VIÐSKIPTI/ATVINNULÍF á sunnudegi. Markaðsstaða Sláturfélags Suðurlands er sterk eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur Steinþór Skúlason er fæddur í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1978.

VIÐSKIPTI/ATVINNULÍF á sunnudegi. Markaðsstaða Sláturfélags Suðurlands er sterk eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur Steinþór Skúlason er fæddur í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1978. Hann lauk prófi frá Háskóla Íslands í vélaverkfræði og mastersprófi frá Stanford-háskóla í Kaliforníu árið 1983 í iðnaðarverkfræði. Steinþór starfaði tæpt ár hjá Plastprenti en var svo ráðinn framleiðslustjóri hjá Sláturfélagi Suðurlands, sem um þessar mundir á níutíu ára afmæli. Forstjóri SS hefur Steinþór verið frá árinu 1988. Hann er kvæntur Hönnu Kristínu Pétursdóttur fótaaðgerðafræðingi og eiga þau þrjár dætur.

TEINÞÓR Skúlason kveðst hafa sótt um starf framleiðslustjóra sem auglýst var í blöðum árið 1984. "Mér datt ekki í hug að ég ætti möguleika á að hreppa þetta starf svo ungur og reynslulaus sem ég var og nýkominn frá prófborði. En ég var boðaður í viðtal og ráðinn og það var að mínu mati djörf ráðning. Ég er ekki viss um að ég myndi í dag ráða mann eins og mig í slíkt starf. Forstjóri var þá Jón Bergs. Hann var þriðji forstjóri Sláturfélags Suðurlands," segir Steinþór. Þess ber að geta að á undan Jóni Bergs var faðir hans Helgi Bergs forstjóri SS. Hann tók við því starfi árið 1924 og gegndi því þar til hann lést árið 1957. Hannes Thorarensen var fyrsti forstjóri SS, hann hætti störfum árið 1924 er hann varð forstjóri Áfengisverslunar ríkisins.

"Það var dálítið erfitt að koma inn í svona gamalt félag með grónar hefðir, allir hinir voru miklu eldri en ég. En fljótlega tókst mjög gott samstarf með öllum aðilum. Á þessum árum voru að verða breytingar í smásöluversluninni fyrst og fremst. Það var veikleiki hjá félaginu að vera að keppa við sína viðskiptavini í smásölunni, það var ekki hægt að beita sér að fullu við þær kringumstæður og hið sama var upp á teningnum í sambandi við framleiðsluna, þetta skapaði ákveðinn hagsmunaárekstur," segir Steinþór. Hann gat þess að um 1988 hafi Sláturfélag Suðurlands verið komið í verulegar þrengingar. "Í kjölfar þess varð stefnubreyting hjá félaginu. Allt kostaði þetta viss átök og mannaskipti. Ákveðið var að félagið skyldi einbeita sér að framleiðslu og verslun á heildsölustigi og gengið var í að selja smásölueiningarnar," segir Steinþór. "Við vorum kannski aðeins of seinir í því, verðið sem fékkst fyrir einingarnar var ekki hátt og þær dreifðust milli ýmissa aðila. Stærsti hluti verslananna fór út á árunum 1988-89. Þetta var á verðbólgutímum þegar niðursveiflu gætti í þjóðfélaginu. Hinni nýju línu var svo fylgt. Við drógum okkur líka út úr sútunariðnaðinum og urðum að horfast í augu við það að við réðum ekki við að ljúka byggingu stórhýsis sem ráðist hafði verið í inni í Laugarnesi. Það hús var selt ríkinu og framleiðsluna fluttum við svo til Hvolsvallar. Það var eins konar vendipunktur í endurreisn félagsins.

Illspár hafa ekki ræst

Margir spáðu illa fyrir þeirri ákvörðun að fara með framleiðsluna á Hvolsvöll, burt frá okkar aðalmarkaði. En þetta hefur gengið vel. Við tókum sláturhús sem var illa nýtt á þessum tíma og aðlöguðum það okkar þörfum. Fram til þessa hafði enginn rekið svona viðamikla framleiðslu svo fjarri markaðinum, á þeim forsendum reistu menn hina slæmu spá. En reynslan hefur sýnt að þetta gengur vonum framar. Stór þáttur í þeirri velgengni er sá að félagið hafði jákvæða ímynd í huga þorra fólks og naut velvilja innan bankakerfisins og annars staðar og það gaf okkur tíma til að vinna okkur út úr þrengingunum. Loks naut félagið þess að starfsfólk sýndi því mikla hollustu, sumir lögðu á sig að flytja austur á Hvolsvöll og taka þátt í öllum þessum breytingum. Í þriðja lagi má nefna það að félagið er samvinnufélag og naut þess að flestir eigendur sættu sig við greiðsludrátt á afurðum á þessum þrengingartímum, að öðrum kosti hefðu mál ekki skipast svo vel sem raun ber vitni."

Sláturfélag Suðurlands er framleiðslusamvinnufélag bænda á Suður- og Suðvesturlandi að Hvítá í Borgarfirði. Félagsmenn eru um 1.000 virkir framleiðendur, en í heild eru félagsmenn um 3.600 og eru þá meðtaldir framleiðendur sem skipt hafa við félagið gegnum tíðina og eiga enn inneign í A-deild stofnsjóðs. Félaginu er skipt í félagsdeildir þar sem hver deild er að jafnaði einn hreppur. Á deildarfundum kjósa félagsmenn fulltrúa sína á aðalfund. Fimm menn sitja í stjórn félagsins og er formaður stjórnar Páll Lýðsson. Framleiðsla Sláturfélags Suðurlands fer eins og fyrr gat fram á Hvolsvelli. Aðalsláturhús félagsins er á Selfossi en minni sláturhús eru á Kirkjubæjarklaustri og við Laxá í Leirársveit. Skrifstofur, vörudreifing og lager eru að Fosshálsi 1. Árið 1993 leigði félagið þar húsnæði með kauprétti sem það er nú að nýta sér. Þess má geta að SS hefur umboð fyrir mörg heimsfræg vörumerki í nýlenduvörum svo sem Marz og Snicker's, Whiskas, Barilla, Oncel Ben's, MCCormick og mörg fleiri. Hjá Sláturfélagi Suðurlands starfa frá 220 upp undir 500 manns á ári, vegna verkefna félagsins eru starfsmenn misjafnlega margir, mun fleiri vinna hjá félaginu á haustin en annan tíma ársins. Á ársgrundvelli eru ársverk hjá félaginu um 300.

"Framleiðslan hjá Sláturfélaginu hefur breyst mjög mikið á undanförnum árum," segir Steinþór. "Aðstæður eins og þær voru á Skúlagötunni, meðan félagið var þar, voru þannig að þær orsökuðu ákveðna stöðnun í framleiðslu. Þegar við fórum austur með framleiðsluna opnuðust ýmsir möguleikar t.d. hvað snertir tilbúna rétti. Við höfum gert vöruþróun að forgangsverkefni hjá okkur á síðustu árum og við erum með margar sterkar vörulínur í framleiðslu. Má þar nefna álegg og pylsur undir vörumerkinu SS, við erum með vörur merktar Búrfell sem eru í ódýrari kantinum, nefna má vörumerkin New Yorker's og VSOP sem eru gæðamerki í nauta- og lambakjöti. Okkar langþekktasta vara hefur löngum verið SS vínarpylsan, sem er orðinn ríkur þáttur í matarmenningu Íslendinga. Loks erum við með tilbúnu réttina 1944, sem hafa náð mikilli markaðshlutdeild.

Framleitt fyrir fólk hins nýja tíma

Þegar framleiðsla hófst á tilbúnum réttum ákváðum við að nota ekki SS merkið. Við vildum leggja áherslu á að þessir réttir heyrðu til nýjum tímum. Markhópur þessara nýju rétta er fólk með nýjan lífsstíl. Stundum er sagt að ömmur okkar hafi eytt tveimur tímum í matreiðslu, mæður okkar eyddu einni klukkustund við eldamennsku, við eyðum hálfri stund til þess arna og börnin okkar munu afgreiða matreiðsluna á fimmtán mínútum. Fólk nútímans er flest allt þátttakendur í atvinnulífinu, stendur á eigin fótum og er duglegt við tómstundastarf, það gefur sér því ekki lengur sama tíma til matseldar í sama mæli og áður tíðkaðist. Höfða má til þessa hóps með því að segja að hann sé sjálfstæður, standi á eigin fótum og það er augljós tengingin við nafnið 1944. Fyrst þótti þetta framandi nafn, 1944, en hefur unnið sér veglegan sess og er án vafa með snjallari markaðssetningu á kjötvörum hér innanlands á síðustu árum.

Við höfum unnið eftir stefnunni sem mörkuð var árið 1988 og hún hefur skilað okkur góðum árangri. Við getum því einbeitt okkur að því að horfa fram á veginn. Innlendur landbúnaður og fyrirtæki sem starfa í tengslum við hann verða að horfast í augu við það að hér munu verða verulegar breytingar næstu ár. Samkeppni mun aukast til muna við innfluttar vörur og þess vegna er mjög brýnt að við undirbúum okkur í tíma, bæði með því að auka gæði framleiðslunnar og hins vegar með því að hagræða í rekstri. Þetta þarf að gerast í úrvinnslufyrirtækjum og eins í frumframleiðslunni á búunum. Við höfum gengið mjög langt í því sjálfir að hagræða í rekstrinum og það hafa óneitanlega komið upp erfið mál í því sambandi. Þetta er engu að síður það sem gera þarf.

Það er ekki grundvöllur fyrir því að hægt sé að reka svona starfsemi innanlands sem sé að marki óhagkvæmari en gerist í nágrannalöndunum, þegar til lengri tíma er litið. Við þurfum að undirbúa okkur vel fyrir þær umbreytingar sem allt bendir til að verði á næstu árum, bæði með opnari markaði og óvissu um hvað við taki er búvörusamningurinn rennur út.

Sláturfélag Suðurlands hefur um þessar mundir afgerandi forystu á innanlandsmarkaði hvað snertir tilbúna rétti með 1944 framleiðslunni, ef litið er á það sem í framboði er af réttum sem tilbúnir eru til neyslu á innan við 10 mínútum. Ég held að þróunin sé að stærstum hluta í átt að meira framboði á tilbúnum réttum. Auðvitað má líka sjá afturhvarf til þeirra tíma þegar fólk gaf sér tíma til "rómantískrar" matreiðslu, en slíkt gerir fólk þá frekar til hátíðabrigða.

Það sem við okkur blasir næstu ár hér hjá Sláturfélagi Suðurlands er að halda áfram að gera það sem við erum að gera ­ og gera það enn betur. Við þurfum líka að fylgja þeim breytingum sem verða á markaðinum og eiga þátt í þeim breytingum en ekki vera einungis áhorfendur. Ég held að neytendur muni á næstu árum gera meiri kröfur til gæðamála og öryggis hvað snertir matvæli. Þetta mun að líkindum eitthvað hjálpa innlendri framleiðslu í samkeppni hennar við innfluttar vörur. Hollustusjónarmiðin munu sitja í öndvegi.

Við hér hjá SS höfum einnig hugsað okkur að flytja meira út en gert hefur verið og erum þegar farnir að flytja út sérpakkað lambakjöt á markaði í Evrópu. Þar held ég að séu miklir möguleikar ef tekst að fara rétta leið inn á markaðinn. Við sjáum að í nágrannalöndunum er verð til neytenda á vöru eins og lambakjöti mjög svipað og á Íslandi. Ef hægt er að komast með vöru rétta leið, framhjá alls konar milliliðum þá tel ég að hægt sé að fá fyrir hana viðunandi verð. Næsta skref er að selja fullunna vöru, eins og pylsur og tilbúna rétti. Það er mikill áhugi erlendis á að kaupa slíka vöru héðan. Á níutíu ára afmæli Sláturfélags Suðurlands er staða félagsins þannig að það stendur vel hvað rekstur snertir, markaðsstaða þess er mjög sterk og efnahagurinn fer batnandi."

Morgunblaðið/Þorkell

STEINÞÓR Skúlason. Myndin er tekin í afgreiðslusal þar sem ekki er krafa um að bera hárnet.