MIKE Tyson baðst í gærkvöldi afsökunar á því að hafa bitið Evander Holyfield í bæði eyrun í bardaga þeirra um heimsmeistaratitilinn í þungavigt hnefaleika í Las Vegas á laugardagskvöldið. Tyson var dæmdur úr leik og Holyfield úrskurðaður sigurvegari eftir þriðju lotu, eftir að sá fyrrnefndi hafði bitið í bæði eyru heimsmeistarans.

Mike Tyson biðst afsökunar

Las Vegas. Reuter.

MIKE Tyson baðst í gærkvöldi afsökunar á því að hafa bitið Evander Holyfield í bæði eyrun í bardaga þeirra um heimsmeistaratitilinn í þungavigt hnefaleika í Las Vegas á laugardagskvöldið.

Tyson var dæmdur úr leik og Holyfield úrskurðaður sigurvegari eftir þriðju lotu, eftir að sá fyrrnefndi hafði bitið í bæði eyru heimsmeistarans. Tyson hélt blaðamannafund í gærkvöldi í Las Vegas, þar sem hann baðst afsökunar á framferði sínu. Hann sagði m.a.: "Evander, fyrirgefðu mér. Þú ert meistari og ég tek því."

Tyson las afsökunarbeiðni sína af blaði og yfirgaf síðan fundarsalinn án þess að svara spurningum fréttamanna.

Íþróttanefnd Nevada-ríkis kemur saman í dag til að ákveða hvernig refsa skuli Tyson fyrir athæfið á laugardag. Hann sagðist í gær eiga von á harðri refsingu, hann myndi una úrskurði nefndarinnar en bað þess að verða ekki dæmdur í lífstíðarbann frá hnefaleikum.

Fyrirgefðu/B1