Mórall í landinu aflaga er PPHAF að kunnuglegum söngtexta bar fyrir augu og ýfði upp gárur. Nú hefur mórallinn víst farið aflaga í aldir og hvarvetna á byggðu bóli, að dómi hvers tíma. Varla sakar samt að rétt líta á sitt nánasta umhverfi og tíma.

Mórall í landinu aflaga er

PPHAF að kunnuglegum söngtexta bar fyrir augu og ýfði upp gárur. Nú hefur mórallinn víst farið aflaga í aldir og hvarvetna á byggðu bóli, að dómi hvers tíma. Varla sakar samt að rétt líta á sitt nánasta umhverfi og tíma. Vita hvort maður kemur auga á þetta fyrirbrigði móral eða siðgæði. Hvaða skepna það er þá?

Ekki þarf lengi að leita áður en fyrir verða í blöðum og umræðu beinar eða óbeinar ásakanir um skort á siðgæði. Þá nær alltaf sakir bornar á toppana, efsta lagið í okkar samfélagi. Lítið um slíkar kröfur til annarra, hversdagsfólksins. En ætli þetta hangi ekki allt á sömu spýtunni? Er það ekki fólkið sem hlýtur að setja mörkin og veita aðhaldið? Annars bara píp, sem fljótt gleymist, að reka upp ramakvein.

Eitthvað í þessa áttina hefur stundum hvarflað að þessum fréttafíkli, sem lætur helst ekkert fram hjá sér fara í fréttaumfjöllun fjölmiðla. Sumt stingur svolítið í augu. Tökum til dæmis viðhorfið til þess að borga skuldir. Þar birtist nú stundum ýmislegt skrýtið og mótsagnakennt.

Dæmi? Við heimkomuna eftir fjarveru í kosningabaráttu til forsetaembættisins var spurt frétta í hópi velvitenda. Ástþór Magnússon hafði bæst í frambjóðendahópinn. Tónninn í hans garð var eitthvað drýldinn. Nú, hvað var að honum? Einhver sagði að það væri bara fortíð hans. Hvaða fortíð? Jú, hann varð gjaldþrota einhvern tíma og skildi fjölda manns eftir með ógreidda skuldir. Nú hefur margur maðurinn orðið gjaldþrota með fyrirtæki sín án þess að við höfum tekið svona á því í fréttum. Sjálf hefi ég lent í fyrirtæki sem lagði upp laupana með ógreidd vinnulaun til mín og fannst þeim heiðursmönnum þeir ekki eiga að bera nokkra ábyrgð á því. Hefi ekki heyrt þeim legið það á hálsi í fjölmiðlum eða annars staðar. Borgaði ekki Ástþór sjálfur allt sem hann fékk í kostningabaráttunni jafnóðum? Var þá hætta á að einhver tapaði á honum? Ekki virtist það talið honum til hróss. Þetta rifjaðist upp um daginn þegar Pétur Hafstein tók á sig sjálfur og persónulega eftirstandandi skuldir sem stuðningsmannahópur hans hafði efnt til, veðsetti hús sitt og tryggði þar með að enginn sem tók að sér verkefni fyrir framboðið tapi fé eða eigi undir óskilgreindum stuðningsmannahópi. Þá mátti heyra á einhverju fjölmiðlafólki ­ að vísu örfáu ­ að ekki væri það hrósvert. Mér er sagt að báðar Guðrúnarnar séu líka búnar að gera hreint fyrir sínum dyrum og tryggja að enginn tapi. Að sjálfsögðu er ekki verið að tala um þá sem meðvitað lögðu fram fé og vinnu. Það er heldur ekki kjarni þessa máls, heldur viðhorfið til þess að fólk telji sig eiga og vilji bera ábyrgð á því sem það gerir. Sem sagt að gerðir og ábyrgð fari saman.

Ef maður lítur í kringum sig í samfélaginu finnst ólíklegasta fólki það ekki bera slíka ábyrgð ef hjá má komast að lögum. Finnst það í raun og veru ekki missa reisn sína við að skilja fólk eftir með ógreidda reikninga. Ófá dæmi þekkir maður um fólk sem af greiðasemi eða fyrir tiltrú til viðkomandi manneskju hefur skrifað upp á lán eða víxla fyrir ættingja og vini, sem fara svo í gjaldþrot. Til dæmis gamla konan sem mátti leita til opinberra aðila um húsakjól og lifibrauð meðan sonurinn og fjölskylda hans flutti bara til útlanda, bar ekki við að sjá um hana eftir að allt var af henni tekið. Eða einstæð móðir í smáíbúð sem skrifaði upp á fyrir æskuvinkonu sína og situr uppi með 30 þúsund króna mánaðargreiðslur, en vinkonan og maður hennar neita að létta undir með henni með orðunum: Við eigum engan aur! Ótal svona sögur þekkir maður.

Líka dæmi um fólk sem hefur stjórnað fyrirtækjum þannig að þau fóru með miklar skuldir í gjaldþrot og finnst þeir raunverulega ekki bera neina ábyrgð á kannski bláfátækum skuldunautum sem verða fyrir barðinu á því. Löggjafinn fríar þá. Voru það þó ekki þeir sem tóku allar ákvarðanirnar sem leiddu til þessarar niðurstöðu? Alltaf er dálítið skondið þegar maður minnist kannski ábúðarmikils ræðuflutnings viðkomandi um ábyrgð samfara sjálfstæði, sem verður býsna máður þegar allri persónulegri ábyrgð er vísað út í hafsauga. Þá er ég ekki að tala um fólk sem verður eyðilagt yfir því hvernig fór og gerir sitt besta til að tjón einstaklinganna verði sem minnst, heldur þá sem hafa siðgæði er fríar sig allri ábyrgð.

Mórallinn getur víst verið býsna afstæður. Og varla þarf að líta mikið í kringum sig í okkar samfélagi til að það blasi við. Vísast hafa þeir á toppnum, sem við fjölmiðlafólk gjarnan erum að brýna til siðgæðis, ósköp ámóta móral og umhverfið. Annars mundu þeir hafa eitthvert aðhald, ekki satt? Kannski við séum bara æði mörg með skítamóral eða viljum sleppa við að hafa nokkurn.

Mætti kannski enda þessar hugdettur með ljóðinu hans Piets Hein (þýðing HH).

Sú staðhæfing skal enn í efa dregin

að auðna vor sé lítils megnug; betur

gæfist að efla trú á mátt og megin

sem markið ofar hæstu vonum setur.

Ég hygg að það sem hér skal fært í letur

sé hagkvæmasta vizka sem ég þekki:

Makalaust er, hve margt sá ekki getur,

sem mikið langar til að reyna ekki.