EINN þáttur fimm ára áætlana í Sovétríkjunum sálugu voru vatnsorkuvirkjanir, en þeim var ætlað að standa undir orkuframleiðslu fyrir stóriðju eða orkufrekum iðnaði. Sovéskir verkfræðingar og pólitískir hugsjónamenn töldu að vatnsorkuvirkjanir væru ódýrasti valkosturinn til orkuframleiðslu, eins og aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Jóhann Már Maríusson, skrifar í Morgunblaðsgrein 13. maí sl.
Sovéskar fimm ára áætlanir og sextíu ára áætlanir Landsvirkjunar

Hvað gerist, spyr Siglaugur Brynleifsson , ef "hin rámu reigindjúp ræskja sig upp um Laka . . . ". EINN þáttur fimm ára áætlana í Sovétríkjunum sálugu voru vatnsorkuvirkjanir, en þeim var ætlað að standa undir orkuframleiðslu fyrir stóriðju eða orkufrekum iðnaði. Sovéskir verkfræðingar og pólitískir hugsjónamenn töldu að vatnsorkuvirkjanir væru ódýrasti valkosturinn til orkuframleiðslu, eins og aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Jóhann Már Maríusson, skrifar í Morgunblaðsgrein 13. maí sl. Höfundurinn tíundar væntanlega orkuþörf heimsins á komandi áratugum og telur að aðrir úrkostir til orkuöflunar séu margfalt dýrari en vatnsorkuvirkjanir. Í Sovétríkjunum var orkan frá stórvirkjunum notuð til stóriðjuvera og efnaiðnaðar, sem hafði þau áhrif á síðastliðnum 60-70 árum að gera Sovétríkin að mengaðasta landssvæði heimsbyggðarinnar. Þótt raforkan í Sovétríkjunum hafi verið framleidd "með þeim hreinasta hætti sem um getur . . . og hægt að halda mengun mjög í skefjum . . . ", eins og aðstoðarforstjórinn skrifar um slíka framleiðslu, þá olli notkun orkunnar eyðingu stórra landssvæða í Sovétríkjunum, auk þess sem stór landssvæði voru sett undir uppistöðulón, og með röskun lífkeðju fljótanna fór svo eftir nokkra áratugi að Svartahaf og Kaspíahaf urðu dauð höf.

Höfundur skrifar: "Stofnkostnaður vatnsorkuvirkjana er mjög mikill og fjármagnið lengi að skila sér til baka, en ef litið er til lengri tíma, kannski 50­70 ára, þá er þetta ódýrasti valkosturinn."

Síðar skrifar höfundur "en hins vegar þegar búið er að afskrifa þessar virkjanir þá eru þær algjörar gullnámur".

Við þessar framtíðargullnámur er það að athuga, að vatnsaflsvirkjanir og stórstíflur eiga ekki langt líf fyrir höndum, meðalaldur þeirra er rúm 60 ár (Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur ­ grein í Morgunblaðinu 29. maí sl.)

Draumsýn aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar um "gullnámurnar" eftir 50­70 ár yrðu því heldur rýr. Afleiðingarnar af hinum "stórhuga áætlunum" landsvirkjunarmanna um orkufrekan iðnað hér á landi og jafnvel rafmagnssölu til Evrópu eftir sæstreng hefðu þá þ.e. eftir 50­70 ár, breytt svo mynd landsins að ömurlegt yrði yfir að líta með efnaverksmiðjur og álver hingað og þangað um landið með fylgjandi umhverfisspjöllum og samfara þessum "stórhuga framkvæmdum" hlyti raforkuverð til innlends iðnaðar og hita og ljósa að stórhækka. Sú hækkun er þegar hafin að frumkvæði Reykjavíkurlistans á Reykjavíkursvæðinu um leið og hafist var handa um virkjanir við Hágöngur og eflingu Íslensks­norska járnblendifélagsins og Norður-áls í Hvalfirði, vegna þess að "stofnkostnaður vatnsorkuvirkjana er mjög mikill" eins og segir í grein aðstoðarforstjóra. Í lok greinarinnar segir: "Þegar menn eru því að setja sig upp á móti því að virkja vatnsaflið okkar, þá eru menn í raun og veru að mæla með því að láta brenna olíu og kolum í heiminum með tilheyrandi mengun . . . " Samkvæmt þessari staðhæfingu myndu hingar stórhuga framkvæmdir Landsvirkjunar bjarga hvorki meira né minna en öllum heiminum frá mengun, enda hélt einn meðlima Orkustofnunar því fram fyrir nokkru að "Íslendingar væru nú þegar og yrðu í framtíðinni stórkostlegustu framleiðendur rafmagns í heiminum, miðað við fólksfjölda".

Framkvæmdir Landsvirkjunar eru ætlaðar til stóriðju, en eins og öllum er kunnugt eru stóriðja og efnaiðnaður mestu mengunarvaldar ekki síður en illa rekin kjarnorkuver. En hér á landi kemur fleira til, sem Guðmundur Páll Ólafsson rekur í áður tilvitnaðri grein, sem er sú hætta sem felst í stórstíflum á "Eldvirkum reksvæðum, svo sem einstæðir Köldukvíslarbotnar, Veiðivatna- og Þjórsársvæðið, vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum og mun víðar" bjóða heim hættunni á mögnun jarðskjálfta eins og dæmin sanna frá "Hoover í Bandaríkjunum, Aswan í Egyptalandi, Koyna í Indlandi, Granval í Frakklandi etc."

Undirritaður leitaði til Ragnars Stefánssonar jarðskjálftafræðings og spurði hann um áhrif stórstíflna hér á landi til mögnunar jarðskjálftavirkni. Hann kvað djúp og stór uppistöðulón auka á líkur á aukinni jarðskjálftavirkni. Það þarf ekki meira til en "stórhuga virkjanaframkvæmdir" til að raska jafnvægi jarðskorpunnar í auknum mæli auk spennunnar sem þegar er fyrir hendi og getur þannig aukið á styrk jarðskorpuhreyfinga, hefjist þær á annað borð, og jafnvel komið á stað jarðskjálfta.

Hættan á jarðskjálftum hér á landi er viðurkennd af öllum jarðeðlisvísindamönnum og eldvirknin er alltaf yfirvofandi. Þess vegna eru allar framkvæmdir sem geta raskað því brothætta jafnvægi sem við búum við, hættulegar, og full þörf er á að jarðeðlisfræðingar og jarðfræðingar séu hafðir með í ráðum þegar hagsmunahópur stjórnenda Landsvirkjunar veður af stað í sínu virkjanaæði. Tilgangurinn að treysta á gullnámu eftir 50­70 ár er rugl, því eftir hálfa öld þarf að endurnýja allar stíflur og vélar og þá þarf einnig að greiða aftur það tjón, sem röskun lífríkisins hefur valdið ­ sbr. reynsluna frá fyrrverandi Sovétríkjum. ­ Hver maður hlýtur að sjá að hugmyndir vatnsvirkjunarmanna um sölu um sæstreng til Evrópu eru fáránlegar og að Landsvirkjun muni með framkvæmdum sínum koma í veg fyrir mengun heimsins, eins og aðstoðarforstjórinn virðist gefa í skyn í grein sinni.

Og í lokin, hvað gerist ef "hin rámu regindjúp ræskja sig upp um Laka?"

Höfundur er rithöfundur.

Siglaugur

Brynleifsson