STIGAR eru lífæð húsa sem eru fleiri en ein hæð. Um þá fer öll umferð á milli hæðanna nema að lyftur taki af þeim ómakið. Það skiptir því miklu máli hvernig þeir eru hannaðir. Hvenær stigar fóru að tíðkast á Íslandi er vafalaust óljóst en svo mikið er víst að það voru stigar í baðstofum þeim sem fólk bjó í allt fram á þessa öld.
Stigar eru hluti af

okkar daglega lífi

Miklu máli skiptir, hvernig stigar eru hannaðir. Í samtali við Guðrúnu Guðlaugsdóttur sögðu arkitektarnir Helga Gunnarsdóttir og Hildigunnur Haraldsdóttir frá ýmsum atriðum sem skipta meginmáli við hönnun á stigum í íbúðarhúsnæði og stærri húsum.

STIGAR eru lífæð húsa sem eru fleiri en ein hæð. Um þá fer öll umferð á milli hæðanna nema að lyftur taki af þeim ómakið. Það skiptir því miklu máli hvernig þeir eru hannaðir. Hvenær stigar fóru að tíðkast á Íslandi er vafalaust óljóst en svo mikið er víst að það voru stigar í baðstofum þeim sem fólk bjó í allt fram á þessa öld. Í elstu húsum okkar eru stigar, svo sem í Viðeyjarstofu og á Bessastöðum svo dæmi séu nefnd og fljótlega fór að tíðkast að reisa timburhús á tveimur hæðum og þau voru auðvitað með stigum. Allar götur síðan hafa stigar gegnt stóru hlutverki í samgöngum innan húss í allflestum híbýlum landsins. Af þessu leiðir að stigar af öllum stærðum og gerðum eru til í húsum þessa lands. Það fólk sem mesta ábyrgð ber á hönnun og gerð stiga eru arkitektar. Þær Helga Gunnarsdóttir og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitektar hafa í starfi sínu haft töluvert með hönnun stiga að gera. Helga hefur ekki síst hannað stiga í stærri hús en Hildigunnur fremur unnið við hönnun stiga í íbúðarhúsum.

"Þegar ég var í námi var algeng kenning að góður stigi skyldi vera þannig úr garði gerður að fullfrískur venjulegur maður tæki ekki eftir honum," segir Hildigunnur. "Stiginn er gerður eftir réttri "formúlu" og "virkar" ef venjulegur maður tekur ekki eftir að hann er að ganga upp stiga.

Við höfum því miður nokkur dæmi hér í stórbyggingum um slæma stiga. Fyrir mér er stigi í sambandi við íbúðarhús staður þar sem lóðrétta hreyfingin fer fram og hinn lóðrétti ás í húsinu er mjög mikilvægur. Mér finnst mikilvægt í stigarýminu að fá annað hvort birtu niður í gegnum húsið eða að stiginn sé við aðal útsýnishlið hússins þannig að þegar þessi lóðrétta hreyfing á sér stað geti fólk um leið notið útsýnisins."

"Eða þá að hægt sé að sjá tvær hæðir í einu, það gefur skemmtilegri rýmistilfinningu í húsið," bætir Helga við. Þær segja ennfremur að stigar hafi alltaf verið misgóðir og útfærsla stiga geti t.d. haft talsverð áhrif á það hver sé skilgreindur fatlaður og hver ekki."

Pallar og öryggissjónarmið

Ljóst er að mun færri geta gengið bratta stiga með grunnu þrepi en geta gengið þægilegar spænskar tröppur sem eru með djúpu þrepi og aflíðandi. Þær Helga og Hildigunnur segja að það sé grundvallarviðmiðun hjá þeim báðum að skipta stigum og hafa palla af öryggisástæðum, bæði til þess að minnka slysahættu og ein til þess að lúið fólk geti hvílt sig í stigagöngunni. Beinir stigar milli hæða eru bæðir erfiðir og hættulegir.

"Í íbúðarhúsum er algengt að steypa stiga um leið og húsið er steypt upp en oft finnst mér skemmtilegri léttari stigar, ekki síst ef fólk vill spila á léttleikann og birtuna," segir Helga. "Þá eru bæði möguleikar á stálstigum og timburstigum eða blöndu af hvorutveggja. Stálið er mjög þægilegt sem burðarefni í stigum, en timbrið gefur aftur á móti hlýleikann. Þessi blanda er því heppileg.

Arkitektar geta haft talsverð áhrif á það hvernig stigar eru byggðir, en fágætt er að fólki hafi fastmótaðar hugmyndir um hvernig skuli standa að gerð stiga í húsum sínum. Í íbúðarhúsum, sem ekki eru mjög bundin af brunamálareglugerð, er spennandi kostur að hanna stigann sem einskonar sjálfstæðan hlut í húsinu. Steinstigar í húsum hafa tilhneigingu til þess að verða mjög þunglamalegir en auðvitað eru undantekningar á því sem öðru."

Þeim stöllum ber saman um að hringstigar séu ekki sérlega góður kostur. Hringstigar geta að þeirra sögn verið hættulegir, ekki síst þeir litlu og þröngu. Fólk getur rúllað niður þá og eins er þröngur hringstigi erfiður að ganga í. Eldra fólki hættir til að fá svima í þeim og svo geta hringstigar einnig verið hættulegir fyrir börn. Þeim fylgir óöryggi því það hlutfall hæðar og innstigs sem gerir stiga góðan er breytilegt eftir því hvar stigið er í þrepið. Visst hlutfall þarf að ríkja í gerð stiga sem er á þá leið að tvö uppstig og eitt innstig gera samanlagt 61 til 63 sentimetra. Þá fæst stigi sem er tiltölulega þægilegur að ganga á og hentar skreflengd fólks og er vonandi það vel heppnaður að fólk finni varla fyrir því að ganga hann.

Munur á stigum í minni og stærri húsum

En hvaða munur skyldi vera á stigum í fjölbýlishúsum og öðrum stærri húsum og svo minni íbúðarhúsum? Svarið er m.a. að í fyrrnefnda dæminu þarf að taka tillit til brunavarnamála, stigar eru þar flóttaleið og þurfa að gegna því hlutverki vel. Stigar í slíkum húsum þurfa einnig að sjást vel strax og fólk kemur inn þannig að það átti sig strax á hvar lóðrétta tengingin er.

Það er óþægilegt fyrir fólk að koma inn í stórt hús og vera lengi að leita að stiganum, hann þarf að blasa við þegar inn er komið. Lofthæð ákveður hve margar tröppur eru í hverjum stiga. Þegar stiga er skipt, er æskilegt, að þrepin séu ekki fleiri en tíu á milli palla.

Í samræmi við brunamálareglugerð eru stigar í fjölbýlishúsum yfirleitt steyptir enda rýmingarleið. Gólfefni á rýmingarleiðum þarf að vera ákjósanlegt frá brunatæknilegu sjónarmiði.

Gólfefni á stigum í stærri húsum eru oftast teppi eða dúkar. Í fjölbýlishúsum verða teppi mjög gjarnan fyrir valinu með tilliti til hljóðdempunar. Hægt er að fá teppi úr eldtefjandi efnum. Korkur er í stöku tilvikum settur á stiga en þá þarf að setja sérstakt nef framan á tröppurnar vegna þess að það vill brotna upp úr korkinum.

Að sögn Helgu sættir nútímafólk sig ekki við að aðalstigi í nýjum húsum sé brattur, en brattir stigar eru algengir í eldri húsum. Í húsum frá því um 1940 eru uppstigið mjög oft um 19 sentimetrar, nú er sjaldgæft að arkitektar hafi uppstig meira en 17 sentimetra. Í stórum húsum fyrir aldraða eru stigar svipaðir og í öðrum húsum en þar eru gerðar kröfur um rúmgóðar lyftur. Mjög æskilegt er að lyftur séu í tengslum við stiga í stórum húsum.

Aðgengi fyrir fatlaða

Gömul hús með bröttum stigum eru óaðgengileg fyrir fatlað fólk og í sumum tilvikum meina stigarnir þessu fólki aðgengi að húsnæðinu. Þá þarf að finna lausnir. Mjög einstaklingsbundið er hvernig hægt er að leysa það mál. Stundum má notast við stigalyftur en þær eru ekki alltaf góð lausn. Þar sem það er hægt eru settar hallandi brautir eða skábrautir.

Mikilvægt er fyrir fatlað fólk að hugsað sé fyrir þörfum þess þegar hús og svæði eru skipulögð. Til eru ný hverfi sem eru þannig skipulögð að fara þarf upp fjölda af tröppum utanhúss til að komast að húsunum. Það er staðreynd að í hverri fjögra manna fjölskyldu eru verulegar líkur á að einhver úr fölskyldunni eigi einhverntíma á lífsleiðinni við fötlun að stríða, hvort sem það er um lengri skemmri tíma.

Í þessu sambandi nefnir Hildigunnur að hún hafi einu sinni tekið þátt í hjólastólaralli. "Þá var m.a. fólk sem kemur að skipulagsmálum fengið til að vera í hjólastól hluta úr degi," segir hún. "Þá fyrst gerir maður sér grein fyrir hve víða eru miklar hindranir í vegi hinna fötluðu. Þótt ekki sé um að ræða nema eitt þrep þá má það ekki vera of hátt, þá er hinn fatlaði útilokaður frá að geta komist leiðar sinnar. Fólk með börn í kerrum eða vögnum nýtur líka góðs af góðu aðgengi fyrir fatlaða í hjólastólum."

En hvaða stigar skyldu vera vinsælastir hjá fólki í dag? Þær stöllur telja erfitt að segja til um það. "Fólk er mjög veikt fyrir léttum stigum," segir Hildigunnur. "Þeir eiga gjarnan að vera þannig að þeir gefi skemmtilega rýmisskynjun. Hér á landi eru ekki mörg dæmi um mjög stóra stiga, helst í Háskólanum og Landsbókasafninu. Vafalaust eru líka til stigar í átt við þá í einbýlishúsum en oftar eru þó stigarnir í annars glæsilegum húsum ekkert sérstaklega íburðarmiklir hér á landi.

Í flestum tilvikum ræður það sjónarmið að stiginn taki sem minnst pláss. Í stórum húsum með mikilli lofthæð er þetta stundum leyst með því að hafa tvo palla milli hæða. Í íbúðarhúsum er aftur á móti algengast að hafa einn pall milli hæða. Þar er lofthæðin líka algengust um 2,7 metra en í atvinnuhúsnæði er lofthæðin oft miklu meiri.

Með því að láta húsin fylgja landhalla fást góð tengsl við útirýmið. Þær Helga og Hildigunnur segjast hins vegar reyna eftir föngum að forðast að hafa stiga eða tröppur upp að húsum.

Strangari reglur um útitröppur Í byggingarreglugerð eru strangari reglur um útitröppur en aðra stiga. Þar segir að útitröppur skuli að jafnaði gerðar úr steinsteypu og þær mega ekki vera hærri en 1,5 metrar nema aðpallur sé hafður a.m.k. 1 metri á lengd og jafnbreiður tröppunum. Handrið skal að jafnaði setja báðum megin meðfram útidyratröppum, kjallaratröppum og öðrum tröppum í aðkomuleiðum að húsum. Þau skulu að jafnaði ekki vera lægri en 9oo mm á hæð.

"Mér finnst mjög varhugavert að nota útitröppur hérna á landi vegna veðurfars nema að það séu hitaleiðslur í þeim," segir Helga. Þær leggja báðar áherslu á að með útitröppum sem ekki eru með hitaleiðslum sé beinlínis verið að búa til slysahættu t.d. þegar hálkublettir myndast í tröppunum. "Við megum ekki gleyma að við búum á Íslandi. Við verðum að miða okkar kröfur og lausnir við þá staðreynd," sögðu þær Helga og Hildigunnur að lokum.

Morgunblaðið/Ásdís ARKITEKTARNIR Hildigunnur Haraldsdóttir og Helga Gunnarsdóttir.

DÆMI um "blandaðan" stiga í heimahúsi.

Morgunblaðið/Jim Smart ÞJÓÐLEIKHÚSIÐ. Aðaltrappa er hluti af arkitektúr hússins og það myndi líða fyrir breytingu á aðkomuhlið. En tröppurnar eru mikil hindrun fyrir fatlaða.

SKÁBRAUT í nýja Hæstaréttarhúsinu er dæmi um góða lausn fyrir fatlaða.