SÚRUFRJÓ og grasfrjó í lofti, sem eru hvað líklegust til að valda ofnæmi hjá fólki, hafa verið að aukast á Reykjavíkursvæðinu undanfarna daga og má búast við að þau aukist jafnt og þétt fram undir lok júlí.

Frjókorn

í lofti að aukast

SÚRUFRJÓ og grasfrjó í lofti, sem eru hvað líklegust til að valda ofnæmi hjá fólki, hafa verið að aukast á Reykjavíkursvæðinu undanfarna daga og má búast við að þau aukist jafnt og þétt fram undir lok júlí.

Að sögn Margrétar Hallsdóttur, hjá Náttúrufræðistofnun sem sér um frjókornamælingar í Reykjavík, eru frjókornin nú um hálfum mánuði seinna á ferðinni en í fyrra sem helst í hendur við kalt veðurfar í vor. "Ég fann fyrst grasfrjó í loftinu 9. júní og hefur magnið verið að aukast síðan. Það má búast við að hámarkinu verði náð undir lok júlí. Súrufrjóin hins vegar, sem koma frá túnsúrum og hundasúrum, ná líklega hámarki nokkru fyrr eða um miðjan júlí".

Þá er töluverð aukning á birkifrjóum í lofti í ár, en fáir Íslendingar eru með ofnæmi fyrir þeim. "Við höfum greint sveiflu í birkifrjóum á þriggja ára fresti á þeim tíma frá því að mælingar hófust fyrir 10 árum. Síðustu tvö ár var frekar lítið um birkifrjó en núna er mun meira eins og við bjuggumst við. Við vitum ekki hvað veldur þessum sveiflum, hvort það eru áhrif veðurs eða annarra umhverfisþátta, en vonandi getum við hafið rannsóknir á því innan skamms," sagði Margrét.