JÜRGEN SCHNEIDER, hinn kunni þýski fasteignasvikari, kemur fyrir rétt í Frankfurt 30. júní vegna gjaldþrots fyrrverandi fasteignastórveldis hans, sem er eitthvert mesta fyrirtækjahneyksli sem um getur í Þýskalandi.


Schneider fyrir réttFrankfurt. Reuter.

JÜRGEN SCHNEIDER, hinn kunni þýski fasteignasvikari, kemur fyrir rétt í Frankfurt 30. júní vegna gjaldþrots fyrrverandi fasteignastórveldis hans, sem er eitthvert mesta fyrirtækjahneyksli sem um getur í Þýskalandi.

Schneider hefur setið í fangelsi í Frankfurt síðan hann var framseldur frá Bandaríkjunum í fyrra. Að því er hann heldur fram eiga lánardrottnar sökina á gjaldþroti fyrirtækisins, sem skuldaði rúmlega fimm milljarða marka.

Óvíst er hvort starfsmenn stórbanka verði kvaddir sem vitni í málinu. Opinberlega hefur verið sagt að ekkert hafi fundizt er bendi til þess að bankar, sem lánuðu Schneider, hafi komið óheiðarlega fram.

"Ekkert vitni hefur fengið kvaðningu um að mæta fyrir rétt og við verðum fyrst að hlusta á framburð Schneiders," sagði talsmaður saksóknarans í Frankfurt.

Schneider fjárfesti í einhverjum fínustu fasteignum Þýskalands og er því haldið fram að hann hafi blekkt banka til að lána sér með því að ýkja tekjur þær sem hann kvaðst hafa af því að leigja fasteignir sínar og með því að falsa reikninga.

Ef Schneider verður fundinn sekur á hann yfir höfði sér 15 ára fangelsi, en búist er við mun vægari dómi.

Upphaflega múrari

Fasteignajöfurinn var upphaflega múrari og varð einn frægasti verktaki Þjóðverja, kunnur fyrir að gera upp sögufræg hótel og verslunarmiðstöðvar á árunum eftir sameiningu Þýskalands þegar mikið var um að vera á þýskum fasteignamarkaði. En tekjur þær sem hann hafði af því að leigja fasteignir sínar hrukku ekki fyrir skuldum.

Þegar hrunið varð hjá Schneider greip um sig ótti á þýskum fasteignamarkaði. Fjöldi iðnaðarmanna áttu á hættu að missa atvinnuna og margir fylltust reiði í garð bankanna, sem Schneider skuldaði.

Reiðin beindist aðallega gegn Deutsche Bank AG, sem var gagnrýnt fyrir að sýna of lítið aðhald í lánveitingum og sakað um slælegt eftirlit. Fjórir af framkvæmdastjórum bankans voru leystir frá störfum vegna hneykslisins, en því var haldið fram að þeir hefðu ekkert brotið af sér.

Schneider skuldaði Deutsche um 1,2 milljarða marka og bætti bankinn gráu ofan á svart þegar Hilmar Kopper bankastjóri kallaði margar milljónir marka, sem Schneider skuldaði iðnaðarmönnum og byggingarverkamönnum, "smámuni."

Schneider og kona hans Claudia hurfu í apríl 1994 og var þeirra leitað um allan heim. Þau voru handtekin í Miami á Florída ári síðar. Claudia Schneider er sökuð um að hafa átt þátt í gjaldþrotinu og réttarhöld gegn henni fara fram síðar. Henni hefur verið sleppt úr fangelsi.