Djasshátíð Egilsstaða hefur sl. 10 ár verið árlegur viðburður og ætíð tilhlökkunarefni djassunnendum á Austurlandi og víðar. Djasshátíðin hans Árna Ísleifs eins og hún er gjarnan kölluð hér fyrir austan hófst í Valaskjálf miðvikudaginn 25. júní.

Djasshátíð Egils-

staða ­ 10 ára afmæli

Egilsstaðir. Morgunblaðið

Djasshátíð Egilsstaða hefur sl. 10 ár verið árlegur viðburður og ætíð tilhlökkunarefni djassunnendum á Austurlandi og víðar.

Djasshátíðin hans Árna Ísleifs eins og hún er gjarnan kölluð hér fyrir austan hófst í Valaskjálf miðvikudaginn 25. júní. Það var hinn 81 árs unglingur og fiðlusnillingur Svend Asmussen ásamt þeim Jacob Fisher á gítar, Jesper Lundgaard á bassa og Aage Tanggard á trommum sem riðu á vaðið fyrir troðfullu húsi. Heiðursgestir hátíðarinnar voru þeir Vernharður Linnet og Friðrik Theodórsson sem jafnframt var kynnir. Á fimmtudagskvöld lék Tríó Sunnu Gunnlaugsdóttur og einnig sýndu dansarar úr Djassballettskóla Báru listir sínar. Á föstudag var svo Slag-bít með trommurunum Guðmundi Steingrímssyni, Þorsteini Eiríkssyni og Skapta Ólafssyni. Einnig kom fram Stórsveit Austurlands undir stjórn Einars Braga Bragasonar. Á laugardaginn spilaði Léttsveit Ólafs Gauks með söngkonunni Kristjönu Stefánsdóttur og frumfluttu þau djassverk Ólafs Gauks Ormur í lygnum Legi. Lauk þar með þessari tíundu djasshátíð Egilsstaða. Um lýsingu og hljóð sá Guðmundur Steingrímsson og sviðsmynd á Sigurgeir Baldursson

Morgunblaðið/Ragnheiður Kristjánsdóttir

Svend Asmussen og hljómsveit hans leika fyrir troðfullu húsi.

Árni Ísleifsson og Svend Asmussen.

Ólafur Gaukur; djassverk hans Ormur í lygnum Legi var frumflutt á hátíðinni.