eftir Harald Gustafsson. Studentlitteratur, 1997, 297 bls. NORÐURLöND hafa átt margt saman að sælda í gegnum aldirnar. Þótt það sé ekki augljóst í daglegri önn að ótalmargir þættir í sögu og samtíð binda Norðurlönd traustum böndum, þá sést það þegar saga þeirra er skoðuð í lengri tíma.
Eru Norðurlönd ein heild? BÓKMENNTIR Fræðirit NORDENS HISTORIA. EN EUROPEISK REGION UNDER 1200 FR

eftir Harald Gustafsson. Studentlitteratur, 1997, 297 bls. NORÐURLöND hafa átt margt saman að sælda í gegnum aldirnar. Þótt það sé ekki augljóst í daglegri önn að ótalmargir þættir í sögu og samtíð binda Norðurlönd traustum böndum, þá sést það þegar saga þeirra er skoðuð í lengri tíma. Harald Gustafsson, sem er sænskur sagnfræðingur, skoðar sögu Norðurlanda í 1200 ár í þessari nýju bók og dregur fram hve margt er sameiginlegt í þeirri sögulegu atburðarás sem átt hefur sér stað á þessu svæði. Það er ekki nóg með að hann skoði sameiginlega þætti í þessari sögu heldur lítur hann til þess að það er margt sem skilur að. Það er einnig mikilvægt í þessari bók að svæðið er hluti af Evrópu og verður fyrir stöðugum áhrifum frá atburðum annars staðar í álfunni. Þetta sjónarhorn er vandmeðfarið og óvenjulegt, en höfundinum hefur tekizt að skila af sér mjög góðu verki. Höfundurinn er afburða vel að sér í sögu Norðurlanda og velur mjög vel úr þeim sæg staðreynda sem er honum tiltækur. Það skiptir máli fyrir Íslendinga að Harald Gustafsson er sérfræðingur í Íslandssögu og tekst ótrúlega vel að tengja Íslandssögu við sögu Norðurlanda. Harald Gustafsson hefur haft áhrif á sjónarhorn okkar á Íslandssögu með doktorsritgerð sinni Mellan kung og allmoge eða Milli kóngs og almúga þar sem hann fjallar um embættismenn á Íslandi. Hann hefur átt sinn þátt í því að fá okkur til að sjá þá merkilegu staðreynd að Íslendingar réðu sér sjálfir í mun ríkara mæli en ætla mætti. Og þeir stóðu sjálfir gegn réttindabaráttu og framförum en ekki Danir. Yngri menn og konur í hópi íslenskra sagnfræðinga hafa síðan unnið úr þessari sýn á Íslandssöguna. Bókin skiptist í 10 kafla sem fjalla í tímaröð um sögu Norðurlanda frá því um 800 til nútíðar. Fyrsti kaflinn er eins og við er að búast styztur enda heimildir um atburði og uppbyggingu samfélags rýrastar. En Harald er ekki reiðubúinn að taka Íslendingasögur sem sögulegar heimildir og er yfirleitt kröfuharður á heimildir. Síðan ræðir hann um samfélag miðalda, samfélagið og tengsl á milli einstaklinga og yfirvalda. Á fjórtándu öld verður kreppa í landbúnaði á öllum Norðurlöndum líkt og víðar í Evrópu. Norðurlönd vinna sig með ólíkum hætti út úr þeim vanda og samtímis vex veldi konungs og þegar komið er fram á sextándu öld bætist lúterstrúin við og gefur konungsvaldinu aukin tækifæri á að stýra samfélaginu. Siðbótin gekk ekki átakalaust á Norðurlöndum en átökin voru ólík eftir löndum. Á sautjándu öld taka bændasamfélögin á Norðurlöndum að breytast, konungar taka sér einvald og endurskipuleggja embættismannakerfi sitt. Valdakerfi Norðurlanda tengdist valdakerfi Evrópu. Efnahagsmál tóku umtalsverðum breytingum. Á átjándu öld tekur fólksfjöldi að aukast fyrir alvöru, vöxtur er í efnahagslífi og framkvæmdar eru breytingar í landbúnaði sem hafa langvarandi afleiðingar. Á þessari öld kemur upplýsingin fram og á eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir sýn fólks á sjálft sig og samfélagið. Nítjánda öldin er öld frekari breytinga í landbúnaði, borgaralegt samfélag þróast á Norðurlöndum eins og annars staðar í Evrópu, vald konunga minnkar verulega, þjóðernisstefna nær fastri fótfestu. Í lok nítjándu aldar kemst iðnbyltingin á flug og breytir þessum samfélögum enn frekar og er enn að hafa áhrif í samtímanum. Á þessari öld hefur lýðræði fest sig í sessi í öllum þessum löndum. Á árunum milli stríða takast á öfgastefnur en lýðræðinu tekst að halda sínu. Á áratugunum eftir stríð hefur kalda stríðið áhrif á utanríkisstefnu þessara ríkja, einstaklingshyggja mótar hversdagslífið enn frekar en áður og samfélögin öll verða að glíma við spurningar sem fylgja fjölhyggju sem fylgir auknum áhrifum minnihlutahópa eins og Sama og áhrif kvenna aukast. Fyrir íslenzka lesendur þessarar bókar hygg ég að sé skemmtilegast að sjá hvernig Íslandssagan er fléttuð saman við sögu annarra Norðurlanda. Það er á köflum alveg ótrúlega vel gert. En bókin ýtir ekki undir neinn heimóttarskap heldur fær mann til að sjá söguna í samhengi, horfa á breytingar undir víðara sjónarhorni en maður er vanur. Harald Gustafsson notar ekki einfalda atburðafrásögn í þessari sögu heldur beitir hann aðferðum úr félagsvísindum til að varpa ljósi á einstaklinga og samfélög á hverjum tíma. Þannig skoðar hann efnahagslíf hvers tíma, hann lítur á samfélagsþróun, hvernig samband yfirvalda og almennings breytist í tímans rás, hvernig aðalsstétt myndast á sumum Norðurlanda. Að baki þessu öllu er svo það sjónarmið að skoða þetta svæði í samhengi við aðra hluta Evrópu. Það hófst á víkingatímanum með áhrifum kristninnar og nú á tímum koma áhrifin fram í þróun Evrópubandalagsins og tengslum þess við Norðurlöndin. Það er ekki ofmælt að segja þetta afbragðsbók. Hún er ekki sérstaklega lipurlega stíluð en stíllinn vinnur á. Það er hvergi verið að láta aukaatriði flækjast fyrir frásögninni en þó er staldrað við einstaka atburði eða frásagnir sem varpa ljósi á samtíma sinn. Höfundurinn er vel að sér í sögu Grænlendinga, Finna, Færeyinga og Álandseyinga ekki síður en Svía, Norðmanna, Dana eða Íslendinga. Honum tekst að draga fram aðalatriði í sögu ólíkra tímaskeiða og hann vekur athygli á því að sagnfræðingar hafa túlkað atburði með ólíkum hætti frá einum tíma til annars. Þetta má sjá til dæmis í því sem hann segir um stofnun Kalmarsambandsins sem minnst er á þessu ári enda 500 ár frá tilkomu þess. Það er ástæða til að hvetja alla áhugamenn um sögu til að lesa þessa bók vel. Guðmundur Heiðar Frímannsson Harald

Gustafsson