Sönglög. Píanósónata í D­moll op. 3. Rómönsur fyrir fiðlu og píanó nr. 1 & 2. James Linsney, píanó, Gunnar Guðbjörnsson tenór, Elizabeth Layton, fiðla. Hljóðritað í júní 1996 í St. Martin's Church, East Woodhay, Hampshire, Englandi. Framleiðandi/hljóðmeistari: Gary Cole. Útgefandi: Music Islandica. Isberg Limited. Olympia OCD 463.

Tónlist Árna

Björnssonar

TÓNLIST

Hljómplötur

"THE MUSIC OF ÁRNI BJÖRNSSON"

Sönglög. Píanósónata í D­moll op. 3. Rómönsur fyrir fiðlu og píanó nr. 1 & 2. James Linsney, píanó, Gunnar Guðbjörnsson tenór, Elizabeth Layton, fiðla. Hljóðritað í júní 1996 í St. Martin's Church, East Woodhay, Hampshire, Englandi. Framleiðandi/hljóðmeistari: Gary Cole. Útgefandi: Music Islandica. Isberg Limited. Olympia OCD 463.

ÁRNI Björnsson (f. 1905) verður án efa talinn í flokki helstu tónskálda íslenskra, enda þótt honum yrði ekki gert kleift að þróa feril sinn og þroska; var á miðjum aldri fyrir tilgangslausri árás ólánsmanna, sem olli varanlegum heilaskaða. Hann hafði þó ekki gleymt að leika á píanóið og var fær um að semja góða tónlist, enda þótt tempi yrði hægari og útsetningar einfaldari. Og þrátt fyrir skerta andlega orku vann hann til fyrstu verðlauna í norrænni samkeppni á vegum danska útvarpsins með Tilbriðum um tema í þjóðlagastíl fyrir blásarasveit, sem hann skrifaði 1970. Árni var að miklu leyti sjálfmenntaður í tónlistinni, en stundaði þó á fullorðinsárum tónlistarnám í tvö ár við Royal College of Music í Manchester. Er hann flutti úr sveitinni til Reykjavíkur nam hann flautuleik og varð einn af meðlimum Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá stofnun hennar, sem á þeim tíma var að mestu leyti ólaunað starf. Hann vann fyrir sér og fjölskyldu með kennslu og einnig lék hann á píanó í danshljómsveit.

Þessi kærkomna hljómplata ber Árna fagurt vitni sem tónskáldi. Mörg sönglaganna eru vel þekkt, sum minna ­ því miður. Þau bestu eru hreinar perlur og get ég vel tekið undir með píanóleikaranum, James Lisney, sem minnist sérstaklega á Einbúann við ljóð Jónasar Hallgrímssonar, Rökkurljóð (Ólafur J. Sigurðsson), Við dagsetur (Jón Þórðarson) og Horfinn dag (Sigurður B. Gröndal) í ágætu spjalli í bæklingi. Gunnar Guðbjörnsson syngur þessi lög frábærlega vel. Rómönsurnar tvær eru sennilega betur þekktar í hljómsveitarbúningi, en hér eru þær prýðilega leiknar af þeim Elizabeth Layton (fiðla) og James Lisney. Loks leikur James Lisney píanósónötur í D­moll, metnaðarfullt verk og áheyrilegt, þó ekki geti það talist frumlegt fremur en flest íslensk verk samin á þessum tíma. Þetta er með fyrstu verkum Árna (op. 3), rómantískt, fallegt og geðríkt a la Brahms með skírskotun í Grieg og Chopin (prelodíur). Mjög vel leikið.

Hljóðritun er ágæt, og hér er því um kærkomna hljómplötu að ræða ­ sem bætir verulega úr vanrækslusynd og tómlæti gagnvart mörgum tónsmíðum þessa ágæta tónskálds.

Oddur Björnsson

ÞESSI kærkomna hljómplata, segir í dómnum, ber Árna fagurt vitni sem tónskáldi.