Stjórnmál og peningar Bókmenntir Guðmundur Heiðar Frímannsson Friedrich A. von Hayek er óneitanlega marktækur og merkilegur hugsuður. Hann hefur ritað ýmislegt um frjálst samfélag manna og hvernig því verður best fyrir komið.

Stjórnmál og peningar Bókmenntir Guðmundur Heiðar Frímannsson Friedrich A. von Hayek er óneitanlega marktækur og merkilegur hugsuður. Hann hefur ritað ýmislegt um frjálst samfélag manna og hvernig því verður best fyrir komið. Það má kannski orða það svo, að allt hans æviverk sé rökstuðningur fyrir þvíað mannlegu félagi sé best farið með því að virða frelsisregluna. Nú er hann ekki einn um þessa skoðun og væri ekki sérlega merkilegur, ef hann hefði sagt lítið annað. En hann hefur beitt ýmsum óvenjulegum röksemdum fyrir þessari skoðun sinni og hefur skilið frelsið eindregnari skilningi en margir aðrir. Hann varð til dæmis frá upphafi andmælandi kenninga Keynes, lávarðar, sem hefur verið áhrifamesti og einhver snjallasti kenningasmiður í hópi hagfræðinga á þessari öld. Heyek virðist óttast það aukna hlutverk, sem stjórnvöld fengu við stjórn hagkerfis samkvæmt hugmyndum Keynes. Hayek skilur frelsisregluna svo, að hún heimili nauðungarlaus samskipti einstaklinga og lágmarkshlutverk ríkisins.

Í þessu riti frá Stofnun Jóns Þorlákssonar eru tvær ritgerðir eftir Hayek, sem báðar eru röksemdir fyrir lágmarkshlutverki stjórnvalda og um leið vísbendingar um, hvernig má halda aftur af þeim. Fyrri ritgerðin nefnist "Skipulag peningamála". Í henni rekur Hayek þá skoðun sína, að verðbólga stafi fyrst og fremst af því, að stjórnvöld í ríkjum nútímans hafi of víðtæk völd í peningamálum. Þau hneigist til að framleiða peninga til að ná markmiðum í stjórnmálum. Auk þess sé það einfaldlega röng skoðun, að mögulegt sé að stjórna eftirspurn í hagkerfi til að fullnýta framleiðsluöflin og sníða þar með af ýmsa agnúa á frjálsu markaðskerfi eins og sóun og atvinnuleysi.

Hayek telur að ekki sé lengur mögulegt að snúa aftur til gullfótar og þess vegna verði að finna aðra leið til að koma á aga í peningamálum. Sú leið, sem hann stingur uppá, er að koma á samkeppni með gjaldmiðil. Þannig gætu margar peningastofnanir gefið út eigin gjaldmiðil gegn tiltekinni tryggingu, sem um yrðu að gilda fastar reglur. Með þessu móti sæi samkeppnin um að tryggasti gjaldmiðillinn yrði ofan á og ætti að tryggja að engin yrði verðbólgan. Nú er þetta hin róttækasta og athyglisverðasta hugmynd. Í fjöldamörgum löndum er bannað að gera samninga í annarri mynt en gjaldmiðli ríkisins og öðrum bannað að gefa út peninga en seðlabanka. Breytingin, sem hér er lögð til, er því mikil og hún varðar ekki bara hagfræði heldur stjórnmál í víðasta skilningi þess orðs.

Seinni ritgerðin nefnist "Miðjumoðið". Hún er andmæli gegn sam hyggju eða sósíalisma, þó sérstaklega gegn því afbrigði af samhyggju, sem einkennt hefur frjálslynda og íhaldssama stjórnmálaflokka á eftirstríðsárunum og Hayek kallar miðju-moð. Það er eiginlega sú skoðun, að markaðsskipulagið þurfi sífellt á því að halda að stjórnvöld skjóti undir það nýjum stoðum eða breyti því eftir kröfum hvers tíma. Til marks um þessa skoðun tekur Hayek þá kenningu Johns Stuarts Mills aðgreina megi í sundur framleiðslu og dreifingu framleiðslu. Framleiðslan sé tæknilegt úrlausnarefni en dreifingin lúti að réttlæti. Það má raunar taka eftir því að Mill segir ekki að framleiðslan sé tæknilegt úrlausnarefni eins og ívitnun í hann er þýdd hér heldur einungis að lögmálin um framleiðslu lífsgæðanna séu fræðilegs eðlis. Hayek segir síðan að þessi greinarmunur geti ekki staðist, þvíað framleiðsla miðist ævinlega við markaðsverð og verði einungis hagkvæm eða óhagkvæm að slíku verði gefnu. Framleiðsla og dreifing vara séu því órofa heild. Það að réttlætis sjónarmið eigi að ráða dreifingu lífsgæðanna telur Hayek til marks um óhóflega trú á mannlega skynsemi, takmarkalausa drambsemi samhyggjunnar. Ekkert félagslegt réttlæti sé til. Sú blinda, sem slær menn, þegar þeir vilja skapa nýjan heim, vekur upp þessa tálsýn.

Nú er hér vakið máls á mörgu mikilvægu og fróðlegu ágreiningsefninu og fleirum í prýðilegum inngangi Ólafs Björnssonar. Hayek setur skoðanir sínar þannig fram að allir ættu að geta skilið og hugsað um efnið.

Eitt efni, sem sjálfsagt er að Íslendingar hugsi um af alvöru, er skipulag peningamála. Hvað ætli það hefði í för með sér, að heimila notkun annarra gjaldmiðla á Íslandi en krónunnar? Að gera það væri afbrigði af hugmynd Hayeks um frjálsa samkeppni gjaldmiðla. Hvað með ef öllum væri heimilað að gera samninga í hvaða mynt sem er: útgerða menn og eigendur frystihúsa gerðu kjarasamninga við sitt fólk í bandarískum dölum eða annarri mynt, sem þeir kæmu sér saman um? Sömuleiðis flugfélögin við sitt starfsfólk. Starfsfólk fengi þá náttúrulega greitt í þeirri mynt, sem kjarasamningurinn hljóðaði upp á, og gæti síðan notað hana til að spara, versla eða hvers þess annars, sem það kysi. Nú er ljóst, að svona breyting hefði umtalsverðar afleiðingar. Ein yrði sú að líkindum, að íslenska krónan hyrfi úr viðskiptum vegna þess, hversu ótraust hún væri. Hagvald íslenskra stjórnmálamanna yrði mjög takmarkað. Það er einnig ljóst að breytingar á atvinnulífi fylgdu, en það er erfitt að sjá þær fyrir.

Rök gegn þessari hugmynd virðist mér vera þau að íslenskt efnahagslíf sé svo smátt og sérstætt, að það krefjist þess sveigjanleika, sem eigin mynt skapar. Fiskveiðar, sem eru uppistaðan í efnahagslífi Íslendinga, eru sveiflukenndar og þegar afli bregst, þarf að vera hægt að grípa til aðgerða til að halda uppi atvinnu. Þetta svar gengur að því vísu, að stjórnvöld eigi að vera einhvers konar skýli gegn efnahagslegum áföllum. Ég er ekki sannfærður um að það sé réttlætanlegt. Á hitt verður einnig að líta, að vægi fiskveiða í íslenskum þjóðarbúskap fer minnkandi.

En nóg um þetta. Hugmyndir Hayeks ættu að vekja alla lesendur til umhugsunar.

F.A. von Hayek