KA-menn markheppnari Akureyrarliðin Þór og KA buðu allmörgum áhorfendum upp á baráttuleik í norðlenskri rjómablíðu í gærkvöld. Hvorugt liðið hefur haft af miklu að státa síðustu árin og kannski helsta keppikeflið að sigra í þessum innbyrðis viðureignum.
KA-menn markheppnari Akureyrarliðin Þór og KA buðu allmörgum áhorfendum upp á baráttuleik í norðlenskri rjómablíðu í gærkvöld. Hvorugt liðið hefur haft af miklu að státa síðustu árin og kannski helsta keppikeflið að sigra í þessum innbyrðis viðureignum. Þórsarar hafa oftar haft betur en nú sigraði KA 3:1 og kom sér þægilega fyrir í efri hluta deildarinnar. Leikir Þórs og KA eru iðulega harðir en 9 gul spjöld og 2 rauð gefa þó vart rétta mynd af leiknum í gær því hann var alls ekki ódrengilegur. KA-menn misstu Stefán Þórðarson út af strax á 32. mín. er hann fékk sitt annað gula spjald en Þórsarar gátu ekki neytt aflsmunar lengi því Sverrir Ragnarsson fór sömu leið á 48. mínútu. Af knattspyrnunni er það hins vegar að segja að Þórsarar voru mun skeinuhættari í fyrri hálfleik og áttu ein sjö þokkaleg færi meðan KA-mönnum tókst ekki að skapa sér eitt einasta marktækifæri. Það var hins vegar KA sem skoraði eina markið í hálfleiknum. Há sending barst inn í vítateig Þórs á 6. mínútu, Steingrímur Eiðsson stakk sér fram fyrir varnarmann og stangaði boltann í netið. Þórsurum var fyrirmunað að nýta færin, líkt og í bikarleiknum á móti Þrótti í síðustu viku. Seinni hálfleikur var jafnari, meira miðjuþóf, mun færri marktækifæri en þó fleiri mörk. Á 50. mín. átti Dean Martin fyrirgjöf frá vinstri yfir varnarmenn Þórs, Einar Einarsson tók boltann á lofti og hamraði hann undir þaknetið. Glæsilegt mark. Þórsarar minnkuðu muninn á 53. mín. þegar Hreinn Hringsson skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir brot á Árna Þór Árnasyni. Staðan því 1:2. KA- menn gulltryggðu sigurinn á 65. mín. með einföldu marki. Dean Martin gaf fyrir frá hægri, Höskuldur Þórhallsson stökk upp á milli tveggja varnarmanna Þórs og skallaði boltann í netið. Þórsarar náðu aldrei að bíta almennilega frá sér eftir þetta og sigur KA því öruggur. Stefán Þór Sæmundsson skrifar frá Akureyri