HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness hefur dæmt 18 ára gamlan mann, Andra Pál Jónsson, í fangelsi í 2 ár fyrir að hafa stungið 19 ára gamlan mann með skrúfjárni og dúkahnífi 1. janúar síðastliðinn í Keflavík.
Réðst á mann með dúkahnífi

Dæmdur í 2

árs fangelsi

HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness hefur dæmt 18 ára gamlan mann, Andra Pál Jónsson, í fangelsi í 2 ár fyrir að hafa stungið 19 ára gamlan mann með skrúfjárni og dúkahnífi 1. janúar síðastliðinn í Keflavík.

Piltarnir voru báðir í samkvæmi í heimahúsi í Keflavík að morgni nýársdags og enduðu deilur þeirra með því að Andri Páll réðst að hinum með dúkahnífi og skrúfjárni. Veitti hann honum allmikla áverka á hendi og fæti. Samkvæmi hafði staðið í húsinu frá því um nóttina og gætti þar töluverðrar ölvunar.

Ákæruvaldið höfðaði mál gegn báðum mönnunum. Þeim sem varð fyrir stungunum var gefið að sök að hafa ráðist á Andra Pál og slegið hann og veitt honum áverka. Var hann dæmdur til að greiða allan kostnað af sínum þætti sakarinnar en refsing felld niður að öðru leyti. Andra Páli var gefið að sök að hafa lagt til mannsins með dúkahnífi og skrúfjárni þannig að af hlaust stórt sár á hægra læri og hægri framhandlegg.

Við refsimat tók Héraðsdómur tillit til þess að atlagan var gerð í mikilli reiði og geðshræringu. Þótti skilyrði til að færa refsinguna verulega niður og þótti hún hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár en til frádráttar kemur gæsluvarðhaldsvist frá 2. janúar til 9. janúar. Dæmdi ber einnig allan kostnað af sínum þætti sakarinnar.