ALLT útlit er fyrir að hrein innlend lánsfjárþörf ríkisins verði um 5,2 milljarðar kr. á öðrum ársþriðjungi þessa árs sem er veruleg lækkun miðað við fyrstu fjóra mánuði ársins eða sem nemur 3,1 milljarði kr. Á tímabilinu maí-ágúst í fyrra var hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs tæpir sjö milljarðar kr. Þá hafa skammtímaskuldir ríkissjóðs lækkað erlendis um 2,8 milljarða króna frá áramótum.
Lánsfjárþörf ríkissjóðs fer minnkandi vegna bættrar stöðu

Erlendar skammtímaskuldir lækka um 2,8 milljarða

ALLT útlit er fyrir að hrein innlend lánsfjárþörf ríkisins verði um 5,2 milljarðar kr. á öðrum ársþriðjungi þessa árs sem er veruleg lækkun miðað við fyrstu fjóra mánuði ársins eða sem nemur 3,1 milljarði kr. Á tímabilinu maí-ágúst í fyrra var hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs tæpir sjö milljarðar kr. Þá hafa skammtímaskuldir ríkissjóðs lækkað erlendis um 2,8 milljarða króna frá áramótum.

Meginskýringin á þessari minnkandi lánsfjárþörf ríkissjóðs er sú að í stað hallareksturs gera fjárlög ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með afgangi á yfirstandandi ári. Á tímabilinu maí-ágúst er gert ráð fyrir að verg innlend lánsfjárþörf verði um 6,9 milljarðar og henni verði mætt með sölu ríkisverðbréfa til lengri tíma, að fjárhæð 2,8 milljarðar. Mismunurinn, 4 milljarðar, er aðallega til kominn vegna hárra endurgreiðslna vaxta og barnabóta.

Ríkissjóður umsvifaminni á markaði

Ríkissjóður hefur orðið umsvifaminni á innlendum lánamarkaði að undanförnu og hefur bætt staða ríkissjóðs m.a. gefið tilefni til að lækka erlendar skuldir. Gert er ráð fyrir að erlendar lántökur á öðrum ársþriðjungi verði 2,2 milljarðar en til samanburðar voru erlendar lántökur ríkissjóðs á sama tímabili í fyrra 12,2 milljarðar.

Að sögn Magnúsar Péturssonar, ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, hefur ríkissjóður á þessu ári m.a. greitt upp japanskt lán að fjárhæð rúmir tveir milljarðar kr. Unnið hefur verið að því að greiða niður skammtímalán ríkissjóðs erlendis. Frá áramótum hafa skammtímaskuldir ríkissjóðs erlendis lækkað um 40 milljónir dollara eða sem svarar um 2,8 milljörðum kr.