LOÐNUVERTÍÐIN hófst um miðnætti og voru 34 íslensk skip við loðnuleit í gærdag. Flest skipin leita nú á stóru svæði norðvestur úr Kolbeinsey en lítið hafði fundist þegar síðast fréttist. Fiskistofa gaf í gær út veiðileyfi fyrir 30 norsk skip innan íslensku lögsögunnar. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni höfðu 25 norsk skip "bókað" sig til veiðanna um miðjan dag í gær.

Fiskistofa gaf út

leyfi fyrir 30

norsk loðnuskip

Loðnuveiði mátti hefjast á miðnætti

LOÐNUVERTÍÐIN hófst um miðnætti og voru 34 íslensk skip við loðnuleit í gærdag. Flest skipin leita nú á stóru svæði norðvestur úr Kolbeinsey en lítið hafði fundist þegar síðast fréttist. Fiskistofa gaf í gær út veiðileyfi fyrir 30 norsk skip innan íslensku lögsögunnar. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni höfðu 25 norsk skip "bókað" sig til veiðanna um miðjan dag í gær. Skipin biðu þá öll við athugunarstað A en héldu inn í lögsöguna um leið og tilkynning um leyfisveitingu Fiskistofu hafði borist frá norskum stjórnvöldum.

Íslenski loðnuskipaflotinn er nú nánast allur kominn á miðin en veiðar máttu hefjast um miðnætti í gær. Oddgeir Jóhannesson, skipstjóri á Hákoni ÞH, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að lítið hefði fundist af loðnu á miðunum. Þó hefði Bjarni Ólafsson AK fundið torfu langt norður úr Horni en hún hafi verið lítlfjörleg. Hann sagði einhver skip hafa leitað langt norður og norðaustur af landinu en lítið séð.

"Veiðin byrjaði í fyrra mun austar, langt norður úr Langanesi. Það hafa nokkur skip leitað þar núna en ekkert fundið. Við mættum færeysku skipi sem var að koma norðaustan að, en hafði ekkert séð enda sjávarkuldi mikill á þessum slóðum. Við höfum verið að þvælast hér í ís og því erfitt við þetta að eiga," sagði Oddgeir.

Biðu eftir grænu ljósi

Fiskistofa gaf út leyfi í gærmorgun fyrir loðnuveiðum 30 norskra skipa innan íslenskrar landhelgi í einu. Fleiri skip mega þó vera innan lögsögunnar svo framarlega sem þau séu ekki að veiðum. Skipin þurfa að sigla í gegnum sérstaka athugunarstaði á leið sinni í lögsöguna og biðu um 25 norsk skip við einn þeirra um miðjan dag í gær og biðu þess að tilkynning bærist frá norskum stjórnvöldum þess efnis að íslensk stjórnvöld hefðu gefið grænt ljós á veiðarnar. Gert er ráð fyrir að á bilinu 80-90 norsk skip muni sækja á Íslandsmið á loðnuvertíðinni. Á síðustu loðnuvertíð máttu einnig vera 30 norsk skip að veiðum innan landhelginnar í einu en veiðarnar voru þá ekki bundnar sérstöku leyfi Fiskistofu líkt og nú.

Fengu síld

Sigurður VE var í gær á síldveiðum innan lögsögu Jan Mayen en Sunnuberg GK fékk þar síld um helgina. Skipin fóru nokkuð á undan öðrum á miðin til að kanna möguleika á síldveiðum á svæðinu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var engin veiði hjá skipunum í gær.

Gott útlit á mörkuðum

Mjög góðar markaðshorfur eru nú á sölu loðnuafurða og ástand á mörkuðum með því betra sem sést hefur um áraraðir, að sögn Sólveigar Samúelsdóttur, markaðsstjóra SR mjöls. Hún segir verð á mjöli svipað og á síðasta ári, um 405 pund tonnið eða um 47.400 íslenskar krónur. Á móti komi að pundið hafi hækkað mikið frá því í fyrra. Verð á lýsi sé hins vegar um 100 dollurum hærra en á síðasta ári og sé nú um 550 dollarar tonnið eða um 38.500 krónur. Sólveig segir birgðir í landinu litlar og markaði mjög sterka. Lítil veiði hefur verið í Suður-Ameríku og segir Sólveig það hjálpa mikið til á mörkuðum, bæði hvað varðar mjöl og lýsi.