ÚRHELLISRIGNING var í gærkvöld þegar yfirráðum Breta í Hong Kong í 156 ár lauk með því, að þeir skiluðu krúnunýlendunni aftur í hendur Kínverja. Tók Jiang Zemin, forseti Kína, við lyklavöldunum við hátíðlega athöfn þar sem skoskir sekkjapípuleikarar og kínverskir drekadansarar lögðu sitt af mörkum.
Mikið um dýrðir þegar Bretar afhentu Kínverjum Hong Kong "Ef við glötum frelsinu, glatar perlan ljóma sínum"

Hong Kong. Reuter.

ÚRHELLISRIGNING var í gærkvöld þegar yfirráðum Breta í Hong Kong í 156 ár lauk með því, að þeir skiluðu krúnunýlendunni aftur í hendur Kínverja. Tók Jiang Zemin, forseti Kína, við lyklavöldunum við hátíðlega athöfn þar sem skoskir sekkjapípuleikarar og kínverskir drekadansarar lögðu sitt af mörkum. Karl Bretaprins, Chris Patten, fráfarandi landstjóri, Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og fjöldinn allur af fyrirmönnum víðs vegar að úr heimi sátu lokaveisluna en henni lauk með stórkostlegri flugeldasýningu yfir höfninni.

Jiang Zemin er fyrsti kínverski þjóðarleiðtoginn, sem kemur til Hong Kong en með í för voru þau Li Peng forsætisráðherra og Zhuo Lin, ekkja Deng Xiaopings, en hann lést fyrir fjórum mánuðum og lifði því ekki að sjá þennan draum sinn rætast, sameiningu Hong Kong og Kína.

Tung Chee-hwa, sextugur skipakóngur, verður hinn nýi leiðtogi eða héraðsstjóri Kínverja í Hong Kong og tók hann ásamt miklum barnaskara með kínverska fána á móti kínversku leiðtogunum við komuna.

Gamall draumur hefur ræst

Karl prins og ríkisarfi afhenti krúnunýlenduna þegar klukkan sló 12 á miðnætti (16.00 að ísl. tíma) og þar með hafði "meira en 100 ára gamall draumur ræst" eins og sagði í Dagblaði alþýðunnar , málgagni kínversku stjórnarinnar. Kínverjar líta líka svo á, að með afhendingunni hafi verið bætt fyrir þá skömm og niðurlægingu, sem þeir urðu að sætta sig við af hálfu gömlu nýlenduveldanna.

Til að sýna í verki hverjir færu nú með völdin í Hong Kong, sendu Kínverjar þangað bílalest með rúmlega 500 léttvopnuðum hermönnum en fyrirmælin, sem þeir fengu frá yfirmanni sínum, voru þau, að þeir skyldu bera hag Hong Kong-búa fyrir brjósti og gera allt til að ávinna sér virðingu þeirra. Nú í dögun áttu síðan um 4.000 hermenn að koma til Hong Kong með þyrlum, herskipum og á brynvörðum bílum. Hefur það vakið nokkurn ugg meðal lýðræðissinna, sem eru í fersku minni fjöldamorðin á Tiananmen-torgi í Peking 1989.

Hálfri klukkustund áður en Jiang Zemin kom til borgarinnar yfirgaf Chris Patten, landstjóri Breta, stjórnarráðshúsið. Við saknaðarfulla tónana í "Auld Lang Syne" var breski fáninn dreginn niður, brotinn saman og afhentur Patten, sem tók við honum klökkur og voteygur.

Verða að standa við loforðin

Patten, 28. og síðasti landstjóri Breta í Hong Kong, hefur beitt sér fyrir ýmsum lýðræðisumbótum á síðustu árum kínversku stjórninni til mikillar gremju. Hefur hún kallað hann ýmsum ónefnum, til dæmis "skækjuna" og "þorparann", en í gær var reynt að setja þessar deilur niður.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær, að Bretar vildu hafa góð samskipti við Kína en Pekingstjórnin yrði á hinn bóginn að standa við gefin loforð um frelsi íbúanna í Hong Kong. Blair og Robin Cook, utanríkisráðherra Bretlands, verða ekki viðstaddir setningu nýja þingsins en kínverska stjórnin tilnefnir sjálf þingmennina.

Blair sagði, að afhending Hong Kong væri "erfiður" en "merkilegur atburður". "Það, sem mestu máli skiptir nú, er að horfa fram á veginn og tryggja, að Hong Kong verði brú á milli Kína og Bretlands," sagði Blair en óbreyttir borgarar í krúnunýlendunni fyrrverandi fögnuðu honum mjög innilega hvar sem hann fór.

Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær, að hún væri í senn döpur og stolt yfir afhendingu krúnunýlendunnar. Sagði hún, að velgengni íbúanna væri tvennu að þakka, kínverskri iðjusemi og breskum stjórnarháttum.

"Eitt land, tvö kerfi"

Við höfnina var 10.000 manna veisla og þar flutti Karl prins kveðju frá móður sinni, Elísabetu drottningu, þar sem hún lagði áherslu á, að framtíð Hong Kong væri komin undir því, að staðið yrði við samning Breta og Kínverja frá 1984. Samkvæmt honum á Hong Kong að njóta frelsis í hálfa öld undir yfirskriftinni "eitt land, tvö kerfi".

Martin Lee, einn kunnasti baráttumaður fyrir frelsi og lýðræði í Hong Kong, sagði við fréttamenn í gær, að frelsið hefði gert Hong Kong að perlu Austurlanda. "Fegurð perlunnar er frelsið, ef við glötum því, mun hún líka glata ljóma sínum."

Reuter

BRESKI fáninn og fáni nýlendunnar Hong Kong teknir niður rétt fyrir miðnætti í gær.

CHRIS Patten, fráfarandi landstjóri í Hong Kong, tekur við breska fánanum við landstjórabústaðinn í síðasta sinn.

SVEITIR kínverskra hermanna hlýða á ræður í borginni Shenzhen í Suður-Kína þar sem haldin var kveðjuathöfn áður en þeir héldu yfir landamærin til Hong Kong.