ÞÝZKA markið lækkaði gegn dollar og sterlingspundi í gær vegna óvissu um sameiginlegan gjaldmiðil Evrópu og lækkanir urðu einnig í evrópskum kauphöllum. Töluverð lækkun varð á gengi hlutabréfa í London, því að hagtölur vöktu nýjan ugg um hærri vexti. Í Frankfurt varð tap síðdegis eftir góða byrjun um morguninn.
»Markið lækkar vegna óvissu um myntbandalag

ÞÝZKA markið lækkaði gegn dollar og sterlingspundi í gær vegna óvissu um sameiginlegan gjaldmiðil Evrópu og lækkanir urðu einnig í evrópskum kauphöllum. Töluverð lækkun varð á gengi hlutabréfa í London, því að hagtölur vöktu nýjan ugg um hærri vexti. Í Frankfurt varð tap síðdegis eftir góða byrjun um morguninn. Á gjaldeyrismörkuðum leiddi óstyrkur vegna efnahags- og myntbandalags Evrópu (EMU) til þess að dollar hækkaði um tæpan pfenning í 1,7465 mörk, hæsta gengi í 40 mánuði, en síðan lækkaði hann lítillega. Pundið hafði ekki verið hærra gegn þýzka markinu í fimm ár. Fjárfestar vilja hafa vaðið fyrir neðan sig vegna aukinna deilna í flokki Kohls kanzlara, sem hafa færzt á svo alvarlegt stig að forsætisráðherra Bæjaralands, Edmund Stoiber, hefur hótað að koma í veg fyrir fullgildingu aðildar Þjóðverja að EMU í efri deild þýzka þingsins, ef skilyrðum fyrir þátttöku verður ekki fullnægt út í æsar. Seinna um daginn lækkaði dollar í 1,7420 um leið og staðan versnaði í Wall Street vegna nýrra upplýsinga um innkaup og fasteignasölu í júní og maí. Þar sem þýzka markið stendur höllum færi vegna EMU batnaði staða sterlingspundsins, sem komst í 2,9042 mörk þegar hagstæðari tölur um neyzlulán en búizt hafði verið við juku líkur á vaxtahækkun. Fáir búast við vaxtahækkun á fundi bandaríska seðlabankans í vikunni, en sem fyrr fylgist bankinn grannt með öllum hugsanlegum vísbendingum um verðbólgu.