NÝLEGA var opnað veitingahúsið Fantasía við Laugaveg 103. Þar er í hádeginu boðið upp á snögga afgreiðslu og hægt að fá heimilismat, samlokur, súpu og salat svo eitthvað sé nefnt. Á kvöldin eru borð dúkuð, þjónað til borðs og valið af matseðli. Það eru hjónin Ingólfur Karl Sigurðsson og María Guðnadóttir sem reka staðinn en fyrir eru þau með veitingahúsið Kabyssuna í Kópavogi.
Nýr veitingastaður Heimilismatur í hádeginu

NÝLEGA var opnað veitingahúsið Fantasía við Laugaveg 103. Þar er í hádeginu boðið upp á snögga afgreiðslu og hægt að fá heimilismat, samlokur, súpu og salat svo eitthvað sé nefnt. Á kvöldin eru borð dúkuð, þjónað til borðs og valið af matseðli.

Það eru hjónin Ingólfur Karl Sigurðsson og María Guðnadóttir sem reka staðinn en fyrir eru þau með veitingahúsið Kabyssuna í Kópavogi. Þá er einnig rekin veisluþjónusta á staðnum. "Við verðum með nokkurskonar kaffiteríuform á þessu í hádeginu, viðskiptavinir velja sér rétti úr langborði og borga svo við kassann. Þjónustan verður hröð því oft er vinnandi fólk með takmarkaðan tíma í hádegi. Á kvöldin ætlum við að leggja meira uppúr þjónustu og notalegu andrúmslofti", segir Ingólfur Karl.

Við báðum hann að gefa lesendum uppskrift að einhverju léttu í góða veðrinu og ýsa að frönskum hætti varð fyrir valinu.

Ýsa á franska vísu

2 ýsuflök

1 egg

bolli heilhveiti

1 bolli hveiti

1-2 msk sesamfræ

1 laukur

salt, pipar

graslaukur

Sósa:

1 dós sýrður rjómi

1 msk sætt sinnep

dill

edik

sprite

Ýsunni er velt uppúr egginu. Ýsan sett í blöndu af heilhveiti, hveiti og sesamfræi. Steikt í smjöri á pönnu. Kryddað. Laukur er saxaður niður og léttsteiktur. Ýsan er borin fram með lauk, kartöflum, sítrónu og ferskum agúrkum og tómötum.

INGÓLFUR Karl og María Guðnadóttir eigendur staðarins

VEITINGAHÚSIÐ Fantasía

Morgunblaðið/Jim Smart