21. mars 1997 | Aðsent efni | 733 orð

Ormstunga ­ söguleg sýning Þetta er framtíðin, segir Berglind Stefánsdóttir. Sameiginleg leikhúsmenning heyrnarlausra og

BENEDIKT Erlingsson leikari og Sigrún Edda Theódórsdóttir táknmálstúlkanemi standa á sviðinu. Benedikt hreyfir varirnir og Sigrún Edda miðlar okkur list þessa unga leikara á táknmáli. Benedikt: "Segjum að hann sé að gera eitthvað þjóðveldistýpískt eins og að slá, já segjum það, nei segjum að hann sé að járna, það er svona karlmannlegra,
Ormstunga ­ söguleg sýning

Þetta er framtíðin, segir Berglind Stefánsdóttir . Sameiginleg leikhúsmenning heyrnarlausra og heyrandi.

BENEDIKT Erlingsson leikari og Sigrún Edda Theódórsdóttir táknmálstúlkanemi standa á sviðinu. Benedikt hreyfir varirnir og Sigrún Edda miðlar okkur list þessa unga leikara á táknmáli. Benedikt: "Segjum að hann sé að gera eitthvað þjóðveldistýpískt eins og að slá, já segjum það, nei segjum að hann sé að járna, það er svona karlmannlegra," þrífur upp fót túlksins og lætur sem hann sé að járna hann. Það er stórkostlegur áfangi í menningarsögu heyrnarlausra að sjá leikrit í fullri lengd flutt samtímis á táknmáli og íslensku og þetta var að gerast fyrir framan mig og fleiri félagsmenn í Félagi heyrnarlausra á sunnudagskvöldi í Skemmtihúsinu.

Ég hef oft séð því haldið fram að leikhús séu alþjóðleg og að allir hafi aðgang að þeim en ég hef aldrei getað tekið undir þessa skoðun. Ég hef oft farið í leikhús og hef mikinn áhuga á því en ég nýt auðvitað ekki sýninganna á þann hátt sem mig langar til því ég næ ekki tengslum við það sem er að gerast á sviðinu þegar miðillinn er töluð íslenska. Vegna þessa hef ég fjarlægst leikhúsið, án þess að vilja það, en þrátt fyrir það fylgist ég grannt með allri umræðu og gagnrýni um leikhús. Þegar ég fer utan nota ég öll tækifæri sem gefast til að fara í leikhús heyrnarlausra. Það er auðvitað það leikhús sem höfðar mest til mín en mér finnst líka mjög skemmtilegt að sjá túlkaða sýningu heyrandi fólks.

Á Norðurlöndunum hefur verið mikil og lífleg þróun í tengslum við leikhús og sjónrænar upplifanir. Í Svíþjóð hefur ríkisleikhús fyrir heyrnarlausa verið starfandi í tæp 20 ár og það hefur haldið farandsýningar um allt land. Í því eru einungis heyrnarlausir leikarar. Stundum hafa sýningar verið textaðar eða raddtúlkaðar fyrir heyrandi áhorfendur. Mikil gróska er nú í íslensku leikhúslífi en síðast þegar ég fór til Svíþjóðar fann ég svo áþreifanlega fyrir því að þrátt fyrir þessa grósku erum við ekki farin að vinna að uppbyggingu á leiklist sem heyrnarlausir geta notið. Nokkrir stakir atburðir hafa verið túlkaðir á táknmál en hér er ekki starfandi leikhópur heyrnarlausra eða hefur verið unnið markvisst að því að gera leikhús aðgengilegt fyrir heyrnarlausa á annan hátt.

Heyrnarlausir hafa þó rætt það mikið sín á milli hvaða aðferðir eru bestar við túlkun leikrita. Þær aðferðir sem eru algengastar eru að hafa túlk til hliðar við sviðsmynd, texta verkið eða hafa skuggatúlkun. Í Bandaríkjunum eru leiksýningar með skuggatúlkum, þar sem túlkurinn fylgir leikaranum um allt sviðið. Skuggatúlkun þýðir að túlkurinn stendur ekki utan sviðsmyndar heldur fylgir leikara eftir og er hver leikari með sinn túlk. Þetta hefur í för með sér að leikari og túlkur þurfa að æfa saman og túlkurinn er stundum tekinn inn í leikritið. Leikhús með skugggtúlkum hefur einnig verið í þróun í Noregi.

Þegar ég frétti af því að gera ætti tilraun með skuggatúlkun hér á landi, var ég ekki viss um við hverju ég ætti að búast, því það er ekki einfalt mál að vinna slíka sýningu.

Það er verulega stór áfangi í menningu heyrnarlausra á Íslandi að leikritið Ormstunga ­ ástarsaga, í Skemmtihúsinu, hafi verið túlkað á táknmál. Það var fyrir tilstilli samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra að nemar í táknmálstúlkun við Háskóla Íslands voru fengnir til þess að sjá um túlkunina í þessari frumraun í íslensku leikhúslífi.

Þegar ég fór á sýninguna var ég spennt að sjá útkomuna, samt bjóst ég ekki við miklu.

Ég held að það sé best að segja að ég varð agndofa þegar ég sá hve vel þetta gekk upp. Túlkanemarnir fimm, sem skiptust á að túlka á sviðinu, og leikararnir Benedikt Erlingsson og Halldóra Geirharðsdóttir voru ein samofin heild og samspil þeirra bauð greinilega upp á nýja brandara sem sérstaklega höfða til heyrnarlauss fólks og ekki síður til heyrandi af undirtektum að dæmi. Leikritið er opið og höfundar þess eru frjóir og með hjálp túlkanemanna hafa greinilega gert sér grein fyrir hvernig höfða á til menningar og húmors heyrnarlausra og margar skemmtilegar viðbætur urðu greinilega til á sviðinu. Þetta er nýtt og frjótt leikhús þar sem bæði heyrnarlausir og heyrandi geta notið leiklistar. Svona á að miðla menningararfinum inn í nútímann. Þetta er framtíðin sem mig langar að sjá í íslensku leikhúslífi, sameiginleg leikhúsmenning heyrnarlausra og heyrandi.

Ég vil flytja Skemmtihúsinu, Samskiptamiðstöðinni og táknmálsfræðinemum mínar bestu þakkir og hamingjuóskir með þessa sögulegu sýningu.

Höfundur er formaður Félags heyrnarlausra.

Berglind StefánsdóttirAðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.