stuðningur við starfsemi FMB með afhendingu viðurkenningarskjala. Í fréttariti FMB, Nýtt, segir að fyrirtækin hafi mörg hver í samvinnu við erlenda framleiðendur, lagt fram búnað sem geri FMB meðal best búinna bíltækniskóla á Norðurlöndum ef ekki Evrópu.

Samtök bílgreina skuldbundu sig fyrir 20 milljóna kr. framlagi með samningi um FMB 6. janúar 1994. Framlagið nemur nú, eins og fyrr segir, um 60 milljónum króna og er enn nokkuð af búnaði ókominn. Búnaðurinn verður notaður til eflingar iðnmenntunar, eftirmenntunar og meistanáms auk þess að notast á námskeiðum fyrirtækja og framleiðenda í bílgreinum.

Fyrirmyndaraðstaða

Starfsemi Fræðsluráðs bílgreina fluttist í ágúst á síðasta ári í nýtt húsnæði FMB í Borgarholtsskóla. Húsnæðið er rúmlega 2.000 rúmmetrar að stærð og er skipulagt sérstaklega með tilliti til verklegrar og bóklegrar kennslu í bílgreinum. Auk hefðbundinna kennslustofa eru í húsnæðinu svæði til verklegrar kennslu og þjálfunar í plastviðgerðum, réttingum, bílamálun, vélaviðgerðum, rafmagnsviðgerðum, fólksbílaviðgerðum og flutninga- og hópbílaviðgerðum.

Í skóla FMB er bókastofa nemenda þar sem stefnt er að uppbyggingu tæknilegra upplýsinga um bíltækni hvort heldur sem er í formi bóka, í tövlu á myndbandi eða öðru formi nútíma upplýsingatækni. Þar er lesaðstaða, tölva og sjónvarp ásamt myndbandstæki.

Morgunblaðið/Þorkell

VERKLEG kennsla í hinum nýja bíltækniskóla FMB í Borgarholtsskóla.