Á SÍÐASTA Alþingi var samþykkt ný löggjöf um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar, þ.e. þjóðkirkjunnar. Þar með var náð niðurstöðu í áralangri umræðu um stöðu kirkjunnar og urðu miklar breytinar á. Hin nýja löggjöf skapar þjóðkirkjunni nýjan grundvöll með auknu sjálfstæði um stjórn innri málefna hennar sem um aldir hefur verið á hendi ríkisvaldsins.
Þjóðkirkjan enn í árekstrum

Ég vona að árekstrum í kirkjunni linni, segir Árni Ragnar Árnason, og gott samstarf megi ríkja milli leikmanna og presta.

Á SÍÐASTA Alþingi var samþykkt ný löggjöf um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar, þ.e. þjóðkirkjunnar. Þar með var náð niðurstöðu í áralangri umræðu um stöðu kirkjunnar og urðu miklar breytinar á. Hin nýja löggjöf skapar þjóðkirkjunni nýjan grundvöll með auknu sjálfstæði um stjórn innri málefna hennar sem um aldir hefur verið á hendi ríkisvaldsins. Fjölmörg ákvörðunarefni um kirkjustarf eru flutt til stofnana þjóðkirkjunnar sjálfrar sem hefur þannig fengið sjálfstæði til að móta kirkjuna, safnaðarstarf, boðun orðsins og þjónustu á hennar eigin forsendum, með umfjöllun og ákvörðunum bæði leikmanna og presta.

Miklar vonir eru bundnar við að hin nýja löggjöf leiði til öflugrar þjóðkirkju sem byggi á einingu í eigin röðum. Það skapaði nú nokkurn vanda að þjóðkirkjan hefur á undanförnum misserum og síðustu árum átt við veikleika og óeiningu að stríða. Ég hyggst ekki rekja hér einstök atvik, en til árekstra af ýmsu tagi hefur komið á þessu tímabili í almennu kirkju- og safnaðarstarfi.

Allur almenningur vonar að sundrungu í kirkjunni megi linna þar sem upp hefur komið og kirkju- og safnaðarstarf fara fram í eindrægni, sem er því nauðsynleg umgjörð. Því voru miklar væntingar bundnar við þann hljóm sem næst mundi berast frá helstu samkundum kirkjunnar um mál hennar og stefnu í kjölfar aukins sjálfstæðis. Við almennir leikmenn höfum vænst ákvarðana, ályktana og leiðsagnar frá helstu ráðstefnu presta þjóðkirkjunnar um nýja samstöðu og ný sjónarmið sem heyra mætti og draga af þá vissu að nú horfi til betri vegar.

Því miður hefur ekki tekist svo vel til, heldur bar á endurómi eldri ágreiningsmála á nýlokinni Prestastefnu. Þaðan sendi forysta prestastéttar köpuryrði í garð leikmanna sem starfað hafa af mestri fórnfýsi innan kirkjunnar. Til bragðbætis var svo slett á alþingismenn og talað sem svo að löggjafarstofnun þjóðarinnar ætti ekki skipta sér af málum þjóðkirkjunnar eftir að sjálfir prestarnir hafa um vélað. Ég er að vísu ekki lærður heldur einungis leikur, en ég er í hópi þeirra almennu leikmanna, sóknarbarna kirkjunnar sem vilja efla veg hennar og eiga hana að í stormum og meðbyr lífsins. Þegar ég leit yfir síðustu ágreinings- og ályktunarefni nýlokinnar Prestastefnu, var ég ekki alveg laus við áhyggjur af velferð og virðingu þjóðkirkjunnar. En svo kunna hinir lærðu eflaust að útskýra hina kirkjulegu samleið hvalveiða og boðunar orðsins, og hvar skildi á milli kærleiksboðskaparins og umburðarlyndis.

Löggjöf um þjóðkirkju

Einungis með lögum frá Alþingi verður skilgreind staða þjóðkirkju, og án slíkrar löggjafar verður engin Þjóðkirkja. Við umfjöllun um hina nýju löggjöf kom skýrt fram, að almenn sátt ríkir um mikilvægi þjóðkirkjunnar og að hún skuli áfram gegna því hlutverki, sem fylgja bæði mikil réttindi og ríkar skyldur og ábyrgð. Ef niðurstaða um þennan þátt málsins hefði orðið önnur, þ.e. að hér skyldi ekki lengur vera þjóðkirkja, þá hefði Alþingi afnumið alla löggjöf um þjóðkirkjuna en sett í hennar stað nýja almenna löggjöf um jafnræði, jafna ábyrgð, jafnar skyldur og jöfn réttindi allra trúfélaga. Ef forystumenn prestastéttar þjóðkirkjunnar telja nú í fullri alvöru að Alþingi eigi ekki að setja löggjöf um stöðu kirkjunnar, verða þeir að segja hreint út að þeir telji rétt að skilja að ríki og kirkju, afnema tilveru og hlutverk þjóðkirkjunnar.

Prestar hennar hefðu þá ekki þurft að ræða um stöðu þeirra sem embættismenn ríkisins, því það hefði Alþingi fellt niður. Af hálfu forystu prestastéttarinnar kom hins vegar afdráttarlaust fram eindreginn vilji til að prestar þjóðkirkjunnar verði áfram embættismenn ríkisins. Alþingi féllst á það, en eftir efnislega athugun og umræðu var niðurstaða þess sú, að þó prestar þarfnist sjálfstæðis til boðunar og þjónustu, þarfnist þeir ekki þess að verða algjörlega óháðir öðrum á sama hátt og dómarar. Nú er skipun í embætti almennt til fimm ára. Að þeim liðnum má endurnýja, ellegar ákveða með rúmum fyrirvara að svo verði ekki. Undantekning er skipan dómara og þarf varla að útskýra nauðsyn þess að þeir séu óháðir framkvæmdavaldi og á engan hátt undir það settir.

Ég er þeirrar skoðunar að önnur lausn sé til við þessu álitaefni. Prestar geti verið embættismenn kirkjunnar sjálfrar sem mundi þá sjálf skilgreina stöðu sinna embættismanna. Hún gæti þá skilgreint prestvígslu sem æviráðningu þ.e. embættisveitingu, en skipun til prestakalls, safnaðar eða sérþjónustu sem skammtíma starfsskipun til afmarkaðs tíma.

Ég vona enn að árekstrum innan kirkjunnar megi linna og ríkja gott samstarf leikmanna og presta. Undirstaða þess er að prestar og leikmenn líti hver á annan sem jafningja en ekki hvor á hinn sem undirsáta sinn né andstæðing.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Reykjaneskjördæmi.

Árni Ragnar Árnason