VIÐ hjónin erum lengi búin að vera hundeigendur. Maðurinn minn þýddi t.d. á sínum tíma bók eftir Íslandsvininn mikla og ljúfa, Mark, sáluga, Watson og hét hún "Hundurinn minn" í þýðingu hans. Við höfum fyrir sið að fara með gömlu tíkina okkar, Tátu, út að ganga minnst þrisvar sinnum á dag og höfum alltaf með okkur poka til að þrífa upp eftir hana eins og lög gera ráð fyrir.
Hundar og menn

Andreu Oddsteinsdóttur:

VIÐ hjónin erum lengi búin að vera hundeigendur. Maðurinn minn þýddi t.d. á sínum tíma bók eftir Íslandsvininn mikla og ljúfa, Mark, sáluga, Watson og hét hún "Hundurinn minn" í þýðingu hans. Við höfum fyrir sið að fara með gömlu tíkina okkar, Tátu, út að ganga minnst þrisvar sinnum á dag og höfum alltaf með okkur poka til að þrífa upp eftir hana eins og lög gera ráð fyrir. Oftast lá leiðin að grasflötinni þar sem gróðurstöðin var einu sinni, rétt fyrir neðan gamla Kennaraskólann við Laufásveg, en við erum nýtflutt úr Þingholtunum og búum nú á Rauðalæk.

Rétt fyrir hvítasunnu ókum við með Tátu okkar og lögðum bílnum okkar sunnarlega við Laufásveginn vegna þess að við vorum eitthvað tímabundinn þann daginn. Halldór fór út með hundinn okkar, en ég sat eftir í bílnum og meðan ég beið sá ég eldra fólk vera að bera dót út í Cherokeejeppa og hugsaði sem svo að það væri á leið í sveitina og átti mér einskis ills von, en fyrr en varði kemur maðurinn askvaðandi að bílnum okkar, heldur yggldur á brun og brá og rífur upp dýrnar með miklum látum og vandar mér ekki beinlínis kveðjurnar og spurði: "Getið þið, helvítis pakkið ykkar, ekki látið hundskömmina ykkar skíta heima í Miðstræti hjá ykkur?" Og svo bætti hann því við að hann væri búinn að taka margar myndir af okkur! Mér er spurn til hvers? Því næst gekk hann yfir götuna og leit yfir grasflötina þar sem Halldór var með Tátu, en hann lét þau alveg afskiptalaus, enda vissu þau ekkert af honum. Að svo búnu sneri kappinn aftur til mín og var svo kurteis að "skreyta" bílrúðuna mína með hráka sínum. Mér var illa brugðið, en setti samt í mig kjark og sagði við hann "þér ættuð að skammast yðar, ef þér kunnið það". Rétt er að geta þess að ofangreind grasflöt er ekki einkalóð. Hún er með öðrum orðum í eigu Reykjavíkurborgar, enda opin almenningi.

Vonandi hefur eigandi Cherokeejeppans átt yndislega hvítasunnuhelgi í faðmi íslenskrar náttúru, alveg ótruflaður af samviskubiti og iðrun.

ANDREA ODDSTEINSDÓTTIR,

Rauðalæk 7, Reykjavík.

Andrea Oddsteinsdóttir.